Greinasafni: Menntun
Hljóðbókasíðan Hlusta.is

Hljóðbókasíðan Hlusta.is hefur nú verið starfrækt í nokkra mánuði og verið vel tekið að sögn eigenda. Markmiðið með síðunni er að gefa almenningi kost á afþreyingu og fróðleik með því að hlusta á skemmtilegan og áhugaverðan upplestur. Geta notendur valið milli þess að hlusta beint af tölvunni sinni, hlaðið lestrunum á iPod og/eða brennt þá á geisladisk. Efnið er allt á íslensku og margvíslegt, t.d. Íslendingasögur og skáldsögur íslenskra höfunda sem komnir eru úr höfundarétti. Sem dæmi um slíka höfunda má nefna Torfhildi Hólm, Jón Trausta, Einar Kvaran, Jónas Hallgrímsson, Ólöfu frá Hlöðum o.m.fl.

Þeir sem hafa áhuga á fróðleik geta einnig fundið margt áhugavert á vefnum og benda má sérstaklega á Íslandssögu Halldórs Briem og Mannkynssögu Páls Melsteð, tvö öndvegisrit sem vert er að hlusta á. Af nýrri fróðleik er bent á Heimspekingar fyrr og nú eftir Dr. Geir Sigurðsson, yfirlit yfir sögu vestrænnar heimspeki sem hann skrifaði fyrir vefinn. Svo er á vefnum fjöldinn allur af barnasögum og styttri þáttum, áhugaverðum og fróðlegum.

Í viðtali í Víðsjá síðastliðið vor líkti spyrjandi vefnum við “Gufuna” og segjast forsvarsmenn Hlusta.is vera sérlega ánægðir með þá samlíkingu. Þeir leggi mikinn metnað í að vera með vandað menningartengt efni og þar hafi „Gufan“ alltaf verið í fararbroddi.

Þrátt fyrir að megináherslan á Hlusta.is sé á íslenskt efni er þar einnig töluvert af þýddu efni; margar öndvegisþýðingar úr smiðju ekki ómerkari manna en þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar, Björns Jónssonar ritstjóra og Guðmundar Guðmundssonar skólaskálds. Í þessu sambandi er líka vert að nefna að mikil áhersla er lögð á alls kyns þjóðlegan fróðleik, svo sem efni eftir Finn Jónsson frá Kjörseyri,  síra Ólaf Ólafsson frá Guttormshaga og innan tíðar mun verða boðið upp á þjóðhætti síra Jónasar frá Hrafnagili.

Þeir hjá Hlusta.is segja stefnuna vera þá að gefa hlustendum góða yfirsýn yfir íslenskar bókmenntir fram yfir fyrra stríð, og krydda það svo með nýlegra efni eftir höfunda á borð við Matthías Johannessen ritstjóra og skáld sem er mikill áhugamaður um hljóðbækur og stuðningsmaður Hlusta.is. Auk skáldsögunnar Vatnaskil má heyra á Hlusta.is margt af verkum Matthíasar og innan tíðar verður hægt að nálgast þar úrval úr samtölum hans við áhugaverða einstaklinga, samtöl sem allir fagurkerar gleyptu í sig á árum áður og verða jafnvel enn áhugverðari þegar horft er til baka. Já, nýjasta tæknin er notuð til að styðja við sígilt og íslenskt efni á Hlusta.is.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga