Reykhóladagar með fjölbreyttri dagskrá
Reykhólahreppur

Reykhóladagar með fjölbreyttri dagskrá
Fagrar hlíðar, fjöll og sjórinn sjálfur er í næsta nágrenni við Reykhóla. Hin umhverfisvæna Þörungaverksmiðja er þungamiðja samfélagsins og út úr henni blæs gufustrókur sem setur sterkan svip á svæðið. Reykhólahreppur hefur verið að skapa sér sérstöðu varðandi þara og nytjar og hlunnindi svæðisins og hvað ferðaþjónustuna varðar er þarinn einmitt notaður í Sjávarsmiðjunni þar sem boðið er upp á þaraböð og heilsuböð. Ýmsar áhugaverðar vörur eru seldar í Sjávarsmiðjunni svo sem þarabaðsalt, þarasápur og þaratöflur.
Heita vatnið er líka sérstaða svæðisins en hverir eru víða á Reykhólum þar sem er glæsileg sundlaug sem og heitir pottar.
Glæsileg Báta- og hlunnindasýning er í gamla mjólkurbúshúsinu á Reykhólum þar sem einnig er upplýsingamiðstöð. Þar hefur verið hlunnindasýning til margra ára en nýlega var sú sýning sameinuð sýningu áhugamannsfélags um bátasafn á Breiðafirði. Það er svolítið eins og að koma inn í gamla tímann með því að stíga inn í gamla mjólkurbúshúsið - þar eru bátar, uppstoppaðir æðafuglar standa þar og sýnt er hvernig dúnninn er verkaður. Stundum er verið að gera upp báta á staðnum þannig að segja má að sýningin sé vissulega lifandi. Kaffihús er á staðnum. Á Reykhólum er rekið gistiheimilið Álftaland, þar sem er stórt tjaldsvæði með góðri aðstöðu, og einnig er tjaldsvæði við Grettislaug.
Margar áhugaverðar gönguleiðir eru í nágrenninu og geta ferðamenn fengið kort af svæðinu á upplýsingamiðstöðinni og upplýsingar um hvert er best að fara. Þar má nefna hin til komumiklu Vaðalfjöll sem sjást víða að og eru táknræn fyrir sveitarfélagið.
Fuglalífið á Reykhólum er sérsakt en þar má m.a. sjá t.d. hin sjaldgæfa flórgoða, lóminn og fáséðar endur og oft má sjá haförninn svífa hátt yfir byggð. Algengt er að sjá ljósmyndara með myndavélar og langar linsur sem ætla að fanga fuglana á filmu - eða stafrænar myndavélar.

Reykhóladagar
Reykhóladagar eru haldnir 25. - 28. júlí og er boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Frítt er inn á Báta- og hlunnindasýninguna. Föstudaginn 26. júlí verður t.d. kassabílakeppni, þrautabraut hverfanna og spurningakeppni í íþróttahúsinu. Laugardaginn 27. júlí verður t.d. þarabolti, akstur dráttarvéla um Reykhóla, keppni í baggakasti, markaður verður í matsal Reykholtsskóla, ævintýraleikritið um Búkollu verður í Hvanngarðabrekku, kvöldskemmtun í íþróttahúsinu og um kvöldið verður dansleikur í íþróttahúsinu með hljómsveitinni Nýja band keisarans. Sunnudaginn 28. júlí verður fjör í Grettislaug, söguganga um Reykhóla og leikrit um Sigvalda Kaldalóns í setustofunni í Barmahlíð.

Eitthvað við allra hæfi
Það er margt að sjá og skoða í Reykhólahreppi fyrir utan Reykhóla. Upplýsingamiðstöð, kaffihús og handverksmarkaður er í Króksfjarðarnesi auk Össuseturs sem er rannsóknasetur og sýning um örninn. Bjarkarlundur er í um 15 km fjarlægð frá Reykhólum þar sem rekið er glæsilegt hótel og veitingastaður en þaðan er stutt í fallegar gönguleiðir. Bjarkalundur er eitt af elstu hótelum landsins.  Nefna má ferðaþjónustuna í Djúpadal en þar er einnig sundlaug.
Eyjasigling siglir með ferðamenn um eyjar Breiðfjarðar auk Flateyjar, perlu Breiðafjarðar, sem er upplifun út af fyrir sig.
Reykhólahreppur unaður augans, má með sanni segja. (Slagorð hreppsins).

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga