Greinasafni: Söfn
Hönnunarsafn Íslands safnar og miðlar íslenskri hönnun

Átt þú safngrip uppi á lofti?
Harpa Þórsdóttir
Hönnunarsafn Íslands fagnar nú sínu tíunda starfsári og í tilefni af því mun safnið flytja og hefja starfsemi í nýrri aðstöðu á Garðatorgi í Garðabæ snemma á næsta ári. Safnkosturinn fer sífellt stækkandi og leitar safnið nýrra safngripa sem gefa innsýn í íslenska hönnunarsögu. 
Margir hönnunargripir með sögulegt gildi leynast víða inni á heimilum fólks, ýmist í notkun eða í geymslu, án þess að fólk geri sér endilega grein fyrir gildi þeirra, því býður Hönnunarsafnið upp á það á heimasíðu sinni að fólk geti sent inn fyrirspurnir um slíka gripi og fengið úr því skorið hvaða gripi um ræðir, frá hvaða tíma þeir eru eða hver hefur smíðað eða hannað hlutinn.

Þáttaskil í starfi safnsins
Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafnsins segir að flutningur safnsins á Garðatorg muni marka þáttaskil í starfsemi þess. „Þar er nú verið að innrétta gott húsnæði fyrir safnið þar sem við munum geta haldið úti reglulegu sýningarhaldi. Þar munu verða sýningar á bæði innlendri og erlendri hönnun og erum við til dæmis núna að vinna að sýningu á íslenskri og erlendri hönnun úr sútuðu fiskroði, sjávarleðri, sýningu á hönnun eftir Siggu Heimis og sýningu um Gunnar Magnússon, húsgagnaarkitekt, þar sem farið verður yfir hans feril,“ segir Harpa. 

Eitthvað sem allir skilja 
Einhverjir kunna að halda að slíkar sýningar séu bara fyrir fólk sem hefur sérfræðiþekkingu á viðfangsefninu, en Harpa segir að fólk þurfi einmitt ekki að hafa sérstakan áhuga á hönnun til að geta notið slíkra sýninga. „Hönnun er alls staðar í kring um okkur í hinu daglega umhverfi og fólk getur notið hennar út frá nánast ótakmörkuðum sjónarmiðum. Sumir njóta þess að rýna í form, aðrir taka eftir efninu, einhverjir setja sig inn í hugarheim hönnuðarins, aðrir velta fyrir sér framþróun og langflestir njóta þess einfaldlega að horfa á fallega eða nytsama hluti. Þetta er í raun alls ekki flókið og ég held að þetta sé eitthvað sem allir geta notið,“ segir Harpa.

Gríðarlega víðfeðmt svið 
Safnkostur Hönnunarsafnsins hefur farið ört stækkandi síðan safnið var stofnað og er því ætlað að safna gripum frá aldamótunum 1900 og til samtímans og telur nú um þúsund gripi. Harpa segir þó að safnið sé sífellt að sanka að sér nýjum munum, enda sé viðfangsefnið gríðarlega víðfeðmt. 
Mestur hluti safneignarinnar er eins og sakir standa húsgögn, sem skýrist af því að þegar safnið var stofnað var horft til þess að húsgögn sem skipa stóran sess í sögu okkar voru í hættu við að glatast. Við einskorðum okkur þó síður en svo við húsgögn, en safnkosturinn tekur meðal annars til leirmuna, glerlistar, fatnaðar, textíls, skartgripa og prenthönnunar svo eitthvað sé nefnt. Einnig leggjum við áherslu á að varðveita hönnun eftir annars konar vitnisburði, svo sem með ljósmyndum og úrklippum. Við viljum í raun safna því sem telst merkingarbært fyrir hönnunarsögu Íslands og með því að safna ákveðnum hlutum erum við að skapa umgjörð um íslenska hönnunarsögu og segja að þessi eða hinn gripurinn skiptir máli.“

Einstakt í íslenskri safnaflóru 
“Í íslenskri safnaflóru er Hönnunarsafnið með einstakt hlutverk sem miðstöð safnastarfs á sviði hönnunar. Bráðlega fer í gang vinna við nokkuð nákvæma söfnunarstefnu þrátt fyrir að fræðilegar rannsóknir á íslenskri hönnunarsögu séu ekki miklar. En safnið hefur þannig í raun enn ríkara hlutverk til að stuðla að því að slíkar rannsóknir fari af stað og getur vonandi orðið virkur þátttakandi í þeirri vinnu þegar fram líða stundir. Okkar hlutverk er að safna, rannsaka og miðla íslenskri hönnunarsögu og við erum svo heppin að nú er mjög mikill áhugi almennings á hönnun, ekki bara hér á Íslandi heldur um allan heim,“ segir Harpa. 

Hönnunarsagan varðveitt 
Safngripirnir koma víða að, ýmist frá hönnuðum, framleiðendum eða einkaaðilum. „Þó fólk sé almennt meðvitaðra um hönnun í kring um sig, fylgir því ekki endilega þekking á hönnunarsögunni. Við bjóðum því upp á það á heimasíðu okkar, www.honnunarsafn. is að fólk sendi inn fyrirspurnir, með myndum, þar sem fólk getur fengið úr því skorið hvort það sé með íslenska eða erlenda hönnun í höndunum og frá hvaða tíma. Með þessu viljum við reyna að stuðla að grunnþekkingu um íslenska og erlenda hönnunarsögu og vonandi að fyrirbyggja að sögulegum verðmætum sé jafnvel hent á haugana, það hefur alltof oft gerst í þessari sögu,“ segir Harpa.


Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga