Ölfusið opnast - Viðtal við Barböru Guðnadóttur, menningarfulltrúa Ölfuss
Ölfusið opnast
- Viðtal við Barböru Guðnadóttur, menningarfulltrúa Ölfuss

Með tilkomu Suðurstrandarvegar mætti segja að strandhluti Ölfuss hafi opnast að nýju sem spennandi viðkomustaður fyrir ferðalanga. Dagsferð með fjölskylduna úr höfuðborginni í Ölfusið getur þannig falið í sér fallega akstursleið, söguminjar, dorg á bryggju, viðkomu á handverksmarkaði og sundferð í glæsilegri, fjölskylduvænni sundlaug.

Menningarfulltrúi Ölfuss, Barbara Guðnadóttir, segir þjónustu við ferðamenn hafa aukist mikið og ótalmargt sé að sjá og gera. „Ölfusið er gríðarstórt, en það nær frá Selvoginum í vestri, austur að Ölfusá og má þar finna fjölda áhugaverðra viðkomustaða sem hægt er að nálgast með lítilli fyrirhöfn,“ segir Barbara.

Öðruvísi upplifun
Suðurstrandarvegurinn býður upp á að ferðast um afar fallegt svæði, en vegurinn liggur frá Grindavík, í gegn um Krísuvík og Herdísarvík. Þar má meðal annars finna húsið sem skáldið Einar Benediktsson bjó í um tíma, en þar hafa verið sett upp skilti um hann og búsetu hans þar ásamt örnefnakortum. Í Selvogi er svo Strandarkirkja sem er þekkt fyrir áheit og heitir fólk enn á hana í dag. Barbara segir Selvoginn sjálfan vera mjög skemmtilegt svæði þar sem fólki þyki gott að koma og upplifa náttúruna og tengslin við hafið. Í Selvogi hafa einnig verið sett upp örnefnakort um fyrri byggð, en í dag er þar aðeins búið í þremur bæjum allt árið um kring. „Veður og vindar hafa breytt ásýnd byggðarinar svo úr verða hálfgerð draugahús. Þangað koma ekki margir sem gerir þetta mjög heillandi upplifun fyrir þá sem vilja prófa eitthvað öðruvísi,“ segir Barbara.

Í Skötubót

Iðandi líf
„Þorlákshöfn er í miklum vexti,“ segir Barbara, „og þar má nú finna alla þá þjónustu og afþreyingu sem ferðalangar gætu þarfnast. Hér er nú komið snoturt gistiheimili, veitingastaðir, kaffihús, leiksvæði, tjaldsvæði sem er afar glæsilegt og sundlaugin er mjög vinsæl, sérstaklega meðal fjölskyldufólks. Hér hefur líka verið opnaður handverksmarkaður í Herjólfshúsinu við bryggjuna þar sem einnig er hægt að fá sér kaffi og kaupa kjöt og fisk úr héraðinu. Þar er líka hægt að fá lánaða veiðistöng og björgunarvesti og renna fyrir fisk. Þar fyrir utan er þetta afskaplega vinalegur bær, þar sem fólk er afar liðlegt og vinsamlegt gagnvart gestum og gangandi,” segir Barbara.

Spennandi gönguleiðir
Fjöldi gönguleiða er í Ölfusinu og mælir Barbara sérstaklega með göngu á sandströndinni í vestri. „Þar er hægt að sjá ofurhuga á brimbrettum, en þar þykja vera afbragðs skilyrði til slíkrar iðkunar og er hægt að fá kennslu þar. Einnig eru vinsælir reiðtúrar eftir ströndinni, en nokkur fyrirtæki gera út á ferðir á svæðinu,“ segir Barbara.

VAG

Quote: „Hér hefur líka verið opnaður handverksmarkaður í Herjólfshúsinu við bryggjuna þar sem einnig er hægt að fá sér kaffi og kaupa kjöt og fisk úr héraðinu. Þar er líka hægt að fá lánaða veiðistöng og björgunarvesti og renna fyrir fisk.“ Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi Ölfuss

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga