Fuglarnir í Hrísey - myndir og texti eftir Jóhann Óli Hilmarsson
Fuglarnir í Hrísey
Hrísey er þekkt fyrir mikið og fjölbreytt fuglalíf. Þar er stórt kríuvarp, æðarvarp og auk þess verpa þar margar endur og mófuglar. Um 40 tegundir fugla verpa í einni. Hrísey er þó kunnust fyrir rjúpuna.
Rjúpan í Hrísey
Rjúpan er sannkallaður einkennisfugl Hríseyjar og prýðir hún skjaldarmerki eyjarinnar. Rjúpan er spök, einkum á haustin er hún vappar í flokkum um götur og garða í eynni. Rannsóknir á rjúpum hafa verið stundaðar í Hrísey í 50 ár. Rjúpustofninn sveiflast og er hámark og lámark um það bil á 10 ára fresti. Stærð varpstofnsins er metin snemma á vorin, þá eru karlfuglarnir (karrarnir) taldir þar sem þeir hreykja sér á mishæðir í óðali sínu og verja gegn öðrum körrum. Slær þá oft í brýnu milli karranna með tilheyrandi fjaðrafoki og rophljóðum. Karrarnir eru hvítir mun lengur en kerlurnar, skipta yfir í felubúning sumarsins allt að mánuði seinna en þær.
Munurinn getur verið allt að tífaldur milli hámarks og lágmarksára rjúpunnar, karrarnir hafa fæstir verið 30 en flestir 270. Hríseyingurinn Þorsteinn Þorsteinsson (Steini rjúpa) hefur tekið þátt í rannsóknunum frá upphafi.
Rjúpurnar verpa um alla ey, meira að segja í húsagörðum Hríseyinga. Þær halda til allt árið í eynni og er stofninn stærstur síðsumars og á haustin, þegar ungarnir eru orðnir fleygir. Þá heldur rjúpan sig í hópum. Eini náttúrulegi óvinur rjúpunnar í Hrísey er fálkinn, enda nægtaborð fyrir hann í eynni. Á varptíma sækja nálægir varpfuglar frá meginlandinu í eyna eftir rjúpum, en á veturna halda oft fáeinir fálkar til í Hrísey.
Fjölbreytt fuglalíf
Fánan í Hrísey er fjölbreytt og þar verpa nærri 40 fuglategundir. Kríuvarpið í Hrísey er talið eitt hið stærsta á landinu og telur það þúsundir fugla. Stórt æðarvarp er í Ystabæjarlandi, norðan til í Hrísey. Landið er í einkaeign. Jaðrakan og stormmáfur eru meðal athyglisverðra varpfugla í eynni.
Helstu ástæður fyrir þessu óvenjulega mikla fuglalífi eru að allt fugladráp og eggjataka er bönnuð í eynni og þar finnast ekki refir, minkar, mýs eða rottur. Kjöraðstæður eru fyrir fjölmargar fuglategundir vegna lágvaxinna lyngmóa sem klæða eyna og mikils ætis fyrir sjófugla eins og kríu, fýl, hettumáf, stormmáf og fleiri máfategundir, svo og teistu, allt varpfugla í Hrísey.
Votlendi er aðeins um 4% af Hrísey en er engu að síður fjölskrúðugt og er mikilvægt fyrir fugla í einni eins og buslendur, stokkönd, urtönd og rauðhöfða og vaðfugla líkt og jaðrakan, stelk og hrossagauk. Grágæs sækir meira í þurrlendið til beitar. Heiðagæs hefur orpið á norðurhluta eyjarinnar, en óvanalegt er að þessi hálendisfugl verpi svo nærri sjó.

Landbreytingar
Helstu ógnir sem steðja að fuglalífi eyjarinnar nú eru gróðurbreytingar. Mikill uppblástur var á norðurhluta eyjarinnar og var lúpínu plantað til að hefta hann. Það tókst, en lúpínan hefur síðan breiðst út suður um eyju og í kjölfar hennar komu aðrar stórvaxnar jurtir, ætihvönn og spánarkerfill. Nú er átak í gangi hjá Umhverfisnefnd Akureyrar til að vinna á þessum jurtum og fróðlegt verður að sjá hvernig það mun heppnast.
Eins hafa menn ræktað skóg í eynni, m.a. til að veita byggðinni skjól. Enn sem komið er, er þéttasta rjúpuvarpið í kringum skógarteigana og jafnvel í hvönninni. En hvernig verður staðan eftir 50 ár? Mófuglum mun fækka, en eftir verða fuglar sem geta nýtt sér skóginn. Væntanlega mun rjúpan einnig láta undan síga, því kjörlendi rjúpunnar eru lyngheiðar og opið land.
Fuglaskoðun í Hrísey
Það er skemmtilega öðruvísi að sigla með Sævari út í Hrísey og fá sérð góðan göngutúr og skoða fugla. Sævar siglir á tveggja tíma fresti á sumrin, en sjaldnar á veturna. Einnig er spennandi að gista í eynni, annað hvort á gistiheimilunum Jóhnatanhúsi, Mínukoti, Brekku eða tjaldstæðinu. Þrjár merktar gönguleiðir eru á suðureynni. Fuglalífi í Hrísey er gerð góð skil á mörgum skiltum sem eru við gönguleiðirnar. Fuglaskoðunarhúsi hefur verið komið fyrir við svokallaða Lambhagatjörn og má sjá þar margar tegundir af öndum og vaðfuglum. Tjörnin er vinstra megin þegar gengið er í áttina að Ystabæ eða hægra megin ef gegnið er í áttina að Einangrunarstöðinni.

Text and photos Jóhann Óli Hilmarsson

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga