,,Vinnutíminn í landvinnslunni mundi lengjast og nýtast betur ef hér væri boðlegt vegakerfi“
,,Vinnutíminn í landvinnslunni mundi lengjast og nýtast betur ef hér væri boðlegt vegakerfi“
-    segir Guðjón Indriðason, framkvæmdastjóri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Þórsbergs á Tálknafirði


Guðjón Indriðason.

Dragnótabáturinn Aðalberg BA-236, einn báta Þórsbergs, við bryggju á Tálknafirði. Aftan við hann má sjá fiskeldiskví, líklega nokkuð táknrænt fyrir útgerðar- og atvinnumynstrið á Tálknafirði.

Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Þórsberg á Tálknafirði var stofnað 1975 af Magnúsi Guðmundssyni en framkvæmdastjóri Þórsbergs er Guðjón Indriðason, tengdasonur Magnúsar, ættaður frá Grenivík. Guðjón segir að hann hafi flust til Tálknafjarðar 1970 og enn séu um 60 km af vegakaflanum milli Flókalundar og Bjarkalundar með sömu ummerkjum og fyrir hálfri öld, og sjaldan heflaður. Það sé fremur illa farið iðulega með verðmætan afla að flytja hann í flutningabíl um þennan mjög svo slæma veg svo það er oftast Breiðafjarðarferjan Baldur sem leysir vandann, þangað er framleiðslunni ekið í ferjuna á Brjánslæk, hún fer í land í Stykkishólmi og þaðan ekið eftir vegum sem eru boðlegir á árinu 2014. ,,Ef það væri boðlegur vegur alla leiðina suður mundi vinnutíminn í landvinnslunni í Þórsbergi nýtast mun betur því við þurfum að vera búin að afhenda vöruna sem á að fara í flug í síðasta lagi kl. fjögur á daginn í bílana svo þeir nái áætlun ferjunnar.  Ef það væri hins vegar akfært alla leið værum við með fullan vinnudag hér á Tálknafirði, jafnvel lengur ef mikill afli berst til vinnslu. Við vinnum líka fisk í frystingu og saltfisk, en auðvitað þarf sá fiskur einnig að komast á markað, og hann er einnig fluttur með ferjunni. Að þurfa að klifra yfir fjöll með framleiðsluna finnst mér ansi önugt. Kleifarheiðin  getur auðvitað verið erfið og þá kemst maður ekkert, og austar eru svo Klettháls, Ódrjúgsháls og Hjallaháls, allt miklir farartálmar.“

Merkilegar hríslur í Þorskafirði
,,Það vekur hins vegar furðu mína og margra annarra að það skuli verða til svo merkilegar hríslur í Þorskafirði að það stöðvi vegaframkvæmdir og sumarbústaðaeigendur á Hallsteinsnesi skuli komast upp með það að halda heilum landshluta nánast í gíslingu eins og dæmin sanna með Teigskóg.
Um 1970 var haldið Fjórðungsþing Vestfirðinga í Reykjanesi og þar var samþykkt að leiðin frá Ísafirði á suðvesturhorn landsins og suður skyldi liggja gegnum jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, þaðan yfir Dynjandisheiði um Barðaströnd og suður í Borgarfjörð. En allt annað hefur verið framkvæmt en samkvæmt þessari áætlun, nú er ekið um láglendisveg um Ísafjarðardjúpið um Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda. Þar áður var samþykkt að leiðin ætti að liggja um Kollafjarðarheiði, en ekki varð af því fremur en mörgu öðru í vegamálum enda fáránlegt að við á suðurfjörðum Vestfjarða þyrftum að fara austur yfir Klettháls til að komast til Ísafjarðar. Hefði það hins vegar verið framkvæmt væri fyrir löngu búið að leggja veg um Teigskóg. Stysta leiðin suður á höfuðborgarsvæðið er enn um jarðgöng til Arnarfjarðar og um láglendisveg um Barðaströndina. Það þarf því engan að undra að við séum orðin leið á þessu óviðunandi vegakerfi og ekki síður á skilningsleysi stjórnvalda. Við eigum betra skilið miðað við þau verðmæti sem við leggjum til gjaldeyrisöflunar með okkar útflutningsvörum,“ segir Guðjón Indriðason.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga