Búsetugæðin aukin - Fræðslunet Suðurlands býður upp á víðtæka fræðslu á svæðinu
Fræðslunet Suðurlands býður upp á víðtæka fræðslu á svæðinu.
Fræðslunet Suðurlands býður upp á fjölda námskeiða á komandi haustönn og segir Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, verkefnisstjóri Fræðslunetsins, að meginmarkmiðið sé að efla aðgengi íbúa fjórðungsins að margs konar námi og símenntun og auka með því búsetugæði á svæðinu.
Meginmarkmiðið er að efla aðgengi íbúa fjórðungsins að margs konar námi og símenntun og auka með því búsetugæði á svæðinu.

„Við erum núna á fullu að ljúka undirbúningi fyrir haustönnina hjá okkur. Það er verið að leggja lokahönd á námsvísinn fyrir haustönnina en hann verður veglegri en venjulega vegna þess að um þessar mundir á Fræðslunetið tíu ára afmæli. Í ritinu verða því nokkrar greinar um Fræðslunetið og viðtöl við nemendur sem eru hér í námi. Í tilefni af afmælinu höfum við undirbúið nokkur námskeið/fyrirlestra sem verða ókeypis núna á haustönninni. Þessi námskeið snúast um vellíðan fólks, siðferðilegar hliðar kreppunnar og hvernig konur geta breytt heiminum,“ segir Steinunn.

Fræðslunetið er sjálfseignarstofnun og vinna þar tveir starfsmenn í fullu starfi og þrír í hlutastarfi. Aðalaðsetur Fræðslunetsins er í Iðu á Selfossi, en námskeið eru haldin á öllu Suðurlandi að Vestmannaeyjum undanskyldum. Fræðslunetið hefur einnig miðlað háskólakennslu í gegnum fjarfundabúnað og segir Steinnun að fjölmargir háskóla- og framhaldsskólanemar taki einnig próf hjá Fræðslunetinu á hverri önn.

Fólk verður ánægðara í starfi
Hún segir að auka megi búsetugæði svæðisins með því að gera fólki kleift að sækja sér menntun á ýmsum sviðum í margvíslegum tilgangi, bæði formlega með viðurkenndum námsleiðum og óformlega, tengda atvinnu viðkomandi eða áhugasviði. „Það skiptir afar miklu máli fyrir svæðið að hafa aðila sem getur veitt þessa þjónustu og að fólk þurfi ekki að sækja sér aukna menntun um of langan veg. Fyrir atvinnulífið skiptir það miklu máli að hafa viðurkenndan fræðsluaðila á svæðinu sem getur tekið að sér að halda námskeið fyrir fyrirtækin. Starfsfólk sem hefur sótt námskeið hjá okkur er yfirleitt mjög ánægt og verður sáttara í sínu starfi auk þess sem það tryggir sig betur í starfi. Margir verða svo áhugasamir að þeir halda áfram að læra og það er fátt ánægjulegra en að fylgjast með fólki sem taldi að það ætti ekkert erindi í nám, fyllast sjálfsöryggi og óbilandi námsáhuga,“ segir Steinunn.

Fræðslunetið býður annars vegar uppá starfstengd námskeið og hins vegar íslenskukennslu, tungumála- og tölvunámskeið og svo tómstundanámskeið. Einnig heldur Fræðslusetrið fræðsluerindi um efni sem eru áhugaverð á hverjum tíma.

 
Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, 
verkefnisstjóri Fræðslunets Suðurlands
.

Steinunn segir að tölvunámskeið séu alltaf vinsæl og einnig námskeið í stafrænni myndvinnslu og myndatökum. „Það er alltaf reynt að halda námskeið sem tengjast Suðurlandi t.d. átthaganámskeið og örnefnanámskeið sem hafa verið mjög vinsæl. Svo eru alltaf einhver námskeið sem slá í gegn, en það er alveg óútreiknanlegt hvað virkar og hvað ekki og það fer alls ekki eftir verði námskeiðanna,“ segir Steinunn.

Vísindastarf eflt
Eitt af markmiðum Fræðslunetsins er að efla vísindastarf- og rannsóknir á svæðinu og í því skyni var stofnaður sérstakur sjóður sem kallast Vísinda- og rannsóknarsjóður Fræðslunets Suðurlands og hann styrkja fjölmörg sveitarfélög, félög og fyrirtæki á Suðurlandi. Úr honum er veittur veglegur styrkur einu sinni á ári til verkefna sem tengjast Suðurlandi með einhverjum hætti.

Margir verða svo áhugasamir að þeir halda áfram að læra og það er fátt ánægjulegra en að fylgjast með fólki sem taldi að það ætti ekkert erindi í nám, fyllast sjálfsöryggi og óbilandi námsáhuga,“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga