Edda útgáfa - Vegleg jólaútgáfa

Svala Þormóðsdóttir, útgáfustjóri hjá Eddu útgáfu
 
Andrés Önd og félagar leika veigamikil hlutverk í bókaútgáfu Eddu fyrir þessi jóli og ber þar helst að nefna veglegt Andrésar Andar spil og Jólasyrpuna, þar sem íbúar Andabæjar leika aðalhlutverk í jólasögum af ýmsum toga. Á meðal annarra viðfangsefna í jólaútgáfu eru Bangsímon, talandi bílar, tilhugalíf vampíra, jólaföndur og prjónaskapur. 
Andrésar Andar spilið hentar fyrir alla fjölskylduna og fara þáttakendur í æsispennandi eltingaleik um þveran og endilangan Andabæ. Spilið byggir á þekkingu á Andabæ og íbúum hans, en Svala Þormóðsdóttir, Útgáfustjóri Eddu, segir að þar sem þátttakendur hafi alltaf val um þrjá möguleika eigi allir möguleika á sigri, jafnvel þó þeir hafi ekki ítarlega þekkingu á íbúum Andarbæjar. Edda gefur þá út í þriðja sinn innbundna jólaútgáfu af Syrpubókaflokknum vinsæla, þar sem persónur úr Andabæ lenda í margvíslegum jólaævintýrum. Svala segir að Jólasyrpurnar hafi notið gríðarlegra vinsælda undanfarin jól og hafi upplagið selst upp tvö síðustu jól. Þá hefur fyrsta Jólasyrpan verið endurútgefin í svokallaðri vasaútgáfu. 

Bangsímon fær endurnýjun lífdaga 
Margir fagna því vafalaust að nú eru fyrstu tvær bækurnar um Bangsímon fáanlegar á íslensku í heild sinni. Á síðasta ári gaf Edda út Bangsímon í þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar, en þýðing hans hlaut Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkur fyrr á þessu ári. Fyrir þessi jól gefur Edda svo út Húsið á Bangsahorni, sem einnig er í þýðingu Guðmundar. Þessar tvær bækur eru þær einu sem liggja eftir upprunalega höfundinn og teiknarann, þá A.A. Milne og E.H. Shepard, en aðdáendur bókanna þurfa ekki að örvænta því komin er út ný bók um Bangsímon eftir nýjan höfund og teiknara. Svala segir að nýja bókin hafi verið gerð í fullu samráði við leyfishafa og hafi fengið gríðarlega góðar móttökur. Snúið heim í hundraðmetraskóg er fyrsta bókin um Bangsímon í nærri áttatíu ár og þykir hafa tekist vel til að fanga anda fyrri bókanna bæði hvað varðar ritstíl og myndefni. 

Bílar bjarga jólunum 
Bílunum vinsælu úr samnefndri Pixar og Disney teiknimynd er margt til lista lagt og þetta árið fær Krókur það ærna hlutverk að bjarga jólunum í bókinni Krókur bjargar jólunum. Þegar öllu eldsneyti er stolið úr heimabæ bílanna horfir fram á að póstbílarnir komi ekki bréfum til Jólabílsins og heldur Krókur á Norðurpólinn til að koma í veg fyrir að fresta þurfi jólunum. 
Svala segir Eddu ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að vampírubókmenntum, en Edda gefur nú út hina æsispennandi Vampírukossar Blóðtengsl. Bókin er í teiknimyndaformi og var upphaflega gefin út í þremur bindum, en Edda gefur út öll bindin í einu og sama ritinu. Bókin segir frá unglingsstelpu sem eignast vampírustrák sem kærasta og þeim vandamálum sem koma upp við svo óvenjuleganráðahag. 

Hannyrðir og prjónaskapur 
Hannyrðir og prjónaskapur njóta mikilla vinsælda þessa dagana og býður Edda upp á áhugavert lesefni þar sem lesendur geta glöggvað sig á nýjungum í þessum hagkvæmu áhugamálum. Í föndurbókinni Jólagleði er gömlum og nýjum aðferðum blandað saman, allt frá ullarvinnslu og körfufléttun til kortagerðar og myndvinnslu með límlakki. Þá hafa bækurnar Prjónað í dagsins önn og Prjónað á börn notið mikilla vinsælda og eru enn fáanlegar.

Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga