Greinasafni: Menntun
Sérfræðingarnir - hinar sérstæðu gáfur einhverfra nýttar

Til stendur að koma á fót fyrirtæki á Íslandi að danskri fyrirmynd þar sem hinar sérstæðu gáfur einhverfra, sem lúta oft að nákvæmni og næmni fyrir ósamræmi og villum í hvers kyns kerfum og við hin komum kannski ekki auga á. Þekkingarhópur á vegum Umsjónarfélags einhverfra stendur að verkefninu en síðastliðið sumar hlaut Unnur Berglind Hauksdóttir styrk úr Nýsköpunarsjóði  námsmanna til undirbúningsverkefnisins.  

 Upphafið
Hið danska fyrirtæki Specialisterne var stofnað af Thorkil Sonne árið 2004 eftir að sonur hans greindist með einhverfu. Thorkil sá fram á að eftir unglingsaldur byðist einhverfum engin tækifæri sem leiddi oft til einangrunar og þunglyndis viðkomandi einstaklinga. Talið er að um 0,6-1,0% mannkynsins sé  á einhverfurófinu svokallaða, en einhverfa og Asperger-heilkenni er mun algengari á meðal karlmanna en kvenna. „Raunin er sú að hinir getumeiri einstaklingar á  einhverfurófinu eru fullfærir um að vinna ef umhverfið samræmist þörfum þeirra fyrir skipulag, fyrirsjáanleika og er  streitulaust,“ segir Unnur Berglind mastersnemi í mannauðsstjórnun. 

„Í sumum störfum, svo sem prófunum og slíku í hugbúnaðargeiranum geta eiginleikar þeirra raunar nýst betur en annarra þar sem mikil þörf er á endurtekningum og nákvæmni.“ Thorkil, sem hafði um langt skeið starfað í fjarskipta- og tölvuiðnaði, kom auga á þetta og upp spratt fyrirtækið Specialisterne. „Hingað til hafa vinnuúrræði handa fötluðum aðallega beinst að þeim með sýnilega fötlun. Hinir sem virka ekki í streituvaldandi vinnuumhverfi samtímans og uppfylla ekki kröfur um félagslega færni, þeir sem hafa ósýnilega fötlun, hafa að mörgu leyti orðið útundan,“ segir Unnur Berglind. 

“Vegna úrræðaleysis hafa þessir einstaklingar lent á örorkubótum, einangrast félagslega og orðið iðjuleysi og þunglyndi að bráð.„ Í fyrirtæki Thorkils er skapað umhverfi þar sem einhverfum líður vel. Allir umsækjendur um starf hjá Specialisterne  fá fimm mánaða þjálfun áður en þeir hefja störf að sögn Unnar Berglindar. Þó hljóta ekki allir þeirra vinnu hjá fyrirtækinu þar sem ekki öllum hentar að vinna innan þess sviðs sem fyrirtækið starfar. 

Vegna eðlis þeirra verkefna sem fyrirtækið tekur að sér, við öryggis- og hugbúnaðarprófanir og bilanaleit, þá eru  Sérfræðingarnir sendir til starfa á vinnustöðum sjálfra fyrirtækjanna sem skipt er við. Þetta krefst náins samstarfs við viðkomandi fyrirtæki. Fær viðkomandi Sérfræðingur sinn eigin tengilið og gæta þarf þess að umhverfið sé rólegt og treitulaust og að engin tvíræðni sé í skilaboðum né skipunum. „Þau fyrirtæki sem hafa fengið sérfræðing hafa mörg hver tekið upp þessa vinnuhætti sem notaðir hafa verið fyrir Sérfræðingana, enda geta allir misskilið tvíræðni í svipbrigðum og skilaboðum,“ segir Unnur Berglind.

Laun sérfræðinganna eru samkeppnishæf við laun annarra einstaklinga og lögð er áhersla á að ekki sé um góðgerðarstarf að ræða heldur samkeppnishæft fyrirtæki. Specialisterne er  sjálfseignastofnun og hefur veriðrekin með hagnaði seinustu tvö ár að sögn Unnar Berglindar. Fyrirtæki Thorkil hefur vakið mikla athygli, innan sem utan Danmerkur enda víðar sem vantar úrræði fyrir fólk á einhverfurófinu. 

Þegar til stóð að færa út seglin var ákveðið að gera  það sem franchise, eða sjálfstættútibú, það er Specialisterne bjóða þeim löndum sem hafa áhuga á, að fá ráðgjöf eða leiðsögn til að koma á fót slíku útibúi. Á þann hátt verður fyrirtækið stækkað. Um þessar mundir á sér stað þess konar vinna hér á landi. 

Að koma á fót hinum íslensku sérfræðingum
Reykjavík er einn af fyrstu stöðunum í heiminum þar sem ætlunin er að koma Sérfræðingafyrirtæki á fót. Hinar þrjár borgirnar eru Köln, Berlín og Glasgow. Um þúsund manns hafa greinst hér á landi með einhverfu en talið er að allt að þrjúþúsund manns geti verið á einhverfurófinu. Umsjónarfélag einhverfra hefur lengi verið að leita úrræða fyrir einhverfa en ekkert fundið fyrr en nú sem veitir einhverfum stuðning yfir lengri tíma. Skoskt ráðgjafafyrirtæki sem og einn starfsmaður Specialisterne hafa komið hingað til lands til þess að gera fýsileikakönnun að sögn Hjartar Grétarssonar er fer fyrir þekkingarhópi Umjónarfélags einhverfra. „Í fýskileikakönnuninni er verið að athuga hvort grundvöllur sé fyrir þessastarfsemi hér á landi,“ segir Hjörtur.

 „Hvort hér séu nægileg verkefni, hvort samfélagslegt umhverfi sé gott, hvort raunveruleg þörf sé á starfseminni, semsagt hvort það sé hægt að fara út í þess háttar viðskipti.“ „Við höfum haft samband við marga aðila, svo sem Atvinnu  með stuðningi, Velferðasvið Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnun, höfum talað við mörg hugbúnaðarhús, svo sem Marel og CCP, raunar alla sem myndu komu til með að vera hluti af stuðningsneti. Og það eru allir til!“ segir Hjörtur.

Næstu skrefin felast í að stofna  sjálfseignastofnun um verkefnið sem verður gert nú í janúar aðsögn Hjartar. „Við þurfum að  fjármagna þetta því það kostar að koma þessu af stað, en síðanþegar Sérfræðingarnir byrja að vinna mun þetta vera að  öllu  leyti sjálfbært.“ 

Þekkingarhópurinn leitar nú að stofnaðilum, öllum þeim sem hafa áhuga á að koma að þessu að einhverju leyti og er hægt að kynna sér nánari upplýsingar á www.serfraedingarnir.is.

„Það er greinilegt að Specialisterne úti í Danmörku er að virka, fyrirtækið hefur hlotið margs konar viðurkenningar. Það er alltaf stuðningur til staðar fyrir Sérfræðingana, þess vegna gengur þetta upp,“ segir Unnur Berglind að lokum.

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga