Byggðasafn og vitarnir tveir - Sveitarfélagið Garður
Sveitarfélagið Garður
Byggðasafn og vitarnir tveir
Sveitarfélagið Garður er á nyrsta odda Reykjanessskagans og eru elstu heimildir um Garðinn eða Reykjanes að finna í Landnámu. Nafnið - Garðurinn - tengist fornum grjóthlöðnum garði frá Útskálum í Garði að Kirkjubóli í Sandgerði. Talið er að þessi garður tengist akuryrkju á þeim tíma.
Í Byggðasafninu í Garði eru til sýnis ýmsir áhugaverðir hlutir sem tengjast sögu sjávarútvegs og byggðar í Garðinum í gegnum tíðina. Nefna má t.d. gamlar bátavélar úr smábátum sem eru gangfærar auk þess sem þar er safn af fjarskiptabúnaði úr skipum, skipslíkön, húsbúnaður og eldhúsáhöld frá fyrri tímum. Safnið er opið daglega frá 1. apríl og fram í október og er aðgangur ókeypis. Veitingahús er á annarri hæð hússins og af svölum og úr stórum gluggum, sem snúa út að sjónum, má stundum sjá hvali leika listir sínar.
Tveir vitar eru á Garðskaga. Annars vegar er það gamli vitinn á Garðskagatá sem var byggður 1897 og er ekki lengur í notkun. Gamli vitinn er formfagur og fallegur og er tákn í bæjarmerki Garðs. Hins vegar er það nýrri viti sem var byggður 1944 og stendur á flötinni gegnt byggðasafninu og gamla vitavarðarhúsinu á Garðskaga. Efst úr vitanum er mikið og fagurt útsýni í allar áttir.
Þeir sem kjósa að gista í tjaldi geta tjaldað á tjaldstæði á Garðskaga þar sem margir leggja húsbílum, hjólhýsum og fellihýsum og njóta þess að dvelja á staðnum. Þar er góð, gjaldfrjáls aðstaða með lágmarksþjónustu en greiða þarf fyrir notkun á rafmagni. Verið er að byggja upp nýtt tjaldstæði við íþróttamiðstöðina í Garðinum sem verður tekið í gagnið í sumar.
Ferðamaðurinn ætti að geta fundið ýmislegt við sitt hæfi á þessum nyrsta odda Reykjanesskagans. Golfvöllurinn í Leiru er innan sveitarfélagsins Garðs þar sem Golfklúbbur Suðurnesja rekur þar 18 holu golfvöll. Náttúran er fögur og fuglalífið er fjölbreytt. Þarna getur fuglaáhugamaðurinn virt fyrir sér ýmsar sjófuglategundir auk þess sem mófugla er að finna á svæðinu út með ströndinni. Gönguleiðir eru fjölbreyttar og svo styttist í að krækiberin og bláberin skjóti upp kollinum berjatínsluáhugafólki til mikillar ánægju. Sundlaugin í Garði laðar til sín margan manninn og svo má nefna skrúðgarðinn Bræðraborg við Garðbraut sem ungir og aldnir hafa haft ánægju af í gegnum árin.

Texti: Svava Jónsdóttir

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga