Skólavefurinn - Vandaðar bækur með öðru sniði
Bókaútgáfa telst alltaf til tíðinda á Íslandi. Á síðasta ári bættist nýtt fyrirtæki í flóru bókaútgefenda, en það er Skólavefurinn. Flestir þekkja Skólavefinn af því að framleiða og bjóða upp á vandað námsefni á veraldarvefnum, en í fyrra ákváðu þeir hjá Skólavefnum að nema ný lönd og gefa út bækur, bæði námsbækur fyrir skóla og einstaklinga og svo bækur fyrir almennan markað.
En hvað var það sem rekur stöndugt netfyrirtæki út í það að fara að gefa út bækur upp á gamla móðinn? Skýtur það ekki svolítið skökku við? Til að fá svör við þessu og öðru sem mig fýsti að vita brá ég mér í heimsókn á Skólavefinn. 
Andrúmsloftið í skrifstofu þeirra á Laugaveg 163 er afslappað og þrátt fyrir töluvert annríki gefa þeir Ingólfur B Kristjánsson ritstjóri, Jökull Sigurðsson framkvæmdastjóri og Páll Guðbrandsson markaðsstjóri sér tíma til að skrafa við mig og bjóða í leiðinni upp á úrvals kaffi og íslenskt súkkulaði með. Eftir ofurlítið spjall um dýrtíðina og veðrið þreifa ég á þeim með hvað liggi að baki bókaútgáfunni og hvort þeir hugsi sér bókaútgáfu til lengri tíma. 
Ástæðan fyrir því að fórum út í þetta er einföld, segir Ingólfur. Okkur langaði til þess. Það hófst reyndar með því að kennarar komu til okkar og spurðu hvort við gætum ekki gefið út í bók sumt af því námsefni sem þeir voru að nota á vefnum. Það mundi létta þeim vinnuna að þurfa ekki að standa í að ljósrita það. Við reynum alltaf að koma til móts við þarfir kennara og því fórum við að skoða þennan möguleika. Þá var námsgagnasjóður nýtilkominn þannig að skólar gátu verslað meira framhjá Námsgagnastofnun og við ákváðum því að slá til. Strax í fyrra gáfum við út á þriðja tug námsbóka og viðtökurnar voru hreint út sagt frábærar. 
Já, segir Jökull, en það er töluvert ólíkt að framleiða prentaðar bækur og efni á vef og því var það mikið lærdómsferli að fara í gegnum þetta. Við höfðum líka gælt við að gefa út prentaðar bækur fyrir almennan markað í nokkurn tíma, en aldrei látið verða af því; bækur sem við töldum að ættu erindi við samtímann og skorti á markaðinn. Með þessa reynslu í farteskinu var tilvalið að láta þann draum rætast.

Samtöl Matthíasar og Hlývindi Stephans G Stephanssonar
Ég hafði lengi gengið með það í maganum að gefa út valið efni eftir Stephan G, bætir Ingólfur við, en eins og menn muna kom út vönduð ævisaga um hann eftir Viðar Hreinsson fyrir nokkrum árum. Eftir að hafa lesið hana langaði mig að kynna mér valin verk eftir Stephan en slík verk voru ekki aðgengileg. Stephan G er einn mesti hugsuður sem við Íslendingar getum státað okkur af og stórbrotinn persónuleiki. Það hefur enginn nema gott af því að kynna sér hugsanir hans ekki síst í dag þegar menn líta til framtíðar úr kreppunni. Stephan væri okkur góð fyrirmynd. Til að velja texta og skýra út verk Stephans, fengum við til liðs við okkur Baldur Hafstað prófessor við Háskóla Íslands, en hann þekkir rit Stephans manna best. Er óhætt að segja að útkoman hafi farið fram úr okkar björtustu vonum. 
Varðandi Samtöl Matthíasar, heldur Ingólfur áfram, þá eru þau klassík sem ætti að vera til á hverju heimili. Með samtölum sínum sameinar Matthías það besta í blaðamennsku og bókmenntum. Þar dregur hann upp ótrúlegar myndir af merkilegu fólki og gerir það þannig að persónan og umhverfi hennar vaknar hreinlega til lífsins í huga lesandans. Þröstur Helgason valdi rúmlega 20 samtöl og gerði það af slíkri kostgæfni að bókin verður nokkurs konar aldarfarslýsing 20. aldarinnar; lifandi saga lands og þjóðar. 
Það ætti að gera sum samtölin að skyldulesningu í skólum, leggur Páll nú til málanna. Tvö til þrjú samtöl úr bókinni gætu kennt nemendum meira í Íslandssögu en margt annað og svo hefðu þeir örugglega meira gaman af að lesa þau en sumar námsbækurnar. Reyndar erum við að útbúa verkefni með báðum bókunum og eru sum þeirra komin á Skólavefinn og því tilvalið fyrir skóla að verða sér úti um fáein eintök af hvorri bók. 
En svo gáfum við líka út eina barna og unglingabók eftir Guðjón Ragnar Jónasson sem ber nafnið Í bóli bjarnar. Er það áhugaverð og skemmtileg bók sem ferðast með okkur alla leið til Grímseyjar. Aðal söguhetjan er drengur sem flyst hingað með móður sinni frá Póllandi. Þroskandi og góð bók sem sameinar ólíka heima. 
Varðandi það hvort þeir stefni á enn frekari útgáfu eða hvort draumurinn sé með þessu orðinn að nógu haldbærum veruleika segir Ingólfur: Við erum rétt að byrja. Það er svo margt sem kallar á útgáfu og við ætlum okkur að svara því kalli.

Hljóðbækur í skammdeginu
En þeir félagar gera fleira nýtt en að prenta bækur, því þeir ásamt Aðalsteini Magnússyni fóru nýlega af stað með hljóðsöguvefinn Hlusta.is. Þar er boðið upp alls kyns efni sem hægt er að hlusta á beint af vefnum og/eða hlaða niður á diska eða Ipod. Já, segir Jökull, við byrjuðum með þennan vef um síðustu jól og virðist ekki hafa verið vanþörf á. Það er ljóst að Íslendingar vilja láta lesa fyrir sig. Á vefnum bjóðum við t.a.m. upp á margar Íslendingasögur, sögur eftir íslenska höfunda, þýddar sögur, fróðleik af ýmsu tagi og margt fleira. Það kemur nýtt efni inn á vefinn í byrjun hverrar viku. 
Já, segir Páll, við höfum nánast ekkert auglýst þennan vef, en samt fjölgar áskrifendum jafnt og þétt. Við höfum líka passað upp á halda verðinu í algjöru lágmarki, en mánaðaráskrift er einungis 980 krónur og fyrir það er hægt að hlusta á allt efnið. Ódýr skemmtun í erfiðu árferði.

Jólagjafasmiðjan – Ókeypis jólagjafir á vefnum
Annað sem þeir á Skólavefnum og Hlusta fóru af stað með fyrir síðustu jól og eru greinilega nokkuð stoltir af, er svokölluð Jólagjafasmiðja. Þar er boðið upp á skemmtilegar jólagjafir sem allir landsmenn geta nýtt sér hvort sem þeir eru áskrifendur eða ekki. 
Okkur datt þetta í hug í kreppunni í fyrra, segir Páll. Það var okkar framlag á erfiðum tímum. Við settum nokkra hljóðdiska á netið í opinni dagskrá sem hægt var að hlaða niður og útbjuggum svo ítarlegar leiðbeiningar um hvernig ætti að bera sig að við þetta, bæði niðurhalið og að útbúa eigin kápur á diskana. Eitt leiddi af öðru og við bættum fljótlega við sögum sem hægt var að prenta út og búa þannig til eigin bækur. Sögurnar eru með auðum reitum þar sem viðkomandi á að myndskreyta sjálfur. Þannig verða bækurnar mun persónulegri. Síðast en ekki síst er hægt að sækja þangað óútfyllt dagatal sem viðkomandi getur myndskreytt eða orðskreytt eins og hann eða hún vill. Varð þetta gríðarlega vinsælt í fyrra og við fengum margar fyrirspurnir um hvort ekki yrði boðið upp á þetta aftur í ár. Það gerum við að sjálfsögðu og höfum bætt við nýju efni. 
Já, það er aldeilis nóg að gera á þessum stað fyrir jólin og þeir félagar hafa ekki tíma fyrir lengra spjall. Ég þakka þeim fyrir upplýsingarnar og held mína leið út í skammdegið og finn að ég er kominn í sannkallað jólaskap.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga