Jólahald hjá séra mömmu

Prestar hafa þeim skyldum að gegna að færa okkur jólin með guðspjallinu og þeirri helgi sem er ófrávíkjanleg í jólahefðum okkar. Guðbjörg Jóhannesdóttir er fimm barna móðir sem hefur gegnt prestsembætti í tíu ár – og það hefur mótað jólahefðirnar á hennar heimili.
Þegar kirkjuklukkurnar hringja inn jólin á aðfangadag og við munstrum okkur til að setjast að jólamatnum – er þó ein stétt sem einmitt þá er að mætta í vinnu til að hefja upp raust sína og flytja okkur jólaboðskapinn. Það eru prestarnir – sem einnig geta verið mömmur. Ekki ólíklegt að börn þeirra álíti einhverja hugsanavillu í textanum um hana Gunnu á nýju skónum þar sem segir „mamma er enn í eldhúsinu, eitthvað að fást við mat.“ Og stundum er hópurinn nokkuð stór sem bíður eftir að jólavinnu séra mömmu ljúki.

Ein þeirra kvenpresta sem hefur mátt finna lausn á því að innleiða jólin hjá okkur hinum, ásamt því að skapa jólastemningu fyrir fjölskylduna er séra Guðbjörg Jóhannesdóttir sem þjónar nú í Háteigskirkju, eftir að hafa verið sóknarprestur Sauðkrækinga í níu ár. Og börnin?
Þau eru fimm.

Eftir að Guðbjörg útskrifaðist frá guðfræðideild Háskóla Íslands var hún heimavinnandi í tvö ár áður en hún réðist til starfa á Króknum. Börnin voru þrjú, eins, tveggja og fimm ára og þegar fjölskyldan flutti norður, bættist sjö ára dóttir eiginmannsins í hópinn. Hinn bráðungi sóknarprestur mætti því í prestakallið með fjögur ung börn. Hún segir það þó ekki hafa verið alveg eins erfitt og það hljómar, vegna þess a að allir hafi verið heilbrigðir svo það hafi ekki verið neitt alvarlegt til að kljást við. Bara þetta venjulega.

Heimavinnandi húsmóðir gerist sóknarprestur
En hvers vegna Sauðárkrókur?
„Allt föðurfólkið mitt er frá Sauðárkróki og staðan var laus. Auk þess gat maðurinn minn flutt sig þangað til í starfi hjá endurskoðunarskrifstofu Deloitte,“ segir Guðbjörg – en viðurkennir að þetta hafi þó verið nokkuð stórt stökk. Fyrsta prestakallið og fjögur börn sem eru að skipta um umhverfi. „En það var alveg yndislegt að vera fyrir norðan og mikil eftirsjá að staðnum, en ég var búin að vera þarna í níu ár og það var kominn tími á breytingar, bæði fyrir mig og söfnuðinn. Þetta er stórt prestakall og aðeins einn prestur sem þjónar því. Mér fannst ég búin að ná þeim markmiðum sem ég setti mér í upphafi. Ég hefði alveg getað hugsað mér að vera áfram í Skagafirði, en vildi færa mig til í starfi. Mér fannst það alveg nauðsynlegt til að halda mér þokkalega ferskri. Maðurinn minn var líka að færa sig til í starfi, svo það kom af sjálfu sér að við flyttum til Reykjavíkur.

Guðbjörg er þetta árið að leysa af í Háteigskirkju, sem er risastórt prestakall en hún segir álagið um jólin gerólíkt því sem hún á að venjast að norðan; messurnar mun færri. Fyrir norðan var hún með átta messur um jólahátíðina en það hafi ekki verið erfitt. „Það kann að hljóma undarlega en það er mjög gaman að vera með átta messur yfir jólahátíðina. Þá koma svo margir í kirkjuna, en ekki síður vegna þess að það er orðið hluti af lífsmunstri fjölskyldunnar að fara í messur um jólin. Eiginmaðurinn og krakkarnir fóru því mikið með mér í þessar messur, þótt þau mættu ekki í þær allar.“Að koma sér í gírinn
Það er ekki eins og prestar geti bara staðið upp frá skúringarfötunni, eða sósunni, eða steikinni, vippað sér í skrúðann og látið svo bara vaða. Hverja messu þarf að undirbúa, skrifa prédikun sem á við stund og stað. Þegar Guðbjörg er spurð hvernig hún hafi sameinað undirbúning jólahaldsins heima og í kirkjunni, segir hún: „Þetta er eins og með allt jólahald, það þarfnast undirbúnings. Maður er ekkert að geyma hann fram á síðustu stundu, hvort sem maður er að baka átján sortir eða skrifa fimm prédikanir. Undirbúningurinn hjá mér hefst 1. nóvember.

Ég er ein af þessu klikkaða fólki sem verður alveg rosaglatt þegar það sér fyrstu jólaauglýsinguna frá IKEA. Þá hugsa ég alltaf: „Vei! Nú get ég farið að koma mér í gírinn!“ Og ég byrja strax að undirbúa jólin fyrir heimilið. Nóvember mánuður hjá mér snýst um að létta mér lífið, ganga frá hlutum eins og jólakveðjum, en í stað þess að skrifa hundrað jólakort, skrifum við jólabréf sem við ljósritum og sendum síðan á fjölskyldu og vini. Og Guð blessi Jóa Fel og alla hina bakarana fyrir smákökurnar sem þeir baka fyrir okkur... Veistu, maður þarf ekkert að gera sér þetta svo erfitt.“

Í fljótu bragði er ekki hægt að sjá að Guðbjörgu finnist neitt erfitt. Á meðan hún bjó fyrir norðan lauk hún mastersprófi frá lagadeild Kaupmannahafnarháskóla í „Mediation and Conflict Resolution“ sem gæti útlagst sem „Sáttaumleitun og lausnir ágreinings.“ Því námi lauk hún á tveimur árum með því að skreppa einu sinni í mánuði frá Sauðárkróki til Kaupmannahafnar, auk þess sem hún var í hálfu starfi um tíma og fékk síðan fjögurra mánða leyfi frá störfum til að ljúka náminu.

Vel skipulagðir helgidagar
En aftur að jólunum. Jólaprédikanir er ekki hægt að skrifa á síðustu stundu og Guðbjörg byrjar að huga að þeim um mánaðarmótin nóvember/desember. „Þá byrja ég að punkta hjá mér ýmislegt sem mér dettur í hug og byggi þær smám saman upp. Það er með þær, eins og átján sortirnar: Hafi maður ákveðið að gera þetta, þá er það alls ekkert óyfirstíganlegt.“

Á Sauðárkróki var Guðbjörg með átta messur síðustu viku ársins, þrjár á aðfangadag, tvær á jóladag, eina á þorláksmessu, eina á gamlárskvöld – og eina í sveitinni. Hún segist þó ekki alltaf hafa verið með sitthvora ræðuna. „Ég var með jólaræðu við sama texta á Sauðárkróki og í sveitinni,“ segir hún og aðspurð út frá hverju hún leggi í jólaræðu svarar hún því til að það sé misjafnt út frá hverju hún leggur í ræðunum. „Fyrst og fremst legg ég út frá jólatextunum. Svo fer það eftir árferði hverju sinni og manns eigin þroska og hugsun hvernig maður leggur út frá þeim. Oft er eitthvað sem hefur verið að gerast hjá söfnuðinum sem er gott að fjalla um vegna þess að stór hluti hans er saman kominn í jólamessunni. Annars er eru jólin ekki mesti annatíminn hjá prestum, heldur páskafastan og páskarnir.”

Hjá okkur eru mestu jólaannirnar á heimilinu eins og hjá öðrum, og vissulega þurfti ég að skipuleggja helgidagana vel þegar ég var með svo margar messur. Við vorum fljót að koma okkur upp vissum hefðum til að létta álagið. Eftir að við fluttum norður borðuðum við alltaf hangikjöt á aðfangadag, til dæmis. Ekki vegna þess að okkur þætti það besti jólamaturinn, heldur vegna þess að það var hægt að elda það daginn áður. Á meðan við vorum fyrir norðan mætti líka stórfjölskyldan um jólin og létti undir með okkur. Ég gat messað áhyggjulaust því amman sá um uppstúfið og öll hjálpuðumst að. Ef satt skal segja, þá kem ég lítið nálægt eldamennsku um jólin. Ég kem bara heim úr vinnunni og sest við matarborðið með bros á vör.“

Börnin þekkja ekkert annað
Guðbjörg segir börnin ekki hafa haft orð á því að jólin þeirra væru eitthvað öðruvísi en hjá öðrum. „Þau þekkja lítið annað og finnst þetta bara eðlilegt. Að vísu var ég í fæðingarorlofi ein jólin, eftir að fimmta barnið fæddist og það var mjög notalegt. Hins vegar muna krakkarnir ekki eftir jólum áður en ég fór að vinna sem prestur en líklega þætti þeim þægilegt að ég væri alltaf heima á þessum tíma en þannig er það bara ekki hjá okkur.”

„Við höfum líka skapað okkur vissar hefðir sem gera dagana skemmtilega. Aðfangadagur  hefst t.d. alltaf eldsnemma á morgnana hjá okkur. Þá hefur Kertaskníkir komið og búið til ratleik um allt húsið. Hvert barn fær einn miða í sinn skó frá honum og síðan þurfa þau að raða saman öllum miðunum til að fá fyrstu vísbendinguna. Þá er oft heilmikið fjör hér. Við hjónin vöknum alltaf við slík læti að það er eins og fílahjörð sé í húsinu, þau hrópa og kalla á milli sín, hlaupa um og stappa, hlæja og skríkja. Vandinn er bara sá að þau eru orðin alltof flink í þessum ratleik. Kertasníkir verður að fara að herða sig.“

En nú er fjölskyldan flutt suður og því fylgja breytingar á jólahaldi hennar. „Helsta breytingin er sú að ég er með miklu færri messur og get verið meira heima, klukkan sex á aðfangadag, klukkan tvö á annan í jólum og klukkan tvö á nýársdag. Við erum tvö sem sinnum prestsstörfum í Háteigskirkju og skiptum messunum á milli okkar. Ég er að leysa af í kirkjunni og geng því bara inn í það kerfi sem verið hefur þar. Og nú þarf stórfjölskyldan ekki að ferðast yfir heiðar til að eyða jólunum með okkur. Það sem við eigum kannski eftir að sakna mest þessi jólin er messan í sveitinni, úti á Skaga. Í þá messu fór öll fjölskyldan með mér, þannig að það var mikilvægur hluti af okkar jólahefð.“

Ánægjulegar stundir í kirkjunni
En það er ekki bara um jólin sem séra mamma þarf að vera í vinnunni á óvenjulegum tímum. Aðventan er jú upptakturinn að jólahátíðinni og þá er í ýmsu að snúast í kirkjunni. „Kór Háteigskirkju verður með stóra tónleika á fyrsta sunnudag í aðventu, svo er aðventustund við kertaljós, skólaheimsóknir og almennar messur. Ekki má svo gleyma kröftugu barnastarfi alla sunnudaga og í miðri viku.  Svö öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.”

Í Háteigskirkju eru líka kvöldmessur öll fimmtudagskvöld kl.20 og þangað getur fólk komið, tekið þátt í fyrirbæn, sungið, róað sig niður og farið heim með ljós í hjarta. Aðventan snýst um undirbúning og hér á heimilinu höfum við haldið fast í þann skilning. Við skreytum heimilið eftir messu fyrsta sunnudag í aðventu. Þá eru allar seríur teknar fram og veitir svo sannarlega ekki af í skammdeginu.

Hvert tímabil í kirkjunni hefur ákveðinn lit og litir hafa áhrif á okkur. Litur aðventunnar er fjólublár. Hann hvetur okkur til íhugunar og endurskoðunar. Þennan tíma á maður, til dæmis, að nýta til að taka til í hjónabandinu og huga að samskiptunum við börnin. Desember er líka rétti tíminn til að byrja að hreyfa sig – ekki janúar. Það er einmitt á þessum tíma sem við erum í endurskoðun og átaki í kirkjunni. Það er ákveðinn ryþmi í kirkjuárinu sem gott er að nota til að móta tíma sinn.“

Þegar allt átti að vera fullkomið
Fyrir utan auglýsingu IKEA um að jólin séu að koma, segir Guðbjörg auglýsingahávaðan í fjölmiðlum lítil áhrif hafa á sig. „Ég er yfirleitt búin að kaupa jólagjafirnar áður en sú hrina skellur á. Núna hlakka ég hins vegar mikið til að fara í bæinn á Þorláksmessu, ganga um miðbæinn og Laugaveg og njóta mannlífsins. Ég er svo heppin að vera í fríi þennan dag.“

Það er eins og allt sé frekar áreynslulaust og létt í höndum Guðbjargar – en hún segist líka reyna að læra af mistökum sínum. „Fyrstu jólin á Sauðárkróki voru mikilvæg lexía. Þau jól vorum við amma algerlega sammála um að ég ætti að skila manninum mínum, því hann væri náttúrlega óalandi og óferjandi.  Það var auðvitað ekkert að mér !”

Við vorum algerlega óvön og óundirbúin að takast á við fyrstu jólin þar. Ég gerði sömu væntingar til jólanna og á meðan ég var heimavinnandi, nema ég færði þessar kröfur yfir á manninn minn sem hafði allt aðra skítastuðla en ég. Og það átti allt að vera fullkomið. Hátíðartónið átti að vera svo pottþétt að ég var í mánuð að æfa mig fyrir það. Prédikunin átti að vera pottþétt, heimili átti að vera fullkomið og börnin óaðfinnanleg. Það voru allir að truflast!“

Upphaf að jafnrétti
„En í stað þess að skila þessum elskulega manni, settumst við hjónin niður eftir jólin og ræddum ástandið sem komið hafði upp. Við vorum sammála um að láta þetta aldrei gerast aftur. Við ræddum líka hvernig við vildum hafa hlutina vegna þess að við höfðum lítinn áhuga á að gera okkur þetta svona erfitt aftur. Í stað þess að stressa okkur á því að vera með allt eftir einhverjum kúnstarinnar reglum um jólin, reynum við að njóta aðventunnar og jólanna og hafa það huggulegt. Það tekst yfirleitt vel og hjá okkur er þetta góður tími.  Að vera saman er mikilvægast, og njóta þess. Samverustundir eins og sú regla að borða saman á kvöldin og fara með borðbæn á undan er sem dæmi mjög afstressandi.”
Fyrstu jólin á Sauðárkróki voru dýrmæt reynsla fyrir okkur bæði. Þau urðu til þess að við komum upp betri verkaskiptingu.  Eftir þau jól fórum við að vinna meira saman. Ef kona, sem er prestur, ætlar að halda jól sem eiga að vera eins og þegar hún var heimavinnandi, þá getur það bara endað með ósköpum. Ef allt sem við erum að kenna og boða, skilar sér ekki inn á heimilið, þá er eitthvað mikið að sem þarf þá bara að laga. Það er ekkert hægt að tala um Jesúbarnið og fara svo beint heim og garga á fjölskylduna.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga