Gamalt hafnarsvæði. Ný þungamiðja
Gamalt hafnarsvæði. Ný þungamiðja
Á ljósmyndum sést að miðborg Reykjavíkur var hafnarborg lengst af á 20 öldinni. Þar áður hafnlaust sjávarpláss. Götur og sund teygja sig alveg að sjónum og húsin standa á hafnarbakkanum. Landfyllingar, plássfrek hafnsækin starfsemi og hönnun Geirsgötu sem hraðbrautar rufu þessi tengsl borgar og hafnar.
Breytt skipulag hafnarstarfseminnar, aukinn áhugi borgarbúa og ferðamanna á hafnarsvæðinu og breytt viðhorf til borgarumhverfisins hafa á undanförnum árum myndað ný tengsl. Segja má að nú sé stöðugur straumur fólks, ferðamanna og borgarbúa, niður að höfninni við verbúðirnar í Suðurbugt og að Hörpu yst á Austurbakka. Gamla hafnarsvæðið er að verða ný þungamiðja borginni.
Núna síðast var opnað þarna Hótel Marina í gamla Slippfélagshúsinu. Flestir eru sammála um að þar hafi tekist vel til. Útlit hússins hefur lítið breyst nema það er allt frísklegra og fallegra en það hefur lengi verið. Á jarðhæð er vinsæll veitingastaður sóttur af hótelgestum og íbúum í nærliggjandi hverfum.

Með nýju rammaskipulagi fyrir hafnarsvæðið, sem hér er kynnt til sögunnar, er snúið frá þeirri stefnu, sem ríkti hér of lengi, að rífa allt sem fyrir er og byggja allt nýtt frá grunni. Rammaskipulagið tryggir að gömlu verbúðirnar við Suðurbugt halda sér, allar sem ein, og spilhúsin í Slippnum. Og Slippurinn sjálfur verður fyrst um sinn áfram á sínum gamla stað.
Nýja rammaskipulagið skiptir svæðinu milli Sjóminjasafns og Hörpu í fjögur hafnarhverfi sem kallast: Vesturbugt, Suðurbugt, Miðbakki og Austubakki. Skipulagið leggur áherslu á að hvert þessara hverfa hafi sinn karakter. Götur er hafðar fremur þröngar, eins í Grjótaþorpinu, og inn á milli húsanna eru hér og hvar lítil og nett torg. Húsin eru stölluð og höfð í klassískum reykvískum skala: 3 til 5 hæðir. Form þeirra minnir svolítið á gamla netagerðarhúsið, Nýlendugötu 14, gengt Hótel Marina. Það er 2 og 4 hæðir.
Gert er ráð fyrir blandaðri byggð: Íbúðir, verslanir, handverkstæði, skrifstofur, hótel, slippur, ferðaþjónusta, söfn, kaffihús, gallerí, veitingastaðir, fiskmarkaður og jafnvel útisundlaug. Þarna verða greiðar leiðir fyrir fótgangandi vegfarendur og hjólandi. Bílastæði eru nær alfarið í bílakjöllurum og kveðið er á um að þau skuli vera að hámarki eitt á íbúð.
Fyrirhuguð uppbygging er áfangabundin. Reiknað er með að vestasta svæðið, milli Slipps og Sjóminjasafns, það er að segja Vesturbugtin, byggist fyrst upp. Þar gætu risið allt að 250 íbúðir. Í fyrsta áfanga verður þó aðeins byggt að Slippnum, það er að segja í vestari hluta Vesturbugtar.

Suðurbugt verður mikið til óbreytt, þó er gert ráð fyrir að hægt sé að þétta það svæði örlítið með því að byggja hús á bílastæðinu milli Hafnarbúða og austasta hluta verbúðarinna. Það er í takt við nýja tíma að byggja hús fyrir fólk á afgangslóðum sem hafa verið nýtt sem bílastæði.
Reiknað er með að ekki komi til uppbyggingar á Miðbakka fyrr en eftir að Vesturbugtin hefur byggst upp, eða er að minnsta kosti komin vel af stað. Þá hafa borgarbúar reynslu af þeirri tegund byggðar og geta betur dæmt um hvort þeir vilja halda áfram á sömu braut. Uppbygging á Miðbakka er fyrir margra hluta sakir vandmeðfarin
Vegna áforma erlendra aðila að byggja hótel samkvæmt gildandi deiliskipulagi á austasta svæðinu, Austurbakka, var ákveðið að taka það svæði út fyrir sviga. Þar verður til að byrja með áfram gildandi deiliskipulag.

Rammaskipulaginu er ætlað að tengja aftur saman borg og höfn. Til að það takist er lykilatriði að Geirsgötu verði breytt úr fráhrindandi hraðbraut í aðlaðandi borgargötu með rólegri umferð. Sú umbreyting ein og sér er mikilvægur liður í því að byggja upp borg fyrir fólk frekar en bíla. Hún er mikilvæg yfirlýsing um nýja stefnu í skipulagsmálum borgarinna.
Verkfræðistofan Mannvit var fengin til að  Sjá  hér meira hér

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga