Greinasafni: Heilsa
Rope Yoga: Heilsurækt fyrir líkama og sál

Fyrir þá sem líða áfram í gegn um lífið án þess að raunverulega vera virkir þátttakendur í eigin ákvörðunum er Rope Yoga hjá Elínu Sigurðardóttur kjörið tækifæri til að gera breytingu þar á. Fyrir utan að styrkja allt stoðkerfi líkamans þá fylgir Rope Yoga rík hugmyndafræði sem kennir að taka raunverulega stjórn á eigin lífi og njóta þess.
Rope Yoga eru æfingar sem eru gerðar með aðstoð banda og eru sérstaklega styrkjandi fyrir djúpvöðva líkamans að sögn Elínar. Sjálf segir hún þetta vera öflugustu kviðæfingar sem hún hefur kynnst og hefur hún prufað ýmislegt, enda keppt í sundi í átján ár og keppt á tvennum Ólympíuleikum. 

Djúpvöðvarnir styrktir
Æfingarnar fara fram á sérstökum bekk þar sem fætur og hendur eru tengdar saman með böndum. Það hjálpar til við að draga að hnén eða lyfta fótunum á mismunandi vegu. Elín leggur  mikla áherslu á að æfingarnar séu gerðar rólega og án allra kasta eða togs frá háls eða baki eins og margir geri í „kviðuppsetum“. „Við drögum saman kviðvöðvana á markvissan hátt með stuðningi frá böndunum, en þau veita okkur aðgang að djúpu kviðvöðvunum sem erfitt er annars að ná í,“ segir Elín.

Allar æfingar eru gerðar í vellíðan
Fólk gerir æfingarnar ýmist liggjandi á bakinu eða hliðinni. Æfingarnar virkja kviðinn, lærvöðva og rass. Í gegn um böndin styrkjast svo upphandleggir, brjóst og bak. „Þessar æfingar eru einnig mjög liðkandi fyrir axlirnar. Einnig leggjum við mikla áherslu á teygjur fyrir aftanverð og innanverð læri, mjaðmagrindarvöðva og alla vöðva sem verka á stirðleika í baki. Við höfum fengið ótrúleg viðbrögð frá fólki sem hefur átt við bakerfiðleika að stríða. Það geta allir gert þessar æfingar, burtséð frá hversu stirt eða liðugt fólk er - ég hef verið að þjálfa bæði okkar besta íþróttafólk á leiðinni á Ólympíuleika og fólk sem getur varla gengið. En ef einhver treystir sér ekki í ákveðnar æfingar þá finnum við alltaf aðra lausn á því með öðrum æfingum, en við gerum allar æfingar þannig að manni líði vel,“ segir Elín.

 

Hún segir þó ekki aldeilis laust við bruna í þessum æfingum, enda séu þetta miklar öndunaræfingar og öndun er auðvitað forsenda bruna.  Æfingarnar geta því bæði verið megrandi og styrkjandi fyrir fólk án þess að það þurfi að hlaupa og hoppa frá sér allt vit, eins og Elín orðar það.

Vaknað til vitundar
Æfingarnar eru þó bara helmingurinn  af kerfinu því að baki Rope Yoga liggur heilmikil hugmyndafræði sem byggir á sjö eftirfarandi þrepum:
1. Að vakna til vitundar

2. Að vera ábyrg(ur)

3. Ásetningur

4. Trúfesta

5. Að leyfa framgang

6. Innsæi

7. Þakklæti

Elín segir að lykilatriði sé að vakna til vitundar og átta sig á í hvaða ferli og vana við erum föst í. „Við eigum það til að hafna okkur sjálfum og dæma á neikvæðan hátt. Raunar hafa rannsóknir sýnt að við höfnum okkur að meðaltali 800 sinnum á dag. Okkur þykir við ekki nógu góð til að njóta þess sem hugur okkar stendur til. Hugmyndafræði Rope Yoga gengur út á að breyta þessum hugsunum í jákvæðar hugsanir og klappa okkur sjálfum á bakið í stað þess að berja okkur áfram með svipu. 

Lífið gert auðveldara
Til þess þurfum við að taka ábyrgð á okkar eigin lífi og hætta  að nota umhverfið ogaðra þætti til að vorkenna okkur. Líta á allt sem við göngum í gegn um sem tækifæri frekar en vandamál. Það er í raun ekki hægt að gera neinar breytingar fyrr en við tökum ábyrgð og fyrirgefum okkur sjálfum. Ef við tökum ekki ábyrgð á okkar eigin lífi getum við lítið gert annað en að bregðast við eins og dýr,“ segir Elín. Æfingarnar og hugmyndafræðin eru svo vitaskuld samverkandi, en með því að styrkja þessa óvirkustu vöðva líkamans sem bæta jafnvægi hans, getum við staðið bein og upprétt með sem minnstu viðnámi í tilverunni. „Allt sem þú gengur í gegnum vinnur þú á bæði líkamlega og andlega. Ef þú ert sterkur í kviðnum verður auðveldara að takast á við þau verkefni  sem lífið býður upp á,“ segirElín.

Hér er þó aðeins drepið á það helsta í Rope Yoga æfingakerfinu.   Áhugasamir eru hvattir til aðkynna sér málið á  www.elin.is og skrá sig á byrjendanámskeið.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga