Dansástríðunni haldið lifandi
-Viðtal við Láru Stefánsdóttur, skólastjóra Listdansskóla Íslands

Lára Stefánsdóttir hefur nýverið tekið við skólastjórastöðu Listdansskóla Íslands. Hún segist muni einbeita sér að því að viðhalda þeim gæðum sem einkennt hafa skólann, ásamt því að innleiða spennandi nýjungar. Hún segir dansinn vera og hafa alla tíð verið, heilbrigða útrás fyrir líkama, anda og sál og því henti listdansinn í raun fyrir alla.

Lára Stefánsdóttir skólastjóri Listdansskóla Íslands.

Að sögn Láru fylgja nýjum stjórnanda nýjar áherslur, eðli málsins samkvæmt og komi þær í ljós á næstunni. „Ég mun leggja áherslu á úrvals kennaralið með gæði og þekkingu í fyrirrúmi. Það hafa reyndar alla tíð verið góðir kennarar starfandi við Listdansskóla Íslands og við erum það lánsöm að þeir eru margir enn hér til staðar. Einnig tel ég afar mikilvægt að í skólastarfinu ríki stöðug viðleitini til að halda ástríðunni fyrir dansinum lifandi. Áhuginn verður að koma innan frá og öllu starfsfólki sem og nemendum á að þykja skemmtilegt og ögrandi að koma til leiks,“ segir Lára.

Aukið samstarf við tónlistarfólk

Meðal nýjunga sem Lára hyggst kynna fyrir nemendum er líkamsþjálfun sem kallast Pilates. „Þetta verður einskonar fagnaðarerindi inn í skólann. Pilates þjálfunin er iðkuð af flestum dönsurum erlendis, bæði sem forvörn við meiðslum og svo til að ná enn frekari árangri í danstækni, hver sem hún er. Listdanskennsla er bæði erfið og skemmtileg og það er að mörgu að hyggja til að ná góðum árangri og Pilates þjálfunin er ein leið til hjálpar,“ segir Lára.

Þá hefur Lára áhuga á að efla samstarf Listdansskólans við tónlistarfólk og fá upprennandi tónlistarnema til að flytja lifandi tónlist á danssýningum Listdansskóla Íslands. „Ég tel afar mikilvægt að samvinna þessara tveggja listgreina, dans og tónlistar, verði eftirsóknarverður hluti í dans og sköpunarvinnu kennara og nemanda skólans,“ segir Lára.

Góður undirbúningur fyrir lífið

Lára telur listdansnám mjög gagnlegt að öllu leyti og vera góðan undirbúning fyrir lífið. „Dansinn kennir börnum meðal annars að bera virðingu fyrir sjálfum sér og listgreininni. Eftir listdansnám lærir fólk frekar að njóta þess að horfa á listdans, í hvaða formi sem er. Þjálfaðir læra að taka tilfinninguna inn frá þeim dansi sem þeir horfa á, frekar en að dæma um hvað eigi að sjá eða skilja. Fyrir utan það tel ég að gott listdansnám sé mjög góður grunnur að allri góðri danstækni,“ segir Lára.

Hún segir að fyrir utan ótvíræða gagnsemi námsins innan dansheimsins fylgi því aðrir kostir. „Þeir nemendur sem hafa stundað listdansnámið að einhverju ráði hafa líka náð að skipuleggja tíma sinn betur í hvaða starfi sem þeir taka sér fyrir hendur. Svo er það bara spurning hvort farið er í dansnám til almennrar ánægju eða hvort ætlunin er að leggja dansinn fyrir sig til að veita öðrum ánægju með því að sýna listina. Þegar uppi er staðið er markmiðið hjá okkur að nemendur þekki möguleika sína betur í hinum stóra dansheimi þar sem vegirnir eru margir og ólíkir,“ segir Lára.

Listdanskóli Íslands hvetur alla 9 ára krakka, stráka og stelpur, að koma í prufutíma  þegar skólinn hefst 25.ágúst, prufutímar standa út september.

Sagan mikilvæg

Lára segir að listdans sé vinsæll á Íslandi um þessar mundir og æ fleiri sem vilja dansa. „Viðhorf almennings gagnvart listdansnámi virðist jákvætt að öllu leyti. Saga listdans á Íslandi er ung miðað við önnur lönd og má segja að við séum stutt á veg komin í alþjóðlegu samhengi. En uppbyggingin hefur verið góð og við höfum verið að sækja í okkur veðrið á síðustu árum og allt útlit fyrir að listdansinn eigi eftir að blómstra enn frekar á komandi árum. Við skulum bera virðingu fyrir sögu íslensks listdans - við værum ekki stödd hér í dag ef ekki hefði allt þetta listafólk; dansarar, danshöfundar, kennarar, skólastjórar og aðrir frumkvöðlar unnið af alhug brautryjendastarf á Íslandi“ segir Lára.

„Mitt álit er að það þurfi aðeins að hægja á hjólinu, svona yfirleitt í öllu listnámi, minnka hraðann, kryfja grunninn enn frekar, líta um öxl og sjá hvað það er sem hefur haft gildi í okkar listgreinum, þ.e. þó við fæðumst öll með ákveðna hæfileika, þá þarf að rækta þá og leiða á brautir þar sem þeir dafna sem best. Það er einfaldlega ekkert “nýtt” undir sólinni. Á endanum eru það gæðin sem skipta máli, hvernig hlutirnir eru unnir, mótaðir og hvaðan þeir spretta. Árangurinn kemur ekki á einum degi. Það kostar mikla vinnu að verða góður dansari og gífurlega vinnu að vera afburða dansari,“ segir Lára.

„Dansinn kennir börnum meðal annars að bera virðingu fyrir sjálfum sér og listgreininni. Eftir listdansnám lærir fólk frekar að njóta þess að horfa á listdans, í hvaða formi sem er.

Listdansskóli Íslands
Engjateig 1
105 Reykjavík
588 9188
listdans@listdans.is
www.listdans.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga