Greinasafni: Menntun
Fjölbreytt nám fyrir atvinnulífið
  -Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum  

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er sjálfseignastofnun sem hefur sem markmið að efla endur- og símenntun Suðurnesjamanna, samstarf atvinnulífs og skóla og tengsl grunn- og endurmenntunar. MSS býður einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum námskeið sem ekki heyra beint undir formlegt námsframboð skóla og er hér einkum átt við frístundanám og starfstengd námskeið og námskeiðaraðir.

Guðjónína segir fjölbreyttan og spennandi vetur vera framundan hjá MSS.

MSS býður upp á tungumálanámskeið og námskeið fyrir pólverja. Einnig býður MSS upp á nám eins og leikskóla- og félagsliðabrú og háskólastoðir. Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður MSS, segir að mikil ásókn hafi verið í nám í háskólastoðum, en námið henti þeim sem vilja hefja nám á framhaldsskólastigi en vilja fara aðra leið en í gegnum hið hefðbundna framhaldsskólakerfi.

Nám fyrir atvinnulífið
Guðjónína segir að MSS bjóði upp á fjölbreytt nám fyrir atvinnulífið. „Í dag er ferðaþjónustan vaxandi atvinnugrein hér á landi og býður MSS upp á námið Færni í ferðaþjónustu fyrir þá sem vilja efla þekkingu sína á því sviði. Svæðisbundið leiðsögunám hefst í september en námið er fyrir einstaklinga sem vilja starfa sem leiðsögumenn á Reykjanesi og einnig fyrir þá sem vilja einfaldlega bæta sína þekkingu á svæðinu. MSS heldur mikið af námskeiðum fyrir sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og aðrar heilbrigðisstéttir. Einnig fyrir starfsfólk á leikskólum. Fjölmörg námskeið eru í boði fyrir atvinnulífið almennt eins og síma- og tölvupóstsvörun, tölvunámskeið og skapandi hugsun,“ segir Guðjónína.

Slæmt atvinnuástand en margir möguleikar

Hún segir atvinnuástandið á Suðurnesjum vera slæmt um þessar mundir og að MSS bjóði einstaklingum í atvinnuleit ný tækifæri. „Atvinnuleysi er mikið í landinu og er ástandið einna verst á Suðurnesjum. MSS er í samvinnu við Vinnumálastofnun um námskeiðahald fyrir atvinnulausa. Einstaklingum í atvinnuleit er meðal annars boðið upp á námskeið sem kallast Árangursríkari starfsleit þar sem farið er í færnimöppu, ferilskrá og hagnýt ráð í atvinnuleit. Einnig býður MSS upp á náms- og starfsráðgjöf og er mjög vinsælt að fara í áhugasviðsgreiningu því margir nýta svona stórar breytingar í lífi sínu til að stokka upp og jafnvel fara að læra eitthvað sem þá hefur langað til en ekki gert vegna anna. Einnig er boðið upp á íslenskunámskeið og sjálfseflingarnámskeið,“ segir Guðjónína.

MSS er í góðu samstarfi við Atvinnuþróunarráð Suðurnesja og Vinnumarkaðsráð Suðurnesja og bjóða þessir aðilar einstaklingum sem hafa hug á að stofna fyrirtæki eða eru með fyrirtæki upp á námskeið sem eiga að efla þekkingu og færni í rekstri og segir Guðjónína það geta skapað ný atvinnutækifæri sem ekki veiti af á þessum tímum. Dæmi um námskeið sem boðið er upp á er Gerð viðskiptaáætlana, Stofnun og rekstur smá fyrirtækja og Markaðsmál fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.


Námskeið og ráðgjöf fyrir pólverja
Guðjónína segir mikla þörf vera á ráðgjöf til síaukins fjölda útlendinga. „Eins og hjá Íslendingum eru miklar breytingar á þeirra högum um þessar mundir. Hjá MSS er starfandi pólskur ráðgjafi sem aðstoðar við náms- og starfsleit og sér einnig um að skipuleggja námskeið fyrir þennan hóp,“ segir Guðjónína.

Námskeið fyrir lesblinda
MSS hefur boðið reglulega upp á nám fyrir lesblinda og er hægt að komast í lesblindugreiningar hjá MSS. Einnig mun MSS bjóða upp á námið Aftur í nám sem byggir á Ron Davis aðferðinn, sem Guðjónína segir hafa hjálpað mörgum lesblindum að hefja nám að nýju og hjálpað til við að auka einbeitingu.

Raunfærnimat
MSS mun í vetur fara af stað með verkefni í raunfærnimati fyrir aðila sem hafa góða starfsreynslu í húsasmíði en hafa ekki lokið formlegu námi á því sviði. „Margir á vinnumarkaðnum hafa í gegnum áralanga reynslu byggt upp umtalsverða færni í ákveðinni iðngrein, en ekki lokið námi af einhverjum ástæðum. Þessir einstaklingar búa yfir raunfærni sem vert er að skoða og meta. Nú þegar hafa margir farið í gegnum raunfærnimat og fengið sína þekkingu og færni metna inn í skólakerfið og stytt þannig skólagöngu sína,“ segir Guðjónína.

„Framundan er fjölbreyttur og skemmtilegur vetur hjá MSS og hvetjum við alla til að kanna framboð okkar á www.mss.is eða heimsækja okkur í nýtt húsnæði að Krossmóa 4 í Reykjanesbæ“ sagði Guðjónína að lokum.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga