Börnin skapa jól
Jólaundirbúningurinn er kominn á fullt skrið í skólum og leikskólum landsins. Börnin keppast við að búa til jólagjafir, jólapappír, jólakort, jólaskraut – og fátt er dýrmætara og eftir minnilegra en gripir sem hafa orðið til í litlu höndunum á börnunum okkar.

Í Barnaskóla Hjallastefnunnar hefur yngsti árgangurinn, fimm ára börnin, unnið af alúð síðustu vikurnar, með myndlistarkennaranum sínum, Þuríði Bogadóttur, við að búa til fallega gripi til gjafa og skreytinga.
Skólastjóri yngri deilda skólans er Dóra Margrét Bjarnadóttir og segir hún myndlistarkennsluna vera tilraun sem hófst síðastliðið haust. „Við fengum Þuríði til liðs við okkur, sem er leikskólakennari með margra ára reynslu og hefur lokið sérnámi í listgreinum með börnum. Hún hefur skipulagt og séð um myndlistarkennsluna í haust.  Reynslan nú þegar er mjög góð og þetta eru þeir tímar sem börnin hlakkar mest til. Við höfum skipt krökkunum niður í hópa og hver hópur er í myndlistinni í fjóra daga, í einn og hálfan tíma fyrir hádegi og eina klukkustund eftir hádegi.
Þetta fyrir komulag skilar sér líka til annarra kennara vegna þess að Þuríður hefur sína eigin stofu til kennslunnar. Hún undirbýr alla tíma sjálf og hreinsar eftir tímana líka. Kennarinn mætir bara með hópinn sinn og getur einbeitt sér að því að halda utan um hann og fylgjast með honum, samskiptum og slíku.“           
        Hver hópur mætir í listsköpun í eina viku í senn á sex vikna fresti og í húsinu er sex hópar. Þuríður er ekki síður ánægð með vinnuna með krökkunum en skólastjórinn. Haustið segir hún hafa farið í myndlist, vegna þess að sú grein sé góð til að kynnast krökkunum og vinna traust þeirra. Eftir áramótin langar hana nefnilega að búa til leiksýningu með þeim. Sýningu þar sem krakkarnir gera allt sjálfir; semja sögu og söngva, syngja, leika, gera leikmynd og búninga.
        

         

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga