Blómabúð með litlu kaffihúsi
Draumur Katrínar í Blóm og kaffi að reka fallegt lítið franskt eldhús í blómabúðinni sinni er að rætast.

Við Reykjavíkurveg 60 í Hafnarfirði er einkar smekkleg og notaleg blómabóð sem ber heitið Blóm og kaffi. Þar ræður ríkjum Katrín Helga Reynisdóttir sem segir að enn sem komið er sé hér aðallega um blómabúð að ræða en á því verði fljótlega breyting, hún stefni að því að opna kaffihúsið innan nokkurra daga. Hún bjóði þó upp á netkaffi.
Það fyrsta sem vekur athygli þegar gengið er inn í Blóm og kaffi, er öll sú fallega gjafavara sem er þar á boðstólum enda segist Katrín vera með öll helstu merkin í gjafavörum, SIA, Cult Design, Bröste og Housedoctor sem er danskt. „Ég legg líka mikið upp úr því að vera með falleg kerti og mikið úrval af servíettum,“ segir hún og bendir um leið á risastór mexíkósk kerti sem ætluð eru til brúks innandyra. Hér er um að ræða undurfögur ilmkerti og hægt að fá hinar ýmsu ilmblöndur, auk þess sem þau eru fagurlega skreytt með þeim afurðum sem ilmurinn er unninn úr.
 
Eðalkaffi og heitt súkkulaði
Katrín segist hafa opið í Blóm og kaffi frá ellefu á morgnana til níu á kvöldin og segir að á því verði full þörf eftir að kaffihúsið opnar. „Ég held að allir haldi að ég sé eitthvað að bulla þegar ég tala um að opna kaffihús hér. Það er heilt ár síðan ég ætlaði að gera það, en alls konar reglurgerðir og skilyrði hafa tafið framkvæmdina. Ég ákvað að vera ekkert að æsa mig yfir því, heldur anda bara rólega og láta góða hluti gerast hægt í þeim efnum.
Hugmynd mín og draumur er að útfæra allt hér í frönskum stíl. Ég var að skoða  blómabúðir/kaffihús í París og hreifst mikið af þeim. Í desemberbyrjun verður þetta komið og þá ætla ég að bjóða upp á kaffi, heitt súkkulaði og létt meðlæti. Ég er með ítalskt Bonomi kaffi sem kaffibúðin í Hamraborg flytur inn. Alveg rosalega gott kaffi. Ég hlakka virkilega til að bjóða mínum viðskiptavinum upp á það.“
Auk gjafavörunnar er Blóm og kaffi með afskorin blóm, pottaplöntur og allar blómaskreytingar. „Við útbúum allar tegundir af skreytingum fyrir fólk,“ segir Katrín, „erum með fagfólk í vinnu sem sér um það. Bæði aðventu- og jólaskreytingar sem og kransa og blómaskreytingar fyrir jarðarfarir og brúðkaup.

Franskt og feminin
Þegar ég verð búin að opna kaffihúsið, eða eftir áramótin, ætla ég að vera með uppákomur hér á einhverra vikna fresti. Hugmyndi er að þetta verði þægileg blómabúð með litlu þægilegu kaffihúsi – og svo ætla ég að vera með uppákomur fyrir konur. Bara það sem mér dettur í hug á fimm til sex vikna fresti. Og þar sem ég er með afar  góða aðstöðu á bak við, stefni ég að því að fá gott fagfólk til að vera með kransanámskeið og blómanámskeið; skreytingar tengdar blómum.
Ég er dálítið að stíla inn á að þetta verði griðstaður fyrir konur sem vilja slaka á, anda að sér blómailmi og fá sér bolla af eðalkaffi. Franskt og feminin.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga