Að fanga heiminn - ný bók um alþjóðamarkaðssetningu

Gengi íslensku krónunnar skapar góð tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki að sækja á erlenda markaði. Þrátt fyrir að íslenskar vörur standi nú betur í samkeppni en áður er það ekki nægjanlegt til að ná árangri. Erlendir markaðir eru ólíkir heimamarkaði og nauðsynlegt að standa vel að öllum undirbúningi ef vel á að takast til segir Gunnar Óskarsson sem er um þessar mundir að gefa út fyrstu bók í nýrri ritröð um alþjóðamarkaðssetningu.
Nýja bókinni, sem ber heitið „Að fanga heiminn – greinar um alþjóðamarkaðssetningu “, er ætlað að brúa bilið milli fræðimanna og stjórnenda í atvinnulífinu. Bókin byggir á umfjöllun um ritrýndar greinar sem byggðar eru á rannsóknum unnar af mörgum af þekktustu fræðimönnum á sviði alþjóðamarkaðssetningar. Spurður um ástæður þessa framtaks segir Gunnar að „fram að þessu hafa stjórnendur ekki haft tíma eða getu til að kynna sér fræðigreinar þar sem þær eru yfirleitt langar og oft torlesnar. Í bókinni eru stuttar og hnitmiðaðar lýsingar á innihaldi greinanna og helstu niðurstöðum rannsókna á íslensku. Þeir sem áhuga hafa á að kynna sér efni greinanna enn frekar geta síðan nálgast greinarnar sjálfar á rafrænu formi í gagnasöfnum sem eru aðgengileg á www.hvar.is. Bókin gerir stjórnendum þannig kleift að nýta sér ítarlegt efni sem leiðir til betri ákvarðanatöku og geta komið í veg fyrir mistök.“ Önnur ástæða fyrir bókinni er að Gunnar, sem er á síðasta ári í doktorsnámi hefur kennt alþjóðamarkaðssetningu í Háskóla Íslands síðastliðin átta ár og finnst mikilvægt að Háskólinn geri sitt til að miðla þeirri þekkingu sem þar er til staðar til atvinnulífsins. Bókin er skýrt upp sett og spannar víðfeðmt viðfangsefni, en meðal þess sem fjallað er um í fyrsta bindi er:

• Helstu kenningar í alþjóðavæðingu og samkeppnisyfirburðum
• Samkeppnisumhverfi og samkeppnisstyrkur
• Umhverfi fyrirtækja í alþjóðaviðskiptum
• Inngönguaðferðir
• Notkun fagsýninga
• Dreifileiðir
• Markaðssetning á internetinu
• Boðmiðlun
• Stjórnun og eftirlit

Spurður um hversu raunhæft það er fyrir lítil fyrirtæki að sækja á erlenda markaði nefnir Gunnar að hann hafi haft umsjón með yfir 100 verkefnum nemenda sem unnið hafa greiningu fyrir íslensk fyrirtæki af ólíkum gerðum og stærðum. Sem dæmi um fyrirtæki má nefna Villimey, lítið og sérhæft fyrirtæki sem selur smyrsl til lækninga, Húfur sem hlæja, fyrirtæki sem byrjaði smátt, en hefur nú náð fótfestu á nokkrum mörkuðum, Lín design, athyglisvert fyrirtæki sem selur íslenskan sængurfatnað og fleira til Færeyja og Danmerkur, CCP, sem hefur vaxið upp í að vera með nokkur hundruð starfsmenn og starfsemi í þremur heimsálfum, Marel, sem byrjaði sem lítið tæknifyrirtæki, en er nú orðið leiðandi fyrirtæki á sínu sviði á heimsvísu og þannig mætti lengi telja.
Gunnar líkir því „AÐ FANGA HEIMINN“ við það þegar við förum í veiðitúr og viljum fanga fisk. Þá þurfum við að afla okkur upplýsinga um hvar fiskurinn liggur, hvað hann tekur, hvernig er best að fara að honum og landa honum. Jafnvel vanir veiðimenn leita ráða hjá þeim sem þekkja svæðið til að fá upplýsingar um staðaraðstæður, skilyrði, hvernig gekk í næsta holli á undan o.s.frv. Þessara upplýsinga afla þeir í veiðibókum, hjá veiðiverðinum, öðrum veiðimönnum og jafnvel kokknum á staðnum sem getur verið brunnur gagnlegra upplýsinga. Þá getum við rétt ímyndað okkur markaðssetningu á mörkuðum þar sem við höfum litla eða takmarkaða þekkingu og þurfum að leita ráða, en vitum ekki hvert við eigum að leita eða hvar við getum aflað upplýsinga.
Að lokum tekur Gunnar fram að bókin sé ekki grunnbók í alþjóðamarkaðssetningu, heldur beri að líta á hana sem fróðleik og ítarefni.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga