Bókaútgáfan Æskan - Vegleg útgáfa um ræktun blóma og skreytingar á leiðum

-Bókaútgáfan Æskan fagnar 80 ára starfsafmæli sínu á næsta ári


Guðrún Karlsdóttir og Karl Helgason framkvæmdastjóri. Mynd: Ingó

Bókaútgáfan Æskan gefur nú út hina veglegu og glæsilegu Ræktun sumarblóma og skreytingar á leiðum eftir Magnús Jónasson. Einhverjum kann að þykja það einkennilegt að gefa út bók um miðjan vetur sem fjallar að miklu leyti um sumarblóm.

Karl Helgason hjá Æskunni, segir að það sé einmitt í janúar sem byrjað sé að sá fyrir blómum og gott sé að glöggva sig tímanlega á öllu sem vita þarf um sáningu. 
„Auk þess er bókin augnayndi, með myndir af ótal yrkjum fjölda tegunda, og því falleg jólagjöf,“ segir Karl. Höfundur bókarinnar, Magnús Jónasson, er skrúðgarðyrkjumeistari að iðn og hefur áður ritað bókina Ræktað, kryddað, kokkað, sem naut mikilla vinsælda þegar hún kom út fyrir nokkrum árum.

Einstök útgáfa 
Karl segir að bók af þessum toga hafi ekki komið út áður hér á landi. „Höfundurinn hefur lagt mikla vinnu í að gera hana sem best úr garði og fengið góð ráð frá sérfræðingum og öðrum unnendum blóma og ræktunar. Hann hefur tekið allar myndir sjálfur af mikilli natni,“ segir Karl. 
Bókin er mjög gagnleg öllum þeim fjölmörgu sem vilja rækta blóm og fá leiðbeiningar um val á blómum sem best henta eftir stað og vaxtarskilyrðum. Í bókinni eru skrár í stafrófsröð, með vísan til blaðsíðna, til að lýsa enn nánar hvaða blóm henta hvar, hvernig þeim er fjölgað, hvenær unnið skal að sáningu, hver blómgunartíminn er – og fleira. Í skránum eru heiti blómanna að sjálfsögðu bæði á latínu og íslensku – auk þess sem öll yrkin eru með ensku heiti. 

Skreytingar á leiðum 
„Nú er orðið alsiða að skreyta leiði á ýmsum tímum árs og þá kemur sér vel að geta leitað handhægra upplýsinga, en þær eru aðgengilegar í þessari bók – bæði í máli og með fjölda mynda. Nauðsynlegt er að velja heppilegar tegundir blóma svo að þau dafni sem best við þau vaxtarskilyrði sem í kirkjugarðinum eru, eins og við heimili og sumarhús. Einnig þarf að vita hvaða tegundir eru óæskilegar, þá ekki síst runnar,“ segir Karl. 

Útgáfan 80 ára 
Bókaútgáfan Æskan hóf göngu sína1930 og fagnar því 80 ára afmæli á næsta ári. Þá hafði Barnablaðið Æskan komið út í rúm 30 ár, frá 1897. Útgefendur þess, IOGT, vildu bjóða börnum góðar bækur auk þess lesefnis sem var í blaðinu og alltaf var beðið með óþreyju. 
Nú gefur BÆ/Almenna útgáfan út bækur af ýmsu tagi og má þar nefna Niðri á sextugu, þar sem Finnbogi Hermannsson segir sögu meistara bjargsins, Kjartans Sigmundssonar af Hælavíkurætt, einnig sjómanns um árabil. Í bókinni Allir í leik, hefur hin þekkta útvarpskona, Una Margrét Jónsdóttir tekið saman skemmtilega og fróðlega bók um íslenska leiki með söng og texta – og nokkra færeyska og grænlenska leiki. Þá kemur út sjöunda bindið í ævintýrabókaflokknum vinsæla Einhyrningurinn minn sem ber heitið– Vetrarrós og fjórða bindið í bókaflokknum Óvættaför, sem ber heitið Kentárinn Tagus.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga