Ljósmyndavinnustofur í íslenskri náttúru

Ljósmyndavinnustofur í íslenskri náttúru

Ísland er kennslustofan
Myndavélin gefur því sem fyrir augu ber gjarnan nýja sýn og segir Rafn Rig, ljósmyndari sem gerir út ferðaþjónustufyrirtæki islandsmyndir.is, að ljósmyndun sé lykillinn að því að Íslendingar kynnist landi sínu betur.

“Það er í raun furðulegt hversu margir Íslendingar þekkja landið sitt lítið og hef ég þess vegna verið að bjóða upp á kennslu og þjónustu í ljósmyndun á Íslandi,” segir Rafn. islandsmyndir.is bjóða þannig upp á tvenns konar ferðir, annars vegar ljósmyndaferðir þar sem Rafn nýtir áratuga reynslu og þekkingu til að finna kjörskilyrði og staðsetningar fyrir áhugafólk um ljósmyndun og svo ljósmyndavinnustofur þar sem ítarleg kennsla fer fram í náttúru Íslands, bæði fyrir byrjendur og lengra komna.


Kennslustofan kvödd
“Ég hef enga trú á því að það gagnist nokkrum að ég standi upp við töflu í kennslustofu og segi fólki hvað takkarnir á myndavélunum geri, ég kýs miklu frekar á að líta á Ísland sem kennslustofuna. Fólk verður að fá að kynnast myndavélunum sínum úti í náttúrunni. Hlutverk mitt er svo að hjálpa til við að finna hvernig er best að nota búnaðinn og við hvaða aðstæður,” segir Rafn.

Rafn segir að ástríðan fyrir ljósmyndum og náttúru Íslands haldist þannig hönd í hönd og að ástríðan fyrir ljósmyndum hafi  í gegn um árin farið með hann á staði sem margir Íslendingar þekki alls ekki. Ferðir islandsmyndir.is byggja þannig á gríðarlegri reynslu sem byrjendur og lengra komnir geta notið góðs af, að sögn Rafns.

Ljósið heillar

Náttúruundur Íslands eru vel þekkt, en Rafn segir Ísland ekki aðeins teljast sem perla ljósmyndara aðeins þeirra vegna, heldur einnig vegna ljóssins og samspil þess við náttúruna. “Birtan á Íslandi er einfaldlega stórkostleg. Það að mæta í myrkri og taka á móti dagrenningunni í íslenskri náttúru eða við sólarlag er engu líkt. Ísland er þannig að það er sama hversu mörgum sinnum þú kemur á sama staðinn, myndefnið verður aldrei eins. Það þýðir þó að vel þarf að skipuleggja myndatökur í íslenskri náttúru. Það þarf að tímasetja slíkar tökur vel og velja réttu staðina út frá veðri, birtu og öðrum aðstæðum,“ segir Rafn.

Veturnir segir Rafn ekki síður vera ljósmyndaraparadís en sumrin. “Á veturna er sólin lægra á lofti sem skapar margbrotnari skuggamyndir og eins eru andstæðurnar í náttúrunni jafnvel enn meiri þegar ís og snjór eru komin inn í myndina. Svo eru Norðurljósin auðvitað sér kafli út af fyrir sig og draumur margra áhugaljósmyndara að ná góðri mynd af þeim, en það er ekki auðsótt. Það er ekkert nóg að beina myndavélinni út í loftið og smella af og er það mér ávallt mikil ánægja að liðsinna fólki með það,” segir Rafn.

Litlir hópar skila mestu
Rafn segist vilja hafa vinnustofurnar þannig að viðskiptavinir fái sem mesta athygli og alúið og þess vegna séu hóparnir litlir, helst ekki fleiri en þrír nemendur hverju sinni. Í ljósmyndaferðunum séu hóparnir hins vegar allt að níu, enda séu þær af allt öðrum toga. Ferðirnar eru ýmist í formi dagsferða eða lengri ferða, allt eftir þörfum hópsins.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga