Eins og tíminn standi kyrr - Hótel Flatey
Hótel Flatey
Eins og tíminn standi kyrr

Hótel Flatey er til húsa í gömlum pakkhúsum. Flatey var mikil verslunarmiðstöð fyrir Vesturland og er eyjan stærst af Vestureyjunum svokölluðu á Breiðafirði.
Húsin hafa verið gerð upp og er gamli stíllinn látinn njóta sín. 13 herbergi eru á hótelinu og eru engin tvö eins hvort sem um er að ræða litina á veggjunum eða húsgögnin. Lögð er áhersla á að vera með gömul húsgögn fyrir utan að öll rúm eru nýleg. Nýtínd blóm eins og sóleyjar eru gjarnan í blómavösum. Myndirnar á veggjunum sýna t.d. hvernig þorpið á eyjunni var í gamla daga og hvernig húsin voru áður en þau voru gerð upp en flest húsin eru notuð sem sumarhús eða jafnvel heilsárshús.
Veitingastaðurinn á hótelinu tekur rúmlega 50 manns í sæti og er hann vinsæll á meðal hótelgesta sem og þeirra sem kjósa dagsferð út í eyjuna. Boðið er upp á morgunverð, hádegisverð, kaffi og meðlæti og kvöldmat. Á meðal þess sem boðið er upp á er þorskur, bláskel, kræklingur og grásleppuhrogn sem starfsmenn hótelsins marinera sjálfir en þeir fá þau beint frá grásleppuveiðimönnum. Það er Sveinn Kjartansson, matreiðslumeistari og sjónvarpskokkur, sem ræður ríkjum í eldhúsinu og hefur hann fengið mikið hrós fyrir góðan mat.
Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá yfir sumartímann og er hægt að fylgjast með því á heimasíðu hótelsins, hotelflatey.is, hvað er í gangi hverju sinni. Tónlistarmenn koma gjarnan fram í matsal hótelsins þar sem er gott píanó og allt til taks til að hægt sé að taka á móti tónlistarmönnum.

Náttúran, friðurinn og fuglalífið
Gestir upplifa stórbrotna náttúru, kyrrð og frið og fjölbreytt fuglalíf. Þeir upplifa fleira en því má líkja við að vera kominn um 100 ár aftur í tímann með því að dvelja í Flatey. Því ráða gömlu, uppgerðu húsin og enginn er bíllinn á eyjunni nema kannski hótelbíllinn en tilgangur hans er að aka með farangur hótelgesta frá bryggjunni, þar sem ferjan stoppar, og upp að hótelinu. Einstaka traktor ekur um eyjuna.
Umhverfið er ævintýralegt enda hafa verið teknar kvikmyndir í eyjunni þar sem segja má að eyjan sé eins og besta leikmynd. Það er einfaldlega hægt að ná réttu stemmningunni í Flatey. Engin steypt bygging hefur áhrif á heildarmyndina.
Um 25 hús eru í eyjunni og eru flest í litla þorpinu. Önnur standa ein hér og þar á eyjunni.
Það var Guðjón Samúelsson, sem var húsameistari ríkisins, sem hannaði Flateyrarkirkju sem var byggð árið 1926. Baltasar Samper listmálari málaði hvelfingu kirkjunnar með myndum sem vísa m.a. í sögu eyjarinnar auk þess sem hann málaði altarismyndina.

Sagan
Saga Flateyjar er merkileg. Samkvæmt Landnámu bjó Þrándur mjóbeinn í Flatey. Svo má nefna Flateyjarbók en hún er stærst íslenskra skinnbóka og var skrifuð í lok 14. aldar. Eyjan var ein af miðstöðvum enskra duggara á síðari hluta 15. aldar en þeir stunduðu fiskveiðar og versluðu hér við land.
Þarna bjuggu stórbændur en Flatey er eina eyjan í Breiðafirði þar sem myndaðist raunverulegt þéttbýli. Flatey var með öðrum orðum menningarsetur og verslunarsetur, samgöngumiðstöð og útgerðarbær en húsin í eyjunni eru verslunar- og íbúðarhús frá blómatíma Flateyjar í verslun og útgerð á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar.
Jú, það má líkja því við að það sé eins og tíminn standi örlítið kyrr þegar komið er í eyjuna sem er 1850 metrar að lengd og 400 metrar þar sem hún er breiðust. Þetta er víst engin lygasaga - það virðist hægjast á öllu. Það virðist jafnvel hægjast á gestunum sem koma og dvelja í eyjunni - á hótelinu í gömlu pakkhúsunum. Engin sjónvörp eru á hótelinu né útvörp og ekki koma dagblöðin þangað; það er ekki nema gestirnir sjálfir komi með eigin tæki til að fylgjast með gangi mála. Þarna ganga gestir um græn tún og malarvegi og bjóða góðan daginn. Eins og ekkert sé sjálfsagðara. Það er í þessari eyju þar sem fuglinn býr sér til hreiður við húsgafla þar sem maðurinn gengur fram hjá. Þessir fuglar eru ekki hræddir við manninn. Það er í þessari eyju sem maðurinn tengist náttúrunni. Og sögunni.

Texti: Svava Jónsdóttir

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga