,,Megum ekki tefjast þegar búið er að slátra og fiskurinn tilbúinn á markað erlendis” - segir Jón Örn Pálsson hjá Fjarðarlaxi um samgöngumál
,,Megum ekki tefjast þegar búið er að slátra og fiskurinn tilbúinn á markað erlendis”
-    segir Jón Örn Pálsson hjá Fjarðarlaxi um samgöngumál


Jón Örn Pálsson.

Fjarðarlax er með kvíaeldi við Laugardal við utanverðan Tálknafjörð og einnig við Hlaðeyri í Patreksfirði og í Fossfirði í Arnarfirði..

Fjarðalax ehf., stofnað árið 2009, er einn stærsti aðili í innflutningi, vinnslu og dreifinu á ferskum laxi og laxaafurðum á austurströnd Bandaríkjanna. Þróunarstjóri Fjarðalax á sunnanverðum Vestfjörðum er Jón Örn Pálsson á Tálknafirði en hann er menntaður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum í Tromsö í Noregi. Jón Örn segir að áður en hann flutti til Vestfjarða fyrir 13 árum hafi verið gerðar margar samþykktir og samkomulag um vegabætur á Vestfjörðunum öllum.
,,Við teljum okkur vera í dag beitt ofríki af norðursvæðinu, Ísafjörð og nágrenni, og þaðan hafa komið tillögur um úrbætur í vegamálum sem eru algjörlega andstæðar hagsmunum okkar, m.a. tillaga um að gera jarðgöng frá innsta firði við Ísafjarðardjúp, Ísafirði til Kollafjarðar, en ég skil alls ekki hvernig það samræmist hugmyndum um sameiginlega Vestfirði. Við þurfum þá að keyra til Kollafjarðar til að komast inn í Djúp og þaðan til baka til Ísafjarðar. Við höfum bent á að það stytti leiðina suður fyrir Ísafjarðar með því að fara um suðursvæðið þegar búið er að gera jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og gera allan Vestfjarðaveg 60 að láglendisvegi með bundnu slitlagi. Við fáum ekki stuðning frá norðursvæðinu um þessar samgöngubætur,” segir Jón Örn Pálsson.
Jón Örn segir að til marks um það eru síðustu vegabætur  inn Þorskafjörð að austan, væntanlega til þess að þeir sem búi á norðursvæðinu geti undirbúið heilsársveg yfir Þorskafjarðarheiði. Því fari farri að þar sé verið að hugsa um hagsmuni þeirra sem búi á suðursvæðinu. Bættar samgöngur milli norðurs- og suðursvæðis mun styrkja bæði svæðin og Vestfirði í heild sinni. Þetta eiga margir erfitt með að sjá og það heyrast raddir um að forgangröðun í jarðgangagerð sé ekki rétt. ,,Við erum að framleiða fisk hér á suðursvæðinu og megum ekki tefjast mikið þegar búið er að slátra og fiskurinn tilbúinn á markað erlendis. Við notum Breiðafjarðarferjuna Baldur til þess að koma okkar framleiðslu á markað, sem eru um 80 tonn á viku. Það væri mikill munur ef við gætum farið landleiðina allan ársins hring með farminn og eiga ekki á hættu að teppast á fjallvegum eða hálsum heldur geta ekið alla leið inn í Þorskafjörð um láglendisveg. Auk þess þarf flutningabíll að vera farinn klukkan hálf fimm frá Patreksfirði til þess að ná ferjunni sem styttir verulega þann tíma sem við getum verið að slátra á hverjum degi.”

Vestfirðir besta svæðið til fiskeldis
,,Vestfirskir firðir eru best fallnir til fiskveldis hérlendis, hér er skjólið í fjörðunum, heppilegt hitafar og firðirnir hafa gríðarlega mikla endurnýjun á sjó. Sem dæmi um það er Arnarfjörður sem er 18 rúmkílómetrar (átjánþúsund milljón rúmmetrar!) að stærð og inn í hann  streyma 2 rúmkílómetrar af nýsjó á sólarhring. Sjórinn í Arnarfirði endurnýjast því á 9 daga fresti og þolir því margfalt meira eldi en á sér stað firðinum í dag.”

Margar rafmagnsstrauralínur komnar á tíma
,,En það þarf að fara varlega og meta stöðugt umhverfisáhrifin. Ég er sannfærður um að það er hægt að framleiða um 100 þúsund tonn af fiski í vestfirskum fjörðum, en í dag er framleiðslan sameiginlega hjá öllum eldisstöðvunum um 4 þúsund tonn.”

Jón Örn segir að ástand raforkumála á Vestfjörðum sé þannig að íbúar á höfuðborgarsvæðinu mundu ekki sætta sig við það sem Fjarðarlaxi og fleirum fyrirtækjum er boðið upp á. ,,Við kostuðum niðursetningu á jarðstreng frá flugvellinum á Bíldudal og út í Dufansdal í Fossfirði, þriggja fasa rafmagn um 3 km leið, og sú framkvæmd kostaði nær 18 milljónir króna. Okkur fannst þetta vera verkefni Orkubús Vestfjarða, rétt eins og þeir lögðu jarðstreng frá Bíldudal og út að flugvellinum. Við vildum einnig fá ljósleiðara með rafmagnsstrengnum, og lögðum hann. Skömmu eftir að jarðstrengurinn var tekinn í notkun síðastliðið  haust brotnuðu nokkrir rafmagnsstaurar  í aftaka veðri í loftlínu út á Bíldudalsflugvöll, þannig að ef við hefðum ekki hvatt til þess að jarðstrengur yrði lagður  hefði OV  lent í miklu tjóni. Margar strauralínurnar eru alveg komnar á tíma, því miður. Það er ótrúlegt að einkafyrirtæki þurfi að standa að endurbótum á raforkudreifkerfi. Eitt það merkilegasta við þetta er að við borgum okkar hluta ef þessum jarðstreng  en Orkubúið á hann!
Engar áætlanir eru fyrirliggjandi um virkjanir eð ráðstanir á meiri raforku til Vestfjarða að við best vitum, hvorki inni í Ísafjarðardjúpi eða við Breiðafjörð. Við erum einnig með eldi við Hlaðseyri í Patreksfirði og Laugardal í Tálknafirði auk Fossfjarðar í Arnarfirði og slátrum er til skiptst á þessum svæðum til að hvíla þau. Við erum með um 45 manns í vinnu, 30 í eldinu og 15 í vinnslunni svo fyrirtækið er að skapa mörgum atvinnu. Auk þess greiðum við götu þeirra sem vilja fara í nám í fiskeldi á Hólum og í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða er verið að undirbúa útgáfu kennsluprógrams. Við erum að byggja upp til framtíðar og það er afar  mikilvægt að hafa öruggar samgöngur um láglendisveg suður á höfuðborgarsvæðið og örugga afhendingu orku, en því miður er hvorugt nógu tryggt. Um það þurfum við Vestfirðingar að sameinast, um allan kjálkann!”

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga