Greinasafni: Menntun
Mikill fjöldi námskeiða í boði hjá Fræðsluneti Suðurlands

Fræðslunet Suðurlands gaf út í vikunni námsvísi vorannar og má þar finna mikinn fjölda námskeiða – allt frá  silfursmíði og öðrum handverksnámskeiðum til 300 stunda námskeiða í bóklegum greinum. Ásmundur Sverrir Pálsson, framkvæmdastjóri Fræðslunetsins, segir að meginmarkmiðið sé að auðvelda aðgengi íbúa fjórðungsins að margs konar námi og símenntun þeim sjálfum og svæðinu til framdráttar.

Fræðslunetið er sjálfseignarstofnun og starfa þar tveir starfsmenn í fullu starfi og þrír í hlutastarfi. Aðalaðsetur Fræðslunetsins er í Iðu á Selfossi, en námskeið  standa til boða á öllu Suðurlandiað Vestmannaeyjum undanskildum, en þar er sérstök símenntunarstöð. 

Atvinnulífinu mikilvægt
Að sögn Ásmundar eykur tilvist Fræðslunetsins búsetugæði á Suðurlandi og gerir íbúum kleift að sækja sér menntun á ýmsum sviðum í margvíslegum tilgangi, hvort heldur fólk sækist eftir námi sem tilheyrir viðurkenndum námsleiðum eða óformlegu námi sem tengist vinnu þess eða áhugamálum. Með viðurkenndum námsleiðum er átt við námskeið samkvæmt námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Fræðslumiðstöðin hefur gefið út margar námskrár sem eru vottaðar af menntamálaráðuneytinu og meta má nám samkvæmt þeim til eininga á framhaldsskólastigi. Ásmundur segir það skipta afar miklu máli fyrir Suðurland að hafa fræðslustofnun sem getur veitt þessa þjónustu og að fólk þurfi ekki að sækja sér aukna menntun um of langan veg.

 „Fyrir atvinnulífiðskiptir það líka miklu máli að  hafa viðurkenndan fræðsluaðila á svæðinu sem getur tekið að sér aðhalda námskeið fyrir fyrirtækin. Starfsfólk sem hefur sótt námskeið hjá okkur er yfirleitt mjög ánægt og verður sáttara í starfi sínu auk þess sem það tryggir sig betur í starfi. Nú, sumir verða svo áhugasamir að þeir halda áfram að læra, fara í réttindanám, og það er fátt ánægjulegra en að fylgjast með fólki, sem vantreysti sér í nám, fyllast sjálfsöryggi og óbilandi námsáhuga,“ segir Ásmundur.

Fjölbreytt flóra handverksnámskeiða
Síðastliðið haust bauð Fræðslunetið upp á fleiri handverksnámskeið en áður. Ásmundur segir aðsóknina hafa verið mjög góða og í sumum tilvikum meiri en hægt var að anna. „Nú á vorönn höldum við uppteknum hætti og hefur fólk úr mörgum handverksnámskeiðum að velja. Við viljum kenna fólki að prjóna, hekla og sauma, skera í tré og teikna og smíða úr silfri.Þá stendur mönnum til boða námskeið sem snúast um matargerð, ræktun matjurta og góða heilsu, andlega og líkamlega,“ segir Ásmundur. Tungumála- og tölvunámskeið eru fastir liðir í starfsemi Fræðslunetsins, svo sem námskeið í íslensku fyrir útlendinga, námskeið í ensku og spænsku fyrir byrjendur og tölvufærni ýmiskonar fyrir byrjendur og lengra komna. Ásmundur segir það aldrei bregðast að fólk vilji bæta við kunnáttu sína í notkun tölvunnar.

Vísindi efld
„Auðvitað væri hægt að fjölyrða meira um starfsemi Fræðslunetsins en ég vil að lokum  minnast á eitt af markmiðum þess sem er að efla vísindi. Á sínum tíma var stofnaður Vísinda- og rannsóknarsjóður Fræðslunets Suðurlands sem sveitarfélög á Suðurlandi, stéttarfélög, samtök og fyrirtæki styrkja. Úr þessum sjóði er árlega veittur veglegur styrkur til verkefna sem tengjast Suðurlandi,“ segir Ásmundur að lokum.

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga