Nýsköpunarmiðstöð Íslands snertir hjörtu um allt land

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur þurft að takast á við kreppuna frá því að miðstöðinni var komið á fót síðla árs 2007. Forstjóri hennar, Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor í eðlisfræði og „raðfrumkvöðull“ eins og hann kallar sjálfan sig, brást strax við hruninu og í náinni samvinnu við fagfélög og önnur samtök opnaði Nýsköpunarmiðstöðin fimm ný frumkvöðlasetur víða á landinu. Nú eru starfandi á vegum miðstöðvarinnar sjö frumkvöðlasetur með um 200 manns sem vinna að þróun nýrra hugmynda í vöruframleiðslu eða þjónustu.Síðastliðið haust hóf Þorsteinn mikla herferð með námskeiðum um landið þar sem almenningi er kennt að virkja orku  heimafyrir í smáum og stórum stíl. Námskeiðið ber heitið „Orkubóndinn“ og  blaðið náði tali af Þorsteini á Egilsstöðum fyrir nokkrum dögum  þar sem námskeiðið var í fullum gangi með um 147 manns í troðfullumsal Hótels Héraðs. „Þetta er fjórða námskeiðið á jafnmörgum mánuðum og hefur þetta gengið gríðarvel.“ segir Þorsteinn. „Við hófum leikinn í Árborg með um 120 manns, fórum norður í Ljósvetningabúð þar sem nær hundrað manns sóttu námskeiðið  og loks til Ísafjarðar þar sem þrjú hundraðasti nemandinn fékk námsskírteini sitt.“

„Galdurinn er m.a. sá að ég hef fengið til liðs við okkur  okkra af færustu verkfræðingum landsins frá eftirtöldum verkfræðistofum: Mannvit, Verkís og Verkfræðistofa Norðurlands. Þetta eru ungir menn sem hafa komið að byggingu alls konar virkjana og þeir hafa farið á kostum í kennslu sinni og leiðbeiningu. Svo fengum við sterkan liðsafla frá Orkustofnun og ÍSOR auk okkar eigin sérfræðinga. Við kennum fólki heilan dag að virkja allt frá bæjarlæknum til hitareits, vindgnauðina í ásnum og flórinn eða hænsnahauginn“. Seinni dagur námskeiðanna er nýttur til þess að fara yfir hugmyndir fundarmanna. Þannig gefst þeim tækifæri til þess að ræða við sérfræðinga og tengsl eru mynduð við verkfræðistofurnar. „Hugsun okkar er að Nýsköpunarmiðstöðin sé í hlutverki hvatberans; hún beitir sér fyrir því að kynna fyrir fólki möguleikana  í orkubeislun, en beinir því svo til verkfræðistofanna að vinna með einstaka aðilum að nánari útfærslu hugmyndanna. Þannig er ríkisstofnunin hvetjandi og aðstoðar einkafyrirtækin við að koma á framfæri ráðgjafaþjónustunni,“ segir Þorsteinn.

Orkubóndinn er greinilega Þorsteini hjartans mál. „Og það sem er svo dásamlegt í þessu öllu saman er að hér á Íslandi eru einstaklingar sem hafa hannað og smíðað stórvirki í þessum efnum - listamenn af Guðs náð sem hafa virkjað orkuna heimafyrir og veita henni til heilla samfélaginu með einhverjum hætti. Þessir einstaklingar prýða og auðga námskeiðin. Þegar ég veitti Eiði Jónssyni í Árteigi, sem hefur áratuga reynslu af virkjunum, skírteini í lok námskeiðsins, sagði ég í ræðustól að eiginlega ætti hann að veita mér svona skírteini fyrir viðleitnina - ég hefði ekkert að gera í svona náttúrulegan verkfræðing á sviði virkjunar vatnsorku!“ Námskeiðin sækir fjölbreyttur hópur fólks. Fólk kemur alls staðar að, einstaklingar, iðnaðarmenn af ýmsu tagi, jarðeigendur, bændur og búalið og síðast en ekki síst nemendur í verkmenntaskólum og framhaldsskólum. „Kennarar þaðan hafa einnig verið með okkur og styrkt námskeiðið með þátttöku sinni,“ segir Þorsteinn.

„Við höfum haft hjá okkur fólk sem er þegar að nota margvíslega tækni heima fyrir. Ég skal taka dæmi: Bóndi með 70 kýr hefur byggt árvirkjun fyrir ofan bæinn og sækir þangað 100kW  sem er nægilegt rafmagn til þess að leggja nágrannabæ sínum lið. Hann hefur líka  samið við  RARIK um að selja rafmagn inn á netið/kerfið. Þessi sami bóndi býr á svæði án hitaveitu en deyr ekki ráðalaus. Hann notar varmadælu til þess að hita upp íbúðarhús sitt. Til þess að knýja dæluna notar hann útiloftið en þarf að jafnaði ekki nema um þriðjung til helming af orkunni í formi raforku, hinn hlutann sér varmadælan um. Sami bóndi er nú að huga að því að nýta kúamykju til að framleiða metan. Við erum að skoða þann möguleika að setja upp með honum litla metanvinnslustöð til þess að búa til eldsneyti fyrir landbúnaðar- og farartæki á bænum.“ Við spyrjum Þorstein nánar út í varmadælurnar. „Við höfum séð sprengingu í notkun varmadæla nú á síðasta ári. Ég geri ráð fyrir að nú séu um fimm tugir varmadæla í notkun á landinu öllu. Námskeiðið okkar hefur notið þess að Orkustofnun er mjög vakandi í þessum efnum og á námskeiðinu hefur Sigurður Ingi Friðleifsson hjá Orkusetrinu á Akureyri leiðbeint fólki um varmadælur. Í dag var hjá  okkur áhugasamur aðili sem hafði sett upp varmadælu í Breiðdalsvík og var að stilla hana, keyra hana inn. Hann getur sparað meira en tvo þriðju rafmagnsnotkunar til húshitunar. Við veltum fyrir okkur hversu mikið væri hægt að spara við að notast við heita loftið í fjósinu sem heitu hlið varmadælunnar og nýta með enn meiri ávinningi“. 

En hvaða nýsköpun felst í þessum orkubænda hugleiðingum?

„Hér er einmitt á ferð mjög áhugavert svið til nýsköpunar. Við erum að leggja drög að því að stofna fyrirtæki um gerð hverfla fyrir vatnsaflsvirkjanir sem framleiddar yrðu hér heima. Fyrir því er nokkur hefð, en áskorunin nú, í blússandi háu verði á erlendum gjaldeyri, er einmitt að spara gjaldeyri. Það sem við þurfum að gera nú er að koma framleiðslunni á það stig að fjöldaframleiðsla gæti hafist. Svo er að opnast farvegur fyrir slíkar virkjanir í Grænlandi og ef til vill víðar.“ Þorsteinn talar einnig um tækifæri í eldsneytisgerð, en verið er að leggja drög að því að framleiða litlar stöðvar til þess að meðhöndla lífrænan úrgang til gösunar og eldsneytisgerðar. „Við sjáum fyrir okkur einfaldar stöðvar sem gagnast gætu stærri búum og bæjarfélögum. Evrópureglur munu banna urðun lífræns úrgangs frá og með næsta ári og þurfum við að bregðast við með því að nýta þennan úrgang til hins góða. Í mörgum íslenskum bæjarfélögum falla einnig til úrgangsefni úr fisk- eða kjötiðnaði sem auka enn hinn mikla forða hráefnis sem hægt væri að nýta“. Hann bendir á að mikið hráefni til orkuvirkjunar fellur til í landbúnaði. „50 kúa fjós ætti að geta framleitt eldsneyti sem svarar 25 lítrum af díselolíu á degi hverjum, og jafnvel þegar búið er að vinna eldsneytið úr haugnum, þá yrðu eftir verðmæt efni til þess að nota sem grasáburður.“

En hvað með vindmyllur og  vindorku?

„Vindorka og til dæmis orka sjávarfalla eru ekki tekin mjög mikið inn í námskeiðið enda þótt þessi nýting sé nefnd og rædd nokkuð. Virkjun vindorku á örugglega eftir að aukast mjög á næstu árum og svo hafa menn til dæmis nefnt samspil vindorku og varmadælna. Þekkt staðreynd er, að þegar vindur eykst, þá eykst þörf húsa fyrir hitun, kælingin eykst. Þannig má segja að samspil vindmyllu og varmadælu gæti orðið mjög áhugaverð aðferðafræði hér á landi“.

 Nú er árið 2010 rétt að hefjast, ætlið þið með orkubóndann víðar um landið?

„Já, við verðum með námskeiðið á Hornafirði eftir hálfan mánuð, förum síðan til Sauðárkróks og þaðan til Vestmannaeyja. Þá verður haldið námskeið í Borgarnesi og loks lokanámskeið í Reykjavík þann 19. maí í vor. Þar er gert ráð fyrir að iðnaðarráðherra veiti sérstök verðlaun þeim aðilum sem skarað hafa framúr á sviðinu.“ Þorsteinn vonast til að þegar hringferð Orkubóndans lýkur í vor hafi um þúsund manns sótt námskeiðið og fengið gagnlega fræðslu. „Þetta er fræðsla   sem er utan hins hefðbundna skólakerfis, fræðsla og tæknimenning sem gerir hvern borgara þessa lands miklu færari um að framleiða sína eigin orku, miklu hæfari til þess að gera sér grein fyrir samspili orkunnar og tekjustraums síns og í raun miklu frjálsari þar sem þessi tegund dreifðrar orkunýtingar er hluti af auknu frelsi einstaklingsins til athafna sem gagnast samfélaginu í heild.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga