Þýskaland er sannarlega land jólanna.
Þýskaland er sannarlega land jólanna. Þaðan eru margir þeir jólasiðir sem við eigum að venjast upprunnir. Má þar helst nefna hina vinsælu jólamarkaði. 
Jólahefðirnir í Þýskalandi eru um margt svipaðar og á Íslandi en þó er smávægilegur munur þar á sem gaman og fróðlegt er að skoða. Jólahefðir í Þýskalandi 
Pylsur eru hvarvetna í Þýskalandi og eru jólin engin undanteking þegar að pylsuáti kemur. Þjóðverjarnir virðast geta borðar einhvers konar „Wurst“ í öll mál, sem er þýska orðið yfir pylsu, þó þær séu mun fjölbreyttari að gerð en ein íslensk pylsa með steiktum og sinnepi. Á aðfangadag þegar við erum vön að sitja uppáklædd við hátíðarmáltíðina er borðhaldið í Þýskalandi almennt mun óformlegra. Aðfangadagskvöld er þó þeirra helsta stund, kölluð „Heiligabend“ og eru jólapakkarnir þá opnaðir við mikinn hátíðarbrag. En á þessu heilaga kvöldi, hvað borða þeir annað en sínar pylsur og hafa kartöfusalat með! Á jóladag er hins vegar hátíðarmaturinn borðaður þótt jólapakkarnir séu þegar opnaðir. Þá er venjan að borða jólagæsina fyllta eplum, kastaníuhnetum, sveskjum og lauk. 
Þýsk jólabörn fá ekki í skóinn á sama hátt og þau íslensku en skór koma vissulega við sögu í þýsku jólahaldi. Þar á bæ er nefnilega haldið upp á svokallaðan Nikulásardag þann 6. desember. Sá dagur er haldinn hátíðlegur víðar í Evrópu og er helgaður börnum. Nikulás er einmitt dýrlingurinn sem færði gjafir og sem á kannski eitthvað skylt við einn hvítskeggjaðan, vambmikinn mann í rauðum klæðum. Börnin í Þýskalandi setja skóinn sinn fyrir framan dyrnar sínar að kvöldi hins fimmta. Dýrlingurinn Nikulás færir þeim svo sætindi og gjafir í skóinn en spyr þau í leiðinni hvort þau hafi ekki hagað sér vel. Ef ekki, segir sagan að þau eigi að fá „Rute“ í skóinn sem er trjágrein sem notast getur sem svipa eða keyri. Stundum fylgir einnig sögunni að þau skuli fá vandarhögg hagi þau sér illa. 
Einn helsti jólasiður Þjóðverja er að heimsækja einhverja af fjölmörgum jólamörkuðum þeirra. Er það sá siður sem þeir eru einna þekktastir fyrir í tengslum við jólahald og sem dregur að fjöldann allan af ferðamönnum hver jól.

Þýskir jólamarkaðir 
Það er auðvitað hægt að finna jólamarkaði víðs vegar um heiminn, en hugmyndin á uppruna sinn í Þýskalandi og ná heimildir um jólamarkaði allt aftur til fimmtándu aldar, en talið er að jólamarkaðurinn í Dresden sé einn sá elsti. 
Á jólamörkuðum, eins og gefur að skilja, safnast saman fjöldinn allur af sölumönnum sem annað hvort selja ýmiss konar jólavarning eða veitingar. Jólin eru hátíð ljóssins í dimmasta mánuði norðurhvels jarðar sem orsakar mikla ljósadýrð á mörkuðunum. Oftar en ekki er bás hvers sölumanns hannaður eins og um lítinn fjallakofa sé að ræða, innréttingarnar viðarlaga og lítil V-laga þök yfir básunum. 
Hægt er að kaupa allt milli himins og jarðar á jólamörkuðum en hins vegar er ákveðinn varningur og veitingar vinsælli en annað. Litlar útskornar fígúrur eru í hávegum hafðar sem og aðrar útskornar viðarvörur sem Þjóðverjar skreyta gjarnan heimili sín með. Einnig er mikið um eins konar ávaxtabrauðköku kallaða „Stollen“ sem einkar vinsælt er að gefa sem gjöf í Þýskalandi. Síðan verður ekki hjá því komist að nefna þær veitingar sem fást á jólamörkuðum. Á mörkuðunum er vinsælasti drykkurinn án efa „Gluwein“ sem við Íslendingar þekkjum sem jólaglögg. Með glögginu eru eðlilega borðaðar pylsur, hinar frægu „Bratwurst“ þeirra Þjóðverja. Börn og unnendur sætinda þurfa svo ekki að kvarta undan úrvalinu en hægt er að kaupa fjöldann allan af sykruðum hnetum, súkkulaði og smákökum svo eitthvað sé nefnt.

Að komast í jólaskapið í Berlín 
Höfuðborg Þýskalands, Berlín, hefur ekki farið varhluta af jólamarkaðsmenningu Þýskalands. Heyrst hefur að yfir sextíu jólamarkaðir standi nú yfir í Berlín. Í miðborginni má nefna veglegan jólamarkað á Alexanderplatz sem býður meðal annars upp á skautasvell, Parísarhjól og hestbak fyrir krakkana. Sá markaður ber þess vissulega merki að vera að meira eða minna leyti ætlaður ferðamönnum en er engu að síður afar skemmtilegur markaður. Einn sá frægasti í Berlín er án efa sá á Gendarmenplatz á milli hinna tveggja dómkirkja, hinnar þýsku og frönsku. Minna er af ferðamönnum þar og meira af Þjóðverjum en það verður þó að segjast að sá markaður er eilítið snobbaðri en gengur og gerist, verðið á vörum hærra auk þess sem maður þarf að borga eina evru til þess að fá að vera á markaðnum. Þar er þó mjög fallegt um að litast, hvít tjöld með stjörnu á toppnum og ávallt einhverja dagskrá að finna á sviði miðsvæðis á markaðnum. Í hinu svokallaða „Kulturbrauerei“ eða menningarbruggsmiðjunni í Prenzlauerberg-hverfinu er lítill en skemmtilegur markaður. Þangað koma aðallega Þjóðverjar og úrvalið er af öðru tagi en gengur og gerist á mörkuðum hvort sem um ræðir veitingar eða vörur.

Raunar á þessi jólamenning í Þýskalandi margt skylt við þá upplifun af jólunum sem maður fékk úr erlendum jólateiknimyndum, söngvum eða bókum sem barn. Hnetubrjótar, viðarklæddir kofar og síðast en ekki síst eldrauð glansandi sykurepli á priki. Það má með sanni segja að fátt eigi auðveldara með að koma manni í jólaskap en að kíkja á jólamarkað eða tvo, fá sér glögg og sætindi og leyfa stemningunni að smjúga í gegnum merg og bein.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga