Greinasafni: Heilsa
Jafnvægi: Heimilisleg heilsurækt sem skilar sér í okkar daglega lífi

Jafnvægi heilsurækt opnaði nýverið nýtt húsnæði að Kirkjulundi í Garðabæ, þar sem boðið er upp á fjölbreyttar leiðir til iðkunnar STOTT PILATES, HATHA YOGA og svokallaðra TRX æfinga. Hrafnhildur Sigurðardóttir, eigandi Jafnvægis, er mikil atorkukona, en fyrirtækið byrjaði inni í bílskúr hjá henni og hefur nú vaxið og dafnað í kjölfar mikillar eftirspurnar og ánægju viðskiptavina.

Nafnið segir Hrafnhildur að vísi til þess jafnvægis sem nauðsynlegt sé að finna í öllum hliðum lífsins, jafnt andlegu sem líkamlegu. Til að ná þessu jafnvægi leggur Hrafnhildur mikla áherslu á að hafa allt umhverfið í kringum kennsluna heimilslegt og þægilegt.  Þetta jafnvægi er einnig aðfinna í öllum æfingum sem Jafnvægi heilsurækt býður upp á, þær eru hvort tveggja styrkjandi og liðkandi og ná til allra vöðva líkamans.

Djúpvöðvarnir gleymast
Hið svokallaða STOTT PILATES byggir á hinum upprunalegu pilates æfingum, en í STOTT hafa sjúkraþjálfarar yfirfarið æfingarnar og gert þær aðgengilegri fyrir hinn almenna borgara. Hrafnhildur segir að allar æfingarnar sé hægt að laga að þörfum hvers og eins, t.d. sé notast við ýmis konar aukahluti til að létta eða  þyngja æfingarnar eftir því sem á við. 

„Í grunninn miðast STOTT PILATES að því að þjálfa djúpvöðva líkamans sem standa næst stoðkerfinu. Þessir vöðvar gleymast oft í hefðbundinni líkamsrækt, en þeir hætta einfaldlega að starfa rétt séu þeir ekki notaðir og eykst þá meiðslahætta til muna,“ segir Hrafnhildur. STOTT PILATES hentar öllum aldurshópum og eru í boði bæði kvenna- og karlahópar. Æfingarnar eru styrkjandi og liðkandi fyrir allan líkamann - fyrst og fremst maga og bak, án þess þó að aðrir vöðvar séu undanskildir. Þá þykja æfingarnar kjörnar fyrir íþróttafólk, sem mótvægi við aðrar æfingar.

Líkami, hugi og sál samtengd
Í Jafnvægi heilsurækt er einnig kennd svokallað HATHA YOGA, sem er sú jóga grein sem allar aðrar jóga greinar byggja á. HATHA byggir á ævafornri hefð sem ætlað er að koma á jafnvægi milli orkustrauma líkamans og tengir saman líkama, huga og sál. Hrafnhildur segir að það sé algengt að fólk sé haldið þeim misskilningi að það geti ekki stundað jóga sökum stirðleika. „Þú átt einmitt að fara í jóga ef þú ert stirður, því smám saman liðkast þú við jóga æfingar.” Stærsti munurinn á jóga og pílates er að stöðunum er haldið lengur í jóga, á meðan pílates flæðir meira áfram. Í jóga er meira verið að leggja áherslu á að losa um spennu í vöðvum og auka liðleika.

Hrafnhildur segir ótvíræða kosti bæði STOTT PILATES og HATHA YOGA æfinganna vera að þær styðji alveg einstaklega vel við okkar daglegu hreyfingar. Líkamsstaðan verður betri, jafnvægi eykst og bæði æfingakerfin leggja áherslu á djúpa öndun og mjúkar, langar hreyfingar sem ýta undir tengingu milli huga og líkama.

Unnið með eigin líkamsþyngd
Annað sem er nýtt hjá Jafnvægi er hið svokallað TRX æfingakerfi. -Í TRX er notast við sérhönnuð bönd sem hanga í loftinu og er unnið með eigin líkamsþyngd. Æfingakerfið byggir á djúpvöðvaæfingum, þol- og styrktaræfingum, æfingum sem auka sprengikraft og liðleika. TRX æfingar henta flestum, jafnt eldri borgurum og íþróttamönnum í toppformi en æfingarnar líkja eftir hreyfingum sem iðkandinn gerir daglega, hvort sem það er að setjast í stól eða slá með golfkylfu.“ Jafnvægi býður upp á einkatíma, hóptíma og námskeið og geta áhugasamir leitað frekari upplýsinga á www.jafnvaegi.is

Með á nótunum
Ef allt þetta væri ekki nóg, þá gerir Hrafnhildur einnig út tónlistarnámskeiðið Með á nótunum fyrir börn allt að fimm ára aldri. En til viðbótar við alþjóðleg kennsluréttindi í STOTT PILATES, HATHA YOGA og TRX, þá er Hrafnhildur menntaður grunnskólakennari og hefur lokið námi við söngskólann í Reykjavík. Námskeiðið styðst við bókina Með á  nótunum, sem Hrafnhildur skrifaði sjálf. Bók númer tvö er í prenntun og kemur út innan skamms.

„Námskeiðið hefur verið mjög vinsælt og er alltaf gaman hjá okkur í tímum. Foreldrarnir koma með börnunum sínum og svo gerum við sitt lítið af hverju - syngjum, dönsum, leikum á hljóðfæri og gerum svo smá jóga og pílates í lokin.  Markmiðið með námskeiðinu er að auka mál- og hreyfiþroska barnanna og virkja tónlistareiginleika þeirra. Þá vil ég líka gera foreldra svolítið meðvitaðri um notkun tónlistar í uppeldinu,“ segir Hrafnhildur. Hrafnhildur hefur einnig farið með námskeiðið inn á leikskóla við góðan orðstír, en þá eru það foreldrafélögin sem fjármagna námskeiðið í samráði við  leikskólana.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga