Greinasafni: Menntun
Stjórnendur þurfa líka að vera leiðtogar

Kreppan og þær hörmungar sem hafa dunið yfir íslenskt samfélag undanfarið tæpt ár hafa haft alvarleg áhrif á íslensk fyrirtæki sem mörg hver eru í erfiðri stöðu. „Samfélagið í heild og vinnustaðir eru í einhverskonar tómarúmi á milli þess sem var og verður,“ segir Eyþór Eðvarðsson M.A. í vinnusálfræði sem á og rekur fyrirtækið Þekkingarmiðlun ásamt Ingrid Kuhlman.

 Eythor.jpg
 
Og Eyþór bætir við: „Þær stóru breytingar sem átt hafa sér stað hér á landi eru ekki hefðbundnar eða sambærilegar við það þegar fyrirtæki sameinast eða verið er að skipta um tölvukerfi. Þess vegna þarf að bregðast við þeim á nýjan hátt. Það sem er sérstakt við umbreytinguna sem við erum í núna er mikið óöryggi, óvissa, reiði, særindi, vonleysi og framtíðin virðist svört. Hugmyndafræðin, skipulagið og í raun allt kerfið sem við unnum eftir er breytt og það er ekkert komið enn í staðinn. Í þannig ástandi þrífst vantraust og tortryggni, t.d. gagnvart yfirvöldum og stjórnendum. Framleiðni, afköst, frumkvæði og metnaður minnkar. En það þarf ekki að vera þannig.

Stór hluti starfs okkar er að aðstoða stjórnendahópa og vinnustaði við að ná tökum á ástandinu. Mikilvægast núna er að stjórnendahópar átti sig á hlutverki sínu sem er að leiða vinnustaðinn í gegnum ástandið og virkja þá krafta sem eru til staðar eins og það að fólk vill leggja sitt af mörkum. Stjórnendur og starfsmenn verða að vera á varðbergi gagnvart tilfinningum á vinnustaðnum. Reitt fólk er ekki þekkt fyrir skynsamar ákvarðanir og hrætt fólk leitar alltaf að fljótustu leiðinni í burtu. Fólk þarf að vera yfirvegað og skynsamt þegar aðstæður eru erfiðar og flóknar.“

  stjornendathjalfunI.jpg
 
Langlíf fyrirtæki

„Reynsla langlífra framúrskarandi fyrirtækja gefur sterka vísbendingu um hvað það er sem þarf að huga að. Eitt af því er fyrir hvað vinnustaðurinn stendur. Þegar á reynir skiptir máli hvern mann þú hefur að geyma. Sama gildir um vinnustaði. Þeir vinnustaðir sem hafa skýr og lifandi gildi og vita fyrir hvað þeir standa eiga auðveldara með að halda sjó. Við sem þjóð erum t.d. núna að leita í gildin og að svörum við spurningunni: Hver erum við raunverulega og fyrir hvað stöndum við. Annað sem reynsla langlífra fyrirtækja sýnir er að stjórnendur þurfa nú sem aldrei fyrr að vera traustir, heiðarlegir, einlægir og hreinskilnir. Í ástandi þar sem óvissa ríkir þarf allt að vera uppi á borðum, gegnsæi í ákvarðanatöku og opnar umræður um viðkvæma hluti. Getan til að horfast í augu við erfiðar aðstæður og taka erfiðar ákvarðanir þarf að vera fyrir hendi. Langlíf fyrirtæki kunna einnig með peninga að fara. Við gleymdum okkur hvað þetta varðar í þessum svokallaða uppgangi. Allt var hægt að kaupa og fá lán fyrir öllu.“

  Hestar Þekkingarmiðlun.jpg
 
Tímabil óvissu og óöryggis má nýta vel

Ef vel er að verki staðið á vinnustöðum er hægt að nýta þetta tímabil óvissu og óöryggis á uppbyggilegan hátt að mati Eyþórs. „Vinnustaðir sem við höfum unnið með hafa margir hverjir náð að snúa ástandinu sér í hag. Auðvitað er staða margra mjög erfið en dæmi um það sem fyrirtæki hafa gert er að finna sparnaðartækifæri upp á tugi milljóna, finna nýja markaði, nýja viðskiptavini, nýjar leiðir til að eiga viðskipti, styrkja innviði vinnustaðarins og gera hann kröftugri, straumlínulagaðri, hreinskilnari og heilli.

Það sem fyrirtæki geta gert til að flýta fyrir því að þau komist út úr tómarúminu og í uppbygginguna er að fara í gegnum nokkra umbreytingarfasa. Fyrsti fasinn er að gera ástandið umræðuhæft, skilja hvað er að gerast og átta sig á ástandinu. Annar fasinn er að draga lærdóm af fortíðinni, nýta það sem gagnaðist og hætta því sem ekki reyndist vel og skilja fortíðina frá framtíðinni. Þriðji fasinn er að móta framtíðarsýn sem er raunhæf og spennandi og fjórða stigið er að formgera framtíðarsýnina í stefnunni, skipulaginu og verklaginu.

Mikilvægt er að stjórnendur hafi í huga að ástandið í dag gerir kröfu á að stjórnendur geti tekið að sér leiðtogahlutverkið sem þýðir að þeir þurfa að horfa lengra fram á tímann, hugsa út fyrir rammann, ræða framtíðarsýnina, spyrja spurninga og leita leiða. Einnig að huga að fólkinu og tryggja að hópurinn haldist saman og stefni í rétta átt. Ef vel er að verki staðið munu þessir mánuðir sem kreppan varir verða undirstaðan fyrir öflugri fyrirtæki, öflugra hagkerfi og umfram allt annað enn sterkara og kraftmeira samfélag. Framtíðin er í okkar höndum,“ segir Eyþór í lokin.

 www.thekkingarmidlun.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga