Jólin í húsum hinna dæmdu

Séra Hreinn S. Hákonarson fangaprestur segir jólin erfiðan tíma í lífi fanga og líðan þeirra blendna. Álagið í starfi hans við sálgæslu og aðstoð við fanga og fjölskyldur þeirra eykst nokkuð á aðventunni.

Jólin, fjölskylduhátíð ljóss og friðar, með fagnaðarboðskap og gleði eru ekki endilega hamingjudagar hjá öllum. Það er ekki gefið að glatt sé í döprum hjörtum á aðfangadag. Víða er fólk sem finnur mest fyrir einsemd og söknuði einmitt á jólunum. Meðal þeirra eru fangar sem afplána refsivist – og fjölskyldur þeirra. Því hefur fangaprestur Þjóðkirkjunnar, sr. Hreinn S. Hákonarson fengið að kynnast.

Hreinn sem hefur gegnt embættinu í rúm fjórtán ár, er prestur fanganna, ekki fangelsanna. Hans skjólstæðingar eða sóknarbörn eru í öllum fangelsum landsins, sem og á réttargeðdeildinni að Sogni í Ölfusi.

„Þetta er stærri hópur en virðist við fyrstu sýn,“ segir Hreinn, „vegna þess að fangafjöldinn er, í öllum fangelsum landsins, rúmlega 125 manns og í kringum flesta þeirra eru fjölskyldur. Þótt ég segi að fangafjöldinn núna sé um 125, þá er mikið og stöðugt streymi, menn losna út sem betur fer og aðrir koma því miður inn. Fangafjöldinn á hverjum tíma segir því ekki allt um umfang starfsins. Þetta eru menn sem tilheyra ýmsum trúfélögum en við gerum engan greinarmun á þeim. Ef menn vilja prestsþjónustu þá stendur hún þeim til boða, hvort sem þeir eru í Krossinum eða Ásatrúarsöfnuðinum – og allt þar á milli. Þjóðkirkjan hefur veitt þessa sérþjónustu frá árinu 1971, þegar sr. Jón Bjarman varð fyrsti fangapresturinn.“

Sálgæsla og aðstandendur    
Hreinn segir starfið fjölbreytilegt og margt óvænt beri við í því en meginþunginn felst í sálgæslu, eða  sálusorgun sem er svo kölluð. Það eru trúnaðarsamtöl við fangana og stundum reyndar hópsamtöl við þá á vinnustöðunum í fangelsunum. Auk hefðbundins helgihalds óska sumir eftir því að með þeim sé beðið. Þá gefur Hreinn út lítið blað, „Á leiðinni,“  einu sinni í mánuði. Blaðið afhendir hann hverjum fanga og ritar þar ýmislegt sem hann telur að komi föngum að góðu haldi og hjálpi þeim í afplánuninni. „Fangarnir eiga greiðan aðgang að  fangapresti sem kemur reglulega til þeirra í fangelsin,“ segir Hreinn. „Ég er ekki með skrifstofu í fangelsunum og sit ekki á bak við borð þegar ég tala við þá, heldur fer til þeirra inn í klefana; mæti þeim á þeirra vettvangi. Síðan eru samskiptin við fjölskyldur fanganna, yfirleitt mæðurnar og aðra nánustu aðstandendur. Þeir hafa oft áhyggjur út af fangavistinni og bera eðlilega umhyggju fyrir sínum nánustu sem eru bakvið lás og slá. Aðstandendur fanga hafa stofnað með sér félag, Aðgát, og hittast reglulega, fyrsta þriðjudag hvers mánaðar í safnaðarheimili Fríkirkjunnar í Reykjavík

Fólk  veit yfirleitt lítið um fangelsin og heldur að aðbúnaður sé mjög slæmur – en hann er mun betri en það heldur. Síðan eru í gangi ýmsar hugmyndir um fangelsi sem byggja á misskilningi eða aðfengnum hugmyndum úr amerískum kvikmyndum. Afplánunarfangelsi í landinu eru fimm. Litla-Hraun er þeirra stærst og þar er einnig gæsluvarðhaldsdeild. Svo er það Kvíabryggja sem nýbúið er að endurnýja og stórbæta. Síðan eru það Kópavogsfangelsið sem er kallað kvennafangelsið en þar eru karlar og konur, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og fangelsið á Akureyri sem er lokað núna vegna endurnýjunar og verður opnað aftur á nýju ári. Að lokum er það   svo réttargeðdeildin á Sogni en ég er prestur hennar. Hún er sjúkrahús og er fyrir ósakhæfa afbrotamenn. Á þessa staði fer ég reglulega og reyni að vera sýnilegur og kynnast skjólstæðingunum persónulega en það tel ég vera lykilatriði.“

Tækifæri til að hugsa sinn gang  
Hreinn segir langflesta fangana vilja tala við hann þegar hann kynnir sig. „Það er enginn sem snýr eitthvað upp á sig. Ég er starfsmaður þjóðkirkjunnar, en ekki fangelsiskerfisins, þannig að ég kem utan frá ef svo má segja. Það er kostur en getur líka verið galli.“  Til hliðar við þjónustuna við fangana er Hreinn formaður Verndar, fangahjálparinnar. Vernd rekur áfangaheimili á Laugateigi, þar sem menn ljúka síðasta hluta afplánunar sinnar. Þeir sækja um það en til þess að fá vistun þar, verða þeir að vera í vinnu eða skóla. Þetta segir Hreinn umfang starfsins í stórum dráttum. En hvernig skyldi trúhneigð fanga vera háttað?

„Almennt eru fangar ekkert trúaðri en meðal Íslendingurinn. Þetta eru ósköp venjulegir menn hvað það snertir. En í fangelsinu gefst mönnum oft tími til að leiða hugann að  stöðu sinni og því sem þeir hafa brotið af sér, ég tala ekki um ef brotið hefur verið alvarlegt, eins og morð, nauðgun og annar níðingsskapur. Þá leiðast menn oft inn á braut einhvers konar trúar eða íhugunar um líf sitt og gjörðir. Í ýmsum tilvikum hafa þeir sem í fangelsi eru leitað sér aðstoðar hjá trúfélögum sem reka jafnframt einhvers konar meðferðartengda starfsemi. Hlaðgerðarkot þeirra hvítasunnumanna er dæmi um vandað meðferðarstarf á trúarlegum grunni og hefur bjargað mörgum. Sumir fangar verða mjög heittrúaðir, frelsast sem svo er kallað. Slík frelsun er oft stöðug en getur líka verið hvikul. Fangahópurinn er því bara svona þverskurður af venjulegum 

Íslendingum með tilliti til trúar.
Það sem er kannski óvenjulegt er að þeir fá þarna tækifæri til að hugsa sinn gang, einkum þeir sem hafa framið alvarlega glæpi, leita fyrirgefningar og spyrja hvort þeim verði fyrirgefið það brot sem þeir hafa framið. Spyrja hvernig þeir geti hafið nýtt líf – hvernig þeir geti höndlað hamingjuna. En ástæða þess að kirkjan er með sérstakan mann í þessu starfi er sú að þessi hópur er svo lokaður af inni í fangelsinu og getur ekki notið venjulegrar prestsþjónustu. Kirkjan veit að þetta er hópur sem þarf að sinna og er hluti af hinum minnstu bræðrum og systrum sem eru hjálpar þurfi. Kirkjan er send út með fagnaðarerindið til allra manna hvar sem þeir eru, jafnt afbrotamanna sem höfðingja. Hún fer ekki í manngreinarálit. Allir eru jafn mikil Guðs börn hvað  sem þeir hafa gert af sér í lífinu. Kirkjan fordæmir auðvitað glæpina en hún fordæmir ekki manneskjuna. Hún vill eiga við hana orð. Taka í hönd hennar og leiða.“

Jólin erfiður tími
Hreinn segir undirbúningstíma jólanna og tímann frá því jólaauglýsingar fara að hljóma, vissulega hafa áhrif á fanga sem dvelja í fangelsi um jólin en þó oft af ólíkum ástæðum. „Þeir standa á hliðarlínunni og horfa á þetta úr fjarlægð. Sumir eru fjölskyldumenn, eiga sér sínar fjölskyldur, foreldra, börn og konu. Þetta er auðvitað sérstaklega biturt fyrir þá. Svo eru menn sem hafa verið börn götunnar og þessi tími hefur öðruvísi áhrif á þá. Þeir hafa kannski ekki tekið þátt i formlegu jólahaldi í mörg ár. En hinir, sem er meirihlutinn, sem hefur tekið þátt í jólahaldi fjölskyldunnar, horfir á þetta frá hliðarlínunni og það tekur nokkuð þungt á menn.

Í fyrsta lagi, að geta ekki tekið þátt í þessum hversdagslega undirbúningi jólanna á aðventunni, tekið þátt í eftirvæntingu barnanna og geta ekki heldur liðsinnt fjölskyldu sinni sem skyldi með það að standa undir jólunum. Við vitum að jólin eru dýr og kröfuhörð á peninga í neysluæði nútímans. Við erum svo smituð af þessu ytra drasli í kringum jólin – og fangarnir eru alveg eins.  Þetta er það ytra. Í öðru lagi er það svo hið innra, að geta ekki verið hjá sínu fólki á hátíðarstundu. Það er kannski það sárasta. En þetta innra, að geta verið heima hjá sínum börnum, slakað á og og notið þess t.d. að vera með bók í hönd; þeir fara á mis við það. Jólin upplifa þeir á erfiðari hátt en endranær.“

 Það ójólalegasta sem til er
„Ég segi stundum að fangarnir upplifi frelsissviptinguna mest þegar búið er að loka klefanum eftir klukkan 22 á kvöldin og svo um þessa hátíð – sem er hátíð fjölskyldnanna í samtíma okkar, þegar fjölskylda og vinir koma saman og allir eru að gleðjast við veisluborð jóla, með gjöfum og vinsemd og njóta þess fyrst og fremst að vera með sínum nánustu – og þá ekki síst börnunum. Fangar hafa oft sagt sem svo vist í fangelsi um jól sé það ójólalegasta sem hægt er að hugsa sér. Og meira að segja ef þú ert götunnar maður getur þú þó gengið um Austurstræti og horft á jólaljósin. Í fangelsi ertu alveg lokaður af.

En í fangelsunum er auðvitað reynt að gera umhverfið jólalegt. Fangarnir hafa leyfi til að skreyta klefa sína að vissu marki og það er meira við haft í mat. Auk þess sem fangarnir fá auðvitað jólagjafir frá sínum nánustu og öðrum sem hugsa hlýlega til þeirra eins og Hjálpræðishernum og fangahjálpinni Vernd. En á Litla-Hrauni, til dæmis, þurfa þeir að taka gjafirnar upp á aðfangadagsmorgni í viðurvist fangavarða. Þeir sitja ekki við jólatré inni í stofu. Engu að síður þá skapast alltaf jólastemmning inni á deildunum í fangelsunum. Þannig getur maður sagt að jólin fari ekkert framhjá neinum, þótt þau komi með sérstökum hætti inn í líf manna sem eru í fangelsi. Það eru bara allt öðruvísi jól.“

Englatréð
Hlutverk Hreins er nokkuð víðtækt og óvenjulegt þegar kemur að aðventu og jólum. Hann er að sjálfsögðu með jólaguðsþjónustur í fangelsunum og segir þær yfirleitt ágætlega sóttar. Að loknum jólaguðsþjónustunum í fangelsunum á aðfangadegi fer hann á jólafagnað Hjálpræðishersins og  Verndar og flytur þar ávarp. Jólafagnaðinn sækja margir sem í fangelsum hafa verið og snæða þar jólamat og dansa í kringum jólatré. „Fyrir jólin er ég síðan í sérstakri samvinnu við Íslandsdeild kristinna fangavina (Prison Fellowship International)  en í forsvari fyrir þau eru heiðurshjónin Jóhann F. Guðmundsson og Lára Vigfúsdóttir sem sinnt hafa föngum í áratugi af miklum  kærleika.  Þá set ég upp englatré – en það er sett upp hér í Grensáskirkju, þar sem er skrifstofa fangaprests, á aðventunni. Á þessu jólatré hanga spjöld með nöfnum barna sem fangar eiga, eitt spjald fyrir hvert barn. Fólk í söfnuðinum tekur svo spjald af trénu þegar það kemur í kirkjuna á aðventukvöldi Grensáskirkju 2. desember eða síðar.  Síðan kemur það með litla gjöf  handa viðkomandi barni og leggur hana við tréð. Gjöfunum kem ég svo inn í fangelsið til fanganna og þeir afhenda þær síðan börnum sínum. Við fórum af stað með þetta í fyrra í samvinnu við Grensássöfnuð og tókst mjög vel til. Börnin í söfnuðinum tóku þessu feykilega vel og vildu greinilega gleðja önnur börn sem eiga foreldra í fangelsi á jólum. Í fyrra vorum við með englatréð fyrir eitt fangelsi en nú er meiningin að fara af stað með þetta aftur og auglýsa þetta inni í öllum fangelsum landsins.

Fangar eiga börn sem eru þeim fjarri á jólum. Englatréð á að minna á þessa staðreynd. Börnin þeirra eru oft mjög döpur um jólin, vitandi af mömmu eða pabba í fangelsi. Það getur líka tekið mjög á fangana.“
  
Öðruvísi jól
Hreinn segir að í sumum tilfellum aukist álagið í starfi hans í kringum aðventuna og jólin. „Fólk hefur meiri áhyggjur en ella af því að  fanginn sér daprari í bragði en venjulega. Ég er oft beðinn um að kíkja sérstaklega til manna til að stappa í þá stálinu. Svo er hitt, að fyrrverandi fangar sækja nokkuð hingað á skrifstofu mína hér í kirkjunni fyrir jólin. Þeir þekkja mig og vita að þeir geta t.d. beðið mig um að skrifa umsókn um mataraðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar. Á Litla-Hrauni þar sem fangarnir eru flestir er haldið aðventukvöld sem fjöldi tónlistarmanna kemur að. Jónas Þórir Þórisson organisti hefur haft veg og vanda af tónlistardagskránni. Fær kunna tónlistarmenn til að syngja og leika.  Einnig hefur kór fanga sem sr. Gunnar Björnsson hefur æft með myndarbrag í nokkur ár, komið þar fram og sungið. Í þessum kór eru um átta til tólf menn og sr. Gunnar kemur vikulega á Litla Hraun til að æfa hann. Það er stórmerkilegt starf og hefur mannbætandi áhrif.“

Þegar Hreinn er spurður hvort meira beri á einsemd hjá fjölskyldum fanga um jólin en ella, segir hann það ekki vera svo mjög áberandi. „Fjölskyldur fanga eru ekki einmana fjölskyldur, almennt talað. Það  kemur alltaf í ljós að fjölskyldan er mjög sterk á Íslandi og stendur saman. Þegar maður fremur alvarleg afbrot, þá stendur fjölskyldan með honum sem manneskju, hún yfirgefur hann ekki. Þetta er meginreglan. Auðvitað eru til dæmi um að fólk þegi um brotamanninn í fjölskyldunni. Og í sumum tilvikum afskrifar hann reyndar. En meginreglan er sú að fjölskyldan stendur saman og reynir að létta lífið hjá fanganum – og fangarnir sjálfir segja það oft að refsingin sé miklu þyngri fyrir fjölskylduna en þá sjálfa. Einn er farinn af heimilinu um stundarsakir - önnur fyrirvinnan er horfin og afplánunartíminn er mikill basltími fyrir konuna, því yfirleitt eru þetta konurnar – fangelsin eru nánast alfarið karlaheimur. Þær þurfa að axla alla ábyrgðina af framfærslu fjölskyldunnar, auk þess að hugsa um börnin, og heimsækja fangana. Þetta er svona snúningasamt og önugt eins og sagt er.”

Öðruvísi en önnur prestsembætti  
Flestir prestar fá að upplifa miklar gleðistundir í sínu starfi, til dæmis þegar fólk giftir sig eða lætur skíra börnin sín og ferma. Slíku er eiginlega ekki til að dreifa hjá Hreini og það er varla hægt að verjast þeirri hugsun að starf hans hljóti að vera slítandi. „Jú, jú, þetta starf er auðvitað slítandi að vissu marki og allt  öðruvísi en önnur prestsembætti innan þjóðkirkjunnar,” segir hann. „Ég segi nú stundum að ég sé prestur hinna fordæmdu og útskúfuðu; hinna fyrirlitnu sem fáir vilja vita af. Viðhorf almennings til fanga sveiflast reyndar dálítið til og frá. Eina stundina metur fólk þá til fárra fiska en hina telur það að þeim sé ekki nógu vel hlúð. Maður horfir oft upp á mikla eymd og skelfilegan sársauka hjá fólki, horfir upp á aðstæður sem lítið er hægt að gera við. Þá er hlutverkið oft fyrst og fremst að  vera með fólki í lífi og trú í hinum vonlausu aðstæðum og reyna að styrkja það með þeim mætti sem Guð gefur.

Þessar aðstæður, þótt herfilegar séu, eru þó ekki endalokin. Það kemur dagur eftir þessa nótt. Þótt starfið geti verið slítandi, eru líka margar ánægjustundir sem það geymir. Ástæðan fyrir því að maður endist í því er kannski sú að maður kynnist föngunum sem reynast vera hinar ágætustu manneskjur. Þessir menn eru oft margir fórnarlömb aðstæðna. Sumir hverjir koma frá heimilum þar sem uppeldi var í molum, þeir hafa verið barðir eins og fiskar, verið útigangsmenn og ekkert um þá sinnt. Ég er alltaf að kynnast nýjum og nýjum mönnum og sé oft framfarir hjá þeim. Það er til dæmis mjög gleðilegt þegar maður sér að menn hafa snúið við blaðinu innan fangelsisins, sem er kannski ekki besti staðurinn til að breyta um lífsstíl. Enginn þessarra manna vill vera í fangelsi og þeir sjá í langflestum tilvikum eftir því sem þeir hafa gert – þótt ýmsir telji sig saklausa og allt þar fram eftir götunum – og þeir ætla ekki að koma aftur, þótt margir komi vissulega aftur. Það má heldur ekki gleyma því að meirihluti fanganna glímir við vímuefnavanda sem er þeirra Akkilesarhæll og þeirra versti óvinur.

Konur upplifa skömmina dýpra
Samfélag fanganna er lokað samfélag þar sem ákveðin lögmál gilda og menn eru skyndilega komnir í sameiginlega vist sem þeir ráða litlu um hvernig er skipulögð. Þeir hafa ekki valið þann sem er í næsta klefa. Né heldur hvenær útivist er – o.s.frv. Þetta er karlasamfélag þar sem menn eru oft harðir í horn að taka og það er oft sagt að menn gangi með grímur, reyni að bera sig vel í þessum þröngu aðstæðum og það má alveg segja þeim til hróss að miðað við hvers eðlis þetta samfélag er, þá gengur allt furðu vel fyrir sig frá degi til dags. Líf í fangelsi er ekki auðvelt líf.

Ég tala um karlasamfélagið vegna þess að konur eru mikill minnihluti fanga. Nú eru fimm konur í fangelsi á Íslandi. Það  er oft öðruvísi með þær, vegna þess að þær eru iðulega í nánara sambandi við börnin sín en strákarnir. Þetta er oft erfiðara fyrir þær, sérstaklega um jólin, að mamma sé í fangelsi. Þær upplifa, í mörgum tilfellum, skömmina af því  að  vera í  fangelsi dýpra en til dæmis tvítugur gæi sem á ekki barn.

En það er eitt  sem öll sem hafa verið i fangelsi yfir jólin reyna og það er að þessi jól eru eftirminnileg jól, hvernig sem á það  er litið. Svo er full ástæða til að geta þess að fangaverðir reyna eftir því sem mögulegt er að gera mönnum lífið léttara innan fangelsisins um jólin og gera það með sóma. Sjálfir eru þeir fjarri sínum fjölskyldum um hátíðarnar. Starfsmenn og fangar reyna eftir megni að slá á létta jólastrengi og varðveita jólaskapið. Og jólakveðjan sígilda: „Gleðileg jól!“ hljómar af vörum allra í húsum dæmdra manna á jólum.
 
Rosaleg tímamót
Auðvitað verða sumir fangar litlir í sér á aðfangadegi þegar þeir upplifa aðskilnaðinn sem sterkast. Það eru engar heimsóknir á aðfangadegi. En það er misjafnt hvernig menn bregðast við því. Sumir vilja bara vera inni á sínum klefa og láta tímann líða – reyna að gleyma þessu.  Það er misjafnt eftir fangelsum hvernig stemmningin er. Flestir fanganna eru á Litla-Hrauni eins og áður segir og þar eru sumir kannski að halda sín fimmtu eða sjöttu jól. Í hinum fangelsunum eru þetta kannski fyrstu eða önnur jólin.

En menn sem eru að halda kannski sín tíundu jól í fangelsi, eins og þeir sem hafa framið morð, taka þetta kannski ekki eins nærri sér. Hins vegar eru það undarleg tímamót hjá manni, að vera sín fyrstu jól í fangelsi. Ekki gleðileg tímamót. En sérstök. Rosaleg. Í gamla daga töldu menn aldur sinn eftir því hve mörg jól þeir hefðu lifað. Margur langtímafanginn telur vist sína í því hve mörgum jólum hann hefur eytt í fangelsi og segir t.d.: „Hér hef ég verið sjö jól.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga