Austurland
Austurland
Á hreindýraslóðum
 „Austurland er gönguparadís og hér er ofboðslega mikil náttúra og friðsæld,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri markaðssviðs Austurbrúar. „Hér er hægt að finna ró og næði og hér er oft meiri veðursæld heldur en á öðrum stöðum á landinu.“

Ferðamenn ættu flestir, ef ekki allir, að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Göngutúrar, hestaferðir á vegum hestaleiga á svæðinu, veiði og svo má nefna söfn og sundlaugar. Jónína segir að eitt besta aðgengi að lunda sé á Borgarfirði eystri en lundinn hefur sumaraðsetur á hólma í höfninni og er hægt að ganga þar upp.
Ferðaskrifstofan Austurför á Egilsstöðum selur skipulagðar ferðir um svæðið svo sem gönguferðir, jeppaferðir og fjórhjólaferðir. Ferðaskrifstofan er í samvinnu við ýmis fyrirtæki á svæðinu svo sem hvað varðar ferðir að t.d. Snæfelli og Stórurð, grasbalar, tjarnir og björg á stærð við hús á sama svæðinu.

Skriðuklaustur

„Hengifoss, sem er annar hæsti foss á Íslandi, er á Austurlandi og er skemmtileg gönguleið upp að honum.“
Svo eru það bæirnir á Austurlandi og það sem þeir hafa upp á að bjóða svo sem söfn og sundlaugar eins og á Egilsstöðum og á Neskaupsstað. Á Fáskrúðsfirði er m.a. safn um franska sjómenn sem höfðu þar aðsetur á sínum tíma.
„Í flestum þéttbýliskjörnunum er boðið upp á leiðsögn sem heimamenn sjá um. Þeir segja m.a. sögu viðkomandi bæjar og frá daglegu lífi þar og gefst fólki kostur á að fara í kaffi inn á heimili bæjarbúa. Þannig ferðir er hægt að panta hjá Meet the Locals, ferðaskrifstofu á Eskifirði.“
„Það er gaman að fara hringinn í kringum Lagarfljót og heimsækja Snæfellsstofu, sem er gestastofa fyrir Vatnajökulsþjóðgarð, og Skriðuklaustur sem er menningar- og fræðasetur stofnun Gunnars Gunnarssonar rithöfundar. Þar má jafnframt sjá fornleifauppgröft sem tengist klaustrinu og munkum sem bjuggu þar á öldum áður.“

Ekki má gleyma hreindýrunum
„Hreindýrin eru auðlind sem við reynum að nýta eins mikið og við mögulega getum. Við gætum samt unnið meira en það vantar hráefni. Austfirskir hönnuðir vinna að fallegri hönnun, þar sem saumað er úr hreindýraleðri og svo eru t.d. gerðar tölur úr hreindýrabeinum. Þá saumar húsfreyjan í Klausturseli, Ólavía Sigmarsdóttir, ýmsan varning úr hreindýraskinni.“
Víða á Austurlandi er hægt að nálgast kort af svæðinu og einnig er hægt að nálgast slíkt á netinu www.east.is. Þar er t.d. hægt að sjá hvað það tekur að jafnaði langan tíma að aka á milli ýmissa staða á svæðinu, hvar áhugaverðar gönguleiðir eru og hvar hægt er að sjá vissar dýrategundir.

-    S.J.

www.east.is
Callout box:  Þá gefst fólki kostur á að fara í kaffi inn á heimili bæjarbúa en slíkar ferðir er hægt að panta hjá Meet the Locals, ferðaskrifstofu á Eskifirði.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga