Greinasafni: Menntun
Fjölbreytt flóra námskeiða

Farskólinn, miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra

Fjölbreytt flóra námskeiða

Farskólinn, miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra hefur boðið upp á fjölbreytt námskeið síðan árið 1992. Þessa dagana er Farskólinn að viða að sér efni í námsvísi haustannar sem kemur út um næstu mánaðarmót. Tvö stór námskeið frá fyrra ári byrja nú í september; þau eru Grunnmenntaskólinn á Hvammstanga og Eflum byggð á Blönduósi.

Margrét Björk Arnardóttir, náms- og starfsráðgjafi og 
Jóhann Ingólfsson, verkefnastjóri.

Bryndís Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Farskólans, segir að Farskólinn bjóði upp á öll þau námskeið sem þau finni að eftirspurn sé eftir. „Námskeið í tölvum, og tungumálum hafa verið eftirsótt. Við leggjum aukna áherslu á að bjóða upp á starfstengd námskeið samkvæmt námsskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Grunnmenntaskólinn og Skrifstofuskólinn eru gott dæmi um það og það sem laðar fullorðna ekki síst í námið er að fyrir námið fá þeir framhaldsskólaeiningar. Þetta skiptir miklu máli.Tómstundanámskeið eru ekki eins eftirsótt og áður var, en þó verð ég að nefna það að þrjú námskeið í silfursmíði voru haldin á síðasta skólaári,“ segir Bryndís.

Símenntun á Norðurlandi vestra efld

Hún segir að Farskólinn sé fyrir alla íbúa á Norðurlandi vestra. „Okkar markhópur er fyrst og fremst fullorðið fólk á vinnumarkaði, en Farskólinn er líka fyrir þá sem stefna á háskólanám eða eru þegar byrjaðir. Nemendur skólans eru á öllum aldri; allt frá 16 ára til eldri borgara. Innflytjendur koma hingað til okkar á íslenskunámskeið en þeir skrá sig líka á starfstengd námskeið eins og fagnámskeið fyrir starfsfólk í heilbrigðisþjónustu. Við ætlum að beina sjónum okkar að iðnaðarmönnum næstu misserin, bæði ófaglærðum og þeim sem vilja fara í framhaldandsnám. Þeir munu heyra frekar frá okkur í haust,“ segir Bryndís.

Markmið Farskólans eru samkvæmt skipulagsskrá að efla endur- og símenntun á Norðurlandi vestra, greina þarfir fyrir fræðslu bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. „Farskólanum er ætlað að vera í góðu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir á svæðinu og nú erum við að spýta í lófana hvað þetta varðar enda kominn til okkar náms- og starfsráðgjafi sem mun sinna fyrirtækjum sérstaklega,“ segir Bryndís.

Bryndís Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Farskólans

Aðilar að skólanum eru sveitarfélög á Norðurlandi vestra, stéttarfélög, skólar og fyrirtæki. „Hlutverk Farskólans er að sinna símenntun fullorðinna á svæðinu, bæði einstaklingum og í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir, ásamt því að hafa umsjón með fjarnemendum í háskólanámi. Farskólinn starfar náið með öðrum fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum á Íslandi.

Farskólinn hefur mikla þýðingu fyrir svæðið og ég tel atvinnulífið gera sér grein fyrir því. Sem dæmi nefni ég að þegar fólk hefur misst vinnuna þá höfum við getað brugðist fljótt við, að beiðni Vinnumálastofnunar og boðið upp á námskeið fyrir hópinn. Í Austur-Húnavatnssýslu er til dæmis stórt námskeið, Eflum byggð, sem styrkt er úr sjóði vegna kvótaniðurskurðar og er ætlað íbúum sem vilja efla sig í starfi eða skipta um starfsvettvang á sínu heimasvæði. Þar leggjum við áherslu á mikla sjálfstyrkingu og frumkvöðlafræði, svo dæmi séu tekin. Samstarfsaðilar okkar þar eru Fjölbrautaskólinn og Hólaskóli-háskólinn á Hólum,“ segir Bryndís.

Náin tengsl skólans við atvinnulífið eru þýðingarmikil og mörg fyrirtæki í greininni leita til okkar eftir starfsfólki.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga