Fuglar við norðanverðan Breiðafjörð

Flórgoði

Fuglar við norðanverðan Breiðafjörð
Breiðafjörður er víðáttumikill og grunnur flói. Þar er mikið grunnsævi og meiri sjávarföll en annars staðar við landið. Talið er að fjórðungur allra fjara landsins sé við Breiðafjörð. Mikill fjöldi eyja, hólma og skerja er á firðinum og eru eyjar Breiðafjarðar taldar óteljandi, þó að sumir haldi fram að þær séu um 2500. Fjörðurinn er eitt þýðingarmesta svæði landsins fyrir fugla, enda njóta eyjar og innri hluti fjarðarins verndar samkvæmt sérstökum lögum. Fuglalífið einkennist af fuglum sem eiga allt sitt undir sjónum og verpa í stórum byggðum. Breiðafjörður er höfuðvígi arnarins og þar hélt hann velli þegar honum hafði næstum verið útrýmt á Íslandi um miðja síðustu öld. Mjög mikið er af æðarfugli og þetta er ríki hvítmáfsins á Íslandi.

Reykhólar

Borgarland og Reykhólar
Strandlengjan við norðanverðan Breiðafjörð er paradís fuglaskoðara, sem og annarra náttúruunnenda. Við ætlum að ferðast frá austri til vesturs og hefjum ferðina í Króksfirði. Milli Króksfjarðar og Berufjarðar er fallegt nes, Borgarland. Landslagið er prýtt tjörnum, mýrum og klettaborgum og útsýni til margra átta er gott. Tjarnirnar og votlendið laða til sín fjölbreytt fuglalíf, gróðurfarið áhugavert og víða er að finna sjávarminjar uppi á þurru landi. Á þessum stað sá höfundur í fyrsta sinn konung íslenskra fugla, haförninn, en óvíða eru meiri líkur á að rekast á þennan tignarlega fugl en á þeim slóðum sem við ferðumst um í þessum pistli.

Rauðbrystingur

Næsti viðkomustaður eru Reykhólar. Á svæðinu neðan við Reykhóla er bæði víðáttumikið mólendi og mýrlendi og tjarnir og vötn þar sem ýmsar fáséðar fuglategundir halda sig. Fuglaskoðunarstígar hafa verið lagðir frá sundlauginni á Reykhólum, Grettislaug, um mýrar og móa að Langavatni og Neðravatni. Við Langavatn er fuglaskoðunarhús. Þarna verpa m.a. flórgoði, lómur, hávella, jaðrakan, spói, óðinshani og rjúpa.

Firðirnir
Þessu næst tekur við aragrúi fjarða með afar fjölbreyttu fuglalífi. Leirur eru í fjarðarbotnunum sem koma í ljós á fjöru. Þúsundir fargesta koma við í þessum fjörum á leið milli varpstöðva á Grænlandi og Íshafseyjum Kanada og vetrarstöðva í Evrópu og Afríku. Þeirra á meðal eru margæs, rauðbrystingur, sanderla og tildra. Það hefur verið árátta Vegagerðarinnar að stífla þessa firði eða leggja vegi um leirurnar. Gilsfjörður var m.a. eyðilagður á þann hátt. Íslenski músarrindillinn syngur víða í kjarrinu í fjörðunum. Hann er einlend undirtegund, sem gæti orðið að sérstakri tegund innan skamms. Sendlingar verpa á heiðum og hálsum milli fjarðanna.

Vestasti fjörðurinn er Vatnsfjörður. Hann er sérstakt náttúrurverndarsvæði. Um tuttugu tegundir fugla halda sig í friðlandinu að staðaldri. Mikið er af æðarfugli á firðinum. Straumendur halda til á Vatnsdalsá, frá útfalli hennar úr Vatnsdalsvatni til sjávar á vorin og fram eftir sumri. Þær geta skipt tugum í maí. Einnig sjást straumendur á efri hluta árinnar sem rennur í vatnið. Ein himbrimahjón verpa venjulega á Vatnsdalsvatni og þar verpa einnig toppendur. Örn og fálki eru oft á ferðinni og verpa nærri. Nokkuð er um hagamýs, ref og mink en auðveldara er að koma auga á selina sem gjarnan flatmaga á skerjunum við Hörgsnesið. Hagavaðall og Rauðisandur eru mikilvægir viðkomustaðir farfugla og þar er einnig fjölbreytt varpfuglafána.

Látrabjarg
Útvörður Breiðafjarðar í norðri er Látrabjarg, næstvestasti oddi Evrópu. Það er ógleymanleg upplifun að koma akandi á Bjargtanga, leggja á bílastæðinu við vitann og ganga austur með bjargbrúninni. Lundarnir skondrast í brúninni, koma og fara og iðka sitt fjölskyldulíf, óðháðir fólkinu sem fylgist með þeim í návígi. Hvergi er betra að skoða lunda en á Bjargtöngum og er lundinn óvíða spakari. Þetta er einn besti lundaskoðunarstaður í heiminum, þar er hægt að taka nærmynd af lunda með víðhornslinu. Álkur eru einnig í brúnum, en neðar í bjarginu eru langvía og stuttnefja í bælum svo skiptir tugum þúsunda, en fýll og rita eru dreifðari. Stærsta álkubyggð í heimi er í Stórurð undir Látrabjargi, talsvert austur af Barðinu, klettabrík sem gengur í sjó fram og sýslan ber nafn sitt af. Í urðum undir bjarginu gerir teistan sér hreiður en hún er ekki eiginlegur bjargfugl. Íbúar bjargsins eru sennilega vel á þriðju milljón. Undir bjarginu synda virðulegir æðarfuglar, litskrúðugar straumendur og toppskarfar reigja sig á klöppum og skerjum. Skúmar, kjóar og súlur sjást tíðum á flugi. Á fjöru flatmaga útselir á klöppum og stundum sjást hvalir blása eða bylta sér við bjargið. Á síðkvöldum skoppar tófan fram á brún og vippar sér niður fyrir hana til að ná sér í fugl.

Að sjálfsögðu ber að sýna náttúrunni fulla virðingu og trufla ekki varpfugla við hreiður eða styggja þá á annan hátt.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga