Greinasafni: Menntun
Ferðaþjónustan er ein bjartasta vonin í atvinnulífi Íslendinga

-Ferðamálaskóli MK í Kópavogi

Ferðamálaskóli MK í Kópavogi hefur boðið upp á nám í ferðaþjónustu frá árinu 1987 og leggur mikla áherslu á öflugt starfsnám og gott samstarf við atvinnulífið.

Helene H. Pedersen, fagstjóri Ferðamálaskólans, segir að námið sé mjög hagnýtt og undirbúi nemendur beint undir frekara starf í greininni. „Við bjóðum upp á skemmtilegt alhliða nám á sviði ferðaþjónustu þar sem nemendur fræðast um land og þjóð og uppbyggingu og starfsemi greinarinnar. Námið býður upp á ótal möguleika og starfsmöguleika í greinnni, á ferðaskrifstofum, upplýsingamiðstöðvum, flugfélögum, hótelum og afþreyingarfyrirtækjum, svo eitthvað sé nefnt. Náin tengsl skólans við atvinnulífið eru þýðingarmikil og mörg fyrirtæki í greininni leita til okkar eftir starfsfólki. Eftir tveggja anna bóklegt nám fara nemendur í starfsþjálfun í þrjá mánuði þannig að flestir eru komnir með starf í greininni þegar þeir útskrifast úr náminu. Sumir nemendur hafa líka valið að mennta sig enn frekar eftir námið hjá okkur og er samningur í gangi milli okkar og Háskólans á Hólum þannig að útskrifaðir nemendur frá okkur geta farið beint inn á annað ár í ferðamálafræðum og lokið BA námi á tveimur árum,“ segir Helene.

Nemendahópur Ferðamálaskólans er af öllum aldri og úr öllum stigum lífsins.

Fjölbreyttur nemendahópur

Hún segir fjölbreyttan hóp fólks sækja nám í Ferðamálaskólanum. „Þeir nemendur sem koma í þetta nám eru á öllum aldri, allt frá tvítugu og alveg upp að sextugu. Fólk kemur með ólíkan bakgrunn inn í námið, einhverjir koma beint eftir stúdentspróf, aðrir hafa starfað í greininni og vilja bæta við þekkingu sína og enn aðrir koma inn gagngert til að breyta um starfsvettvang. Einstaka hafa síðan farið út í eigin rekstur eftir námið hjá okkur,“ segir Helene.

Alhliða menntun

Í Ferðamálaskólanum eru þrjár námslínur: starfstengt ferðafræðinám, flugþjónustunám og hagnýtt ferðafræði- nám. Markmið starfstengda ferðafræðinámsins er að bjóða upp á hagnýtt nám og alhliða menntun á sviði ferðaþjónustu. Flugþjónustunámið er undirbúningur fyrir störf í farþegarými flugvéla og er markmið námsins að útskrifa nemendur með undirstöðuþekkingu í flugöryggismálum og ferðaþjónustu. Hagnýtt ferðafræðinám er námsleið sem veitir ferðaþjónustuaðilum og öðrum áhugasömum tækifæri til að sækja sér menntun þegar þeim hentar. Í skólanum er boðið upp á kvöldnám, sem er eins árs nám fyrir tuttugu ára og eldri og dagnám fyrir menntaskólanemendur sem geta valið sér ferðalínu til stúdentsprófs.

Skortur á fagfólki   

Helene segir að nám af þessum toga sé ferðaþjónustuiðnaðinum gríðarlega mikilvægt og skortur hafi verið á menntuðu fólki í greininni. „Þegar Ferðamálaskólinn hóf starfsemi sína var enginn annar sambærilegur skóli starfræktur og var í raun krafa frá atvinnulífinu um svona nám. „Það er nauðsynlegt að hafa fagfólk sem tekur á móti erlendum sem innlendum ferðamönnum. Ferðaþjónusta mun á næstu misserum vera okkar helsta vopn við að styrkja ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. Ferðaþjónusta er ein bjartasta vonin í atvinnulífi okkar Íslendinga og þess vegna er nauðsynlegt að byggja ferðaþjónustuna vel upp strax,“ segir Helene.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga