Minja- og handverkshúsið Kört
Minjasafn og handverksbúð. Gamlir og merkir munir og ljósmyndir úr Árneshreppi á minjasýningu og handverk til sölu, m.a. unnið úr rekaviði. Einnig er upplýsingaþjónusta á staðnum.

Trékyllisvík er náttúruperla á Ströndum þar sem hægt er að njóta stórbrotinnar náttúru og fjölskrúðugs dýralífs. Selir, fuglar, rekaviður, klettar og fjöll setja svip sinn á svæðið. Í Trékyllisvík miðri stendur minja- og handverksúsið Kört sem er fallegt safn með munum frá miðöldum til okkar tíma ásamt úrvali af fallegu handverki og listmunum unnum af heimafólki. Skálar og skúlptúrar úr rekavið, textílverk, handprjónaðir vettlingar, sokkar og lopapeysur, skartgripir og fleira. Komið og njótið lifandi leiðsagnar, skoðið fallegt handverk, fáið upplýsingar um svæðið og setjist niður með kaffibolla í notalegu umhverfi.


Kaffikvörn smíðuð af Þorsteini ÞorleifssyniSkál úr hvalbeini eftir Valgeir Benediktsson

Kört styrkir byggð og mannlíf í Árneshreppi og enginn sem fer um Strandir ætti að sleppa því að koma þar við, skoða safnið og handverkið og fá upplýsingar um svæðið. Frá Kört er stutt í alla þjónustu svo sem verslun, bensínafgreiðslu, sparisjóð, kaffihús, hótel gistiaðstöðu, tjaldsvæði, sundlaug og bátsferðir.

Minja- og handverkshúsið Kört sumarið 1997
Valgeir Benediktsson í Árnesi hafði frá unglingsaldri haldið til haga gömlum hlutum úr hreppnum án þess þó að safna þeim markvisst. Í hans vörslu var því töluvert af munum sem lítið pláss var orðið fyrir.

Vorið 1996 fékk Valgeir þá hugmynd að reisa hús sem gæti nýst sem sýningaraðstaða fyrir þessa gömlu gripi og einnig til að koma á framfæri listmunum úr tré og öðrum efnum sem hann hafði um árabil verið að vinn að. Sumarið 1996 var hafist handa við að saga niður efni úr rekavið í húsið. Arkitekt að húsinu var Gunnar Jónsson byggingarfulltrúi í Búðardal. Húsið reis síðan af grunni í ágúst og var orðið fokhelt um haustið. Valgeir vann síðan að innréttingu á húsinu veturinn 1996 – 1997. Það var svo 28. júní 1997 sem húsið var opnað með pompi og prakt. Fjöldi fólks var við opnunina bæði heimamenn og aðkomufólk.

Hér var auðvitað um nokkuð mikla framkvæmd að ræða og ekki er vitað til þess að einstaklingur hafi áður ráðist í það stórvirki að reisa safnahús og sýningaraðstöðu að eigin frumkvæði og að mestu leiti á eigin kostnað.

Strax fyrsta sumarið í kom í ljós að þörf var fyrir þá starfsemi sem unnin er í Kört. Fólk kom með handverksmuni sem boðnir voru til sölu í húsinu en slík aðstaða var ekki til áður. Gamlir gripir bárust safninu til varðveislu og Kört fékk þannig það hlutverk sem því var ætlað. Að forða gömlum gripum af svæðinu frá glötun og varðveita þannig, á viðeigandi hátt, menningararfinn og einnig að koma á framfæri handverki og listmunum sem fólk úr héraðinu er að vinna að.

Kört varð líka fljótt miðstöð upplýsinga um svæðið til ferðamanna, sem mikil þörf var á. Næstu árin fjölgaði ferðamönnum hratt sem lögðu leið sína norður á Strandir og með tímanum varð ljóst að húsnæðið var of lítið fyrir þá starfsemi sem unnin er í Kört. Sumarið 2006 var því ráðist í að stækka Kört. Framkvæmdir hófust þá um sumarið. Húsið var stækkað um ríflega helming. Nýtt hús var reist við hliðina á og tengt við eldri bygginguna með milligangi. Salernisaðstöðu var komið fyrir sem ekki var áður. Öll aðstaða var nú orðin mun betri en áður. Gestir geta nú fengið sér kaffi og gengið út á sólpall sem komið var fyrir við suðurhlið hússins.

Það menningarstarf sem unnið hefur verið í Kört frá upphafi hefur nokkra sérstöðu í ferðaþjónustu á svæðinu. Meginstoðirnar eru þrjár:

Safnið og safnkosturinn: Að varðveita og hlúa að þeim menningararfi sem í honum felst. Skrá muni í miðlægan gagnagrunn og varðveita þannig til framtíðar upplýsingar um hvern hlut fyrir sig.

Handverkssalan: Að koma á framfæri og selja þá handverksmuni sem fólk úr héraðinu er að vinna að.

Upplýsingagjöf fyrir ferðamenn: Miðla upplýsingum til ferðamanna um hreppinn, sögu hans , mannlíf og menningu.

Hlutverk safnsins er þannig margþætt og styrkir byggð og menningarlíf á Ströndum.

Bestu meðmælin um Kört koma frá ferðafólki sem í síauknum mæli sækir safnið heim á hverju ári.  Vonandi verður það þannig um ókomna tíð.

Opið alla daga frá 10:00-18:00 yfir sumartímann.

Árnesi, Trékyllisvík

524 Árneshreppur
Sími: 451-4025
kort@trekyllisvik.is
www.trekyllisvik.is

Minja- og handverkshúsið Kört sumarið 1997

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga