Greinasafni: Orka
H2O WATN: Frá Berufirði til Ísrael
Í þeirri óvissu sem blasir við í íslensku efnahagslífi er ekki vanþörf á framtakssömum einstaklingum með stórar hugmyndir. Hugmyndirnar gerast varla miklu stærri en útflutningur á tugum þúsunda tonna af vatni í gríðarstórum tankskipum í viku hverri frá Berufirði  að botni miðjarðarhafs.Einkahlutafélagið H20 WATN hefur einmitt uppi hugmyndir um slíkt og eru viðræður komnar langt á veg og ef allt gengur eftir gæti útflutningur hafist núna í sumar. 

Auðunn Snævar Ólafsson, framkvæmdastjóri félagsins, tekur  þó fram að ekkert sé enn fastí hendi í þessum efnum, en viðræður standi nú yfir við fjárfesta og kaupendur. Þá þurfi framtakið  að fara í gegn um ýmsa stjórnskipulega ferla hér á landi. „Þetta lofar allt mjög góðu og við höfum ekki fengið nein rauð ljós ennþá. Ætli megi ekki segja að eina gula ljósið sem við höfum fengið sé að við vildum gjarnan sjá meira fjármagn koma inn í verkefnið. Við eigum þó í viðræðum við fjárfesta í Bandaríkjunum og eins eru fjárfestar hér heima sem hafa lýst yfir áhuga,“ segir Auðunn.

Gríðarlegar tekjur í þjóðarbúið
Aðrir eigendur H20 WATN (Worldwide Aqua Transport Network) ásamt Auðunni eru Ólafur S. Ögmundsson, yfirvélstjóri, Djúpavogshreppur og svo segir Auðunn að þeir hafi alla tíð ætlað ríkinu hlut sem fjórða eiganda. „Viðtökur yfirvalda hafa verið afar  jákvæðar. Málið er nú fyrir nefnd sem niðurstöðu er að vænta úrog höfum við enga ástæðu til að ætla annað en að hún verði jákvæð. Þetta myndi skapa ríkinu og sveitarfélaginu umtalsverðar tekjur nái þetta fram að ganga. Það er auðvitað erfitt að nefna  einhverjar tölur í þessu samhengi,en við erum að tala um marga milljarða,“ segir Auðunn.

Íraelsmenn heitir
Félagið á nú í viðræðum við ráðamenn í Ísraelsríki um kaup á vatninu. Aðspurður um hvernig í ósköpunum lítið einkahlutafélag á Íslandi komist í viðræður við ríki  sem er jafn fjarri Íslandi og Ísraelsegir Auðunn svarið vera að finna á internetinu. „Við byrjuðum einfaldlega að leita á netinu að þjóðum sem glíma við vatnsskort og skoðuðum í því samhengi meðal annars Marokkó, Túnis, Egyptaland,  Lýbíu og Vestur-Sahara, enlangbestu viðbrögðin fengum við frá Ísrael. Það stafar líklega af því að þeir eru í bráðri hættu við að Galíleu vatnið deyi einfaldlega í höndunum á þeim. Vatnið er ein af stærstu ferskvatnsuppsprettum þeirra og það er nú á góðri leið með að snúa sér, það er að segja að breytast varanlega í saltvatn, verði ekkert aðhafst. Við erum því nú að reyna að sannfæra þá um að íslenska ferskvatnið geti komið þeim til bjargar.“  Vatnið væri selt sem iðnaðarog landbúnaðarafurð, en ekki sem neysluvatn. Því segir Auðunnað líta megi á fossinn í Berufirði, þaðan sem vatnið yrði sótt,  eins og námu. „Þetta væri ein af bestu námum sem í boði eru,því í venjulegri námu er á bilinu 30-40% málmur í hverju tonni  af grjóti, en hjá okkur væri þaðum 90%. Því erum við nokkuð vongóðir um að Ísraelsmenn sjái að þetta sé raunverulegur kostur fyrir þá,“ segir Auðunn.

 10-13 ný stöðugildi myndu skapast
Verkefnið er hugsað sem svokallað FOB verkefni, en þá er í raun aðkomu seljandans lokið um leið og varan er komin um borð í skipið. „Þá myndu starfsmenn á  vegum h2O WATN sjá um hleðslu og þjónustu skipanna. Ljóst erað þar er talsverð vinna, enda yrði skipið hlaðið á öllum tímum sólarhringsins á meðan það lægi  við viðlegukant. Við höfum áætlaðað í byrjun myndu skapast um 10-13 stöðugildi og svo afleidd störf í framhaldi af því. Ef allir  samningar ganga svo eftir gætum við byrjað að hlaða fyrsta skipið í  júli á þessu ári,“ segir Auðunn. Verkefnið krefst engra raunverulegra hafnarframkvæmda, aðeins viðlegubúnaður sem H20 WATN mun reisa. Siglingastofnun Íslands mun svo setja vinnureglur varðandi siglingar í firðinum, en ákveðin takmörk eru fyrir því við hvaða skipum fjörðurinn getur tekið. Hámarks stærð tankskipa er 150 þúsund tonn, en þyngri skip myndu rista í botn fjarðarins. Miðað við þann vatnsskort sem blasir við Ísraelsmönnum á Auðunn ekki von á öðru en að þeir muni fullnýta afkastagetu  fjarðarins ef samningar nái fram að ganga, en það eru um 2-4 skip á viku.

Lítil umhverfisáhrif
Dælingin segir Auðunn að virki á mjög svipaðan hátt og gert sé í olíuvinnslu, nema að í þessu tilfelli sé engin mengunarhætta á ferðinni. „Fyrir neðan fossinn er um 20-30 þúsund rúmmetra hylur, þaðan sem vatninu yrði dælt í gegn um dæluhús út í pípur sem liggja niður að höfn. Áin er það vatnsmikil að það er ekki möguleiki fyrir okkur að tæma hylinn -það sér í raun ekki högg á vatni. En vitaskuld fer þetta í umhverfismat. Þetta svæði er reyndar nýbúið að fara í umhverfismat þegar þjóðvegurinn var færður hér fyrir nokkrum árum. Það liggur fyrir að þetta verkefni mun ekki valda meiru raski en þessi vegur. En auðvitað þarf þetta að fara í gegn um þetta ferli og mun Umhverfisstofa koma til með að setja okkur ákveðnar vinnureglur sem við munum lúta,“ segir Auðunn.

Jákvæð samfélagsleg áhrif
H20 WATN hefur notið góðs af stuðningi Impru – Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við að koma verkefninu af stað í formi bæði styrkja og sérfræðiaðstoðar. Auðunn segir aðkomu þeirra  mjög góða og kann Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sérstakar þakkir fyrir gott samstarf. „Þeir hafa verið okkur innan handar með alla sérfræðiþekkingu og ráðleggingar. Þarna er mikið af sérmenntuðu fólki sem er gríðarlega mikilvægt að geta nýtt í verkefni eins og þessu. Það er auðvitað nauðsynlegt að veita nýsköpunarfyrirtækjum þann stuðning sem þau þurfa til að komast af stað. Það sem mér finnst svo sérstaklega skemmtilegt við nýsköpunarverkefni af þessari stærðargráði er að okkur finnst það færa svo jákvæð áhrif inn í samfélagið í heild sinni og ekki veitir nú af í þessu umhverfi sem við búum við í dag,“ segir Auðunn.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga