Greinasafni: List
Verslunin Kraum - Kraumandi hönnun

-Í versluninni Kraum má finna verk eftir yfir 200 hönnuði

 
Í versluninni Kraum í Aðalstræti 10 má finna ótrúlegt úrval einstakra hönnunarvara, sem allar eiga það sameiginlegt að hafa sterkar skírskotanir í íslenska menningu, sögu og náttúru. Að vöruúrvalinu standa alls um 200 hönnuðir og nær úrvalið allt frá litlum skrautmunum og gjafavörum upp í hátískufatnað úr fiskroði.
 
Þjóðlegar skírskotanir 
Á meðal þeirra vara með sögulega skírskotun er svokallað Dyggðateppi, en á öldum áður var heimasætum gert að sauma dyggðir í teppi sem þótti viðeigandi að halda í heiðri á þeim tímum. Dyggðateppið hefur nú verið uppfært í notendavænar pakkningar með dyggðum fyrir nútímamanninn sem er þegar búið að sauma í. 
Íslensk náttúra er vitaskuld íslenskum hönnuðum mikill innblástur og má þar nefna silfur birkigreinar sem eru tilvaldar gjafir þegar stóráföngum er náð í lífinu, enda má segja að birkið sé tákngervingur fyrir hvernig líf getur dafnað í harðgerðu umhverfi. Gælusteinninn svokallaði sækir innblástur í Snæfellsnesið, en steinninn þykir hafa róandi áhrif þegar hann er látinn leika við lófann. Þá má finna í Kraum pottahlemma í líki Herðubreiðar, ísmola í laginu eins og Ísland og minnisblokk sem líkir eftir gossögu Heklu og Öskju, svo fátt eitt sé nefnt. 
Íslensku ullina má finna í mörgum vörum Kraums, þar á meðal hinn sívinsæla „Fuzzy chair,“ prjónuð hálsbindi, hrútahúfur (sem eru með prjónuðum hornum) og þá má einnig finna ýmsar prjónaðar tískuvörur. Þá hafa vörur unnar úr fiskroði sífellt verið að auka vinsældir sínar og má nú meðal annars finna tískuvörur úr fiskroði og glæsilegar ljósakrónur.

Einstakir hönnuðir 
Hugmyndaauðgi hönnuðanna sem selja vörur sínar í Kraum er því gríðarleg, enda er nafninu ætlað að lýsa þeirri sköpunargleði og hugmyndaauðgi sem kraumar á meðal íslenkra hönnuða. Halla Bogadóttir, framkvæmdarstjóri Kraums, segir að það komi mörgum á óvart hversu framsæknir íslenskir hönnuðir séu og hversu ólík hönnunin sé samanborið við aðrar þjóðir. „Margir hafa eðlilega leitað í hið óviðjafnanlega landslag sem við búum við, en ég hef stundum sagt að þessi sköpunargleði stafi ef til vill af því að við höfum svolítið óskrifað blað þegar kemur að hönnun í okkar menningu. Það er mjög stutt síðan byrjað var að kenna hönnun hér á landi og höfum við því frjálsari hendur, ólíkt til dæmis Dönum og Finnum sem hafa sterka og langa hönnunarsögu í sinni menningu,“ segir Halla.

Nýr vettvangur fyrir hönnuði 
Halla segir að skortur hafi verið á farvegi fyrir hönnuði að koma verkum sínum til viðskiptavina og sé Kraum hugsuð sem svar við þeirri þörf. Ég hef sjálf reynslu af einyrkjarekstri, en þá þarf ef til vill ein og sama manneskjan að framleiða vöruna, sjá um afgreiðslu, halda bókhald og skúra verslunina að degi loknum og eins og gefur að skilja er þá ekki mikill tími eftir fyrir hönnunarferlið. Því tókum við okkur saman nokkrir hönnuðir og fengum til liðs við okkur fjárfesta til að skapa hönnuðum þennan farveg þar sem þeir geta selt vörur sínar, segir Halla. 

Elsta hús miðborgarinnar 
Kraum er staðsett í Aðalstræti 10, sem er elsta húsið í miðborg Reykjavíkur, en það var byggt árið 1762 sem hluti af Innréttingum Skúla Magnússonar, sem miðuðu að því að koma verksmiðjuframleiðslu á Íslandi á laggirnar. Halla segir það mjög viðeigandi að Kraum starfi í þessu sögufræga húsi, enda hafi starfað sprotafyrirtæki í húsinu sem unnu með ull. „Hér má því segja að íslensk hönnunarsaga hafi hafist,“ segir Halla. 

Jólasýning Handverks og hönnunar 
Í húsinu starfar einnig sjálfseignarstofnunin Handverk & hönnun sem mun standa fyrir veglegri jólasýningu í desember, þar sem yfir 50 manns sýna jólavörur sína. Þetta hefur alltaf verið mjög glæsileg sýning og hefur verið mjög jólalegt og fallegt hér í húsinu yfir hátíðirnar, segir Halla. Reglulega eru settar upp nýjar sýningar í Aðalstræti, bæði stórar og smáar, það kraumar því stöðugt í Aðalstræti 10, að sögn Höllu.

Kraum
Aðalstræti 10 • 101 Reykjavík
+354 517 7797
kraum@kraum.is
www.kraum.is


Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga