Kvikmyndalandið Ísland - Viðtal við Böðvar Bjarka Pétursson,
-Viðtal við Böðvar Bjarka Pétursson, stjórnarformann Kvikmyndaskóla Íslands

Kvikmyndaskóli Íslands stendur í stórræðum um þessar mundir, en skólinn opnaði nýverið starfsemi í nýju 4000 fermetra húsi í Vatnsendalandi og hefur lagt inn umsókn til menntamálaráðuneytisins um heimild til að starfa á háskólasviði. Böðvar Bjarki Pétursson, stjórnarformaður Kvikmyndaskóla Íslands, segir að markmið skólans sé að verða 400 nemenda listaskóli á háskólastigi, með innlenda og erlenda deild af svipaðri stærð. Að mati Böðvars á skólaiðnaðurinn eins og við þekkjum hann í dag eftir að taka grundvallar breytingum og sé í raun þegar úreltur.

 
Böðvar segir það vera geysilega spennandi að starfa skólaiðnaði í dag, bæði á Íslandi og erlendis. „Þetta er ört stækkandi iðnaður í heiminum og það er mikil gerjun í gangi. Bæði hefur skólaiðnaðinum beint verið til að vinna gegn atvinnuleysi, til dæmis í Evrópu, og svo er starfsferill fólks orðinn svo margskiptur að fólk þarf að sækja sér æ meiri menntun. Þá munu sértækari og nákvæmari námsbrautir verða ofan á þar sem fólk getur gengið nákvæmlega inn í það sem það vill læra. Þess vegna höfum við til dæmis séð að fyrirtækjaskólar eru að skipa sér í röð fremstu skóla í heiminum, þeir mennta fólk af mikilli nákvæmni til ákveðinna starfa og útskrifa fólk sem gerir ekki mistök og þannig nám vill fólk fá,“segir Böðvar.

Úrelt skólakerfi

Í ljósi þessarar þróunar segir Böðvar að skólastarf eins og það tíðkast hér og víðar sé í raun úrelt, sérstaklega hvað kennsluaðferðir varðar. „Við þekkjum öll það fyrirkomulag að ef til vill eitt til tvö hundruð manns sitji inni í gríðarstórum sölum og helmingurinn er á netinu og hinn að leggja kapal. Það sér það hver maður að þetta er kennsluaðferð sem gengur ekki upp og er það því miður þetta kennsluform sem hefur verið að þróast hvað mest undanfarið. Þetta er vélrænt nám þar sem reynt er að koma sem flestum nemendum í gegn til þess svo aftur að ná sem mestum tekjum frá ríkinu. Þetta er gamaldags nám og er einfaldlega ekki rétta leiðin, en hún er þó stunduð víða,“ segir Böðvar.

„Það er mat sérfræðinga að við séum nú að stefna inn í lærdómsöld þar sem skólarnir verða í lykilhlutverki, en það verði alger umbylting í starfi þeirra. Við sjáum fram á að mjög stór hluti af æðra námi fer út á netið, háskólarnir munu færast út í það að vera mats- og viðurkenningarfyrirtæki á prófgráðum og svo tel ég að hið kerfislæga grunn- og framhaldsskólakerfi eigi eftir að brotna upp. Ég sé fyrir mér að aðstandendur sex ára barns muni geta valið úr fjölmörgum tilboðum, þar sem hægt er að velja um áherslur í námi. En ríkið mun vitaskuld hafa áfram hlutverk eftirlits og mats,“segir Böðvar.

Böðvar segir að kvikmyndaiðnaðurinn henti Íslendingum vel og hér séu mörg ónýtt tækifæri. Ljósmyndir Ingó.

Leitað að leiðtogum

Kvikmyndaskólinn er í 100% eigu skólaþróunarfyrirtækisins Telemakkus, sem er með fjórar nýjar menntastofnanir á ólíkum sviðum í þróun, en Böðvar segir Kvikmyndaskólann vera ísbrjótinn í því starfi. Böðvar segir að framtíðarsýn Kvikmyndaskólans sé mjög skýr, en hann á að verða 400 nemenda listaskóli sem starfar á háskólastigi, með innlenda og erlenda deild af svipaðri stærð. Nú eru 170 nemendur skráðir í skólann og er stefnt að því að erlenda deildin verði opnuð á næsta ári.

Kvikmyndaskólinn býður upp á diplómunám í kvikmyndagerð af fjórum námsbrautum: leikstjórnar og framleiðsludeild, tæknideild, handrita- og leikstjórnardeild og leiklistardeild. „Í leikstjórnar og framleiðsludeildinni leitum við að leiðtogum sem hafa listræna sýn og sjálfstraust til að koma verkum sínum í framkvæmd. Það er nokkuð óvenjulegt að blanda þessum tveimur sviðum saman, en við byggjum þetta á íslenskri reynslu. Þeir sem hafa náð hvað lengst hér á landi eru þeir sem hafa náð að blanda þessu tvennu saman.Handrita og leikstjórnardeildin er einnig mjög spennandi deild, en þar erum við að leggja mikla áhersla á handritagerð, en með þjálfun í leikstjórn samtímis. Það má í raun segja að tvær mismunandi leiðir séu í boði fyrir þá sem vilja leggja leikstjórn fyrir sig. Það er mín skoðun að handrita- og leikstjórnardeildin sé í raun verðmætasta deildin okkar, því þar eru höfundarnir og ef við finnum þá ekki verður enginn iðnaður. Tæknisviðið er ef til vill praktískasta sviðið. Þar menntum og þjálfum fólk í kvikmyndatöku, klippingu,hljóðvinnslu og leikimyndagerð. Þetta er það sem við köllum hönnunarlegu þætti kvikmynda. Þetta er mjög öflug deild og hefur komið nokkuð á óvart að stúlkur sækja mikið í hana. Leiklistardeild er svo bara klassísk leiklistardeild þar sem áherslan er á myndmiðla.

Böðvar segir það vera geysilega spennandi að starfa skólaiðnaði í dag og hann muni taka miklum breytingum á næstunni.

Hið nýja húsnæði er um 3500 fermetrar að stærð og þar verður öll aðstaða eins og best þekkist í kvikmyndaskólum í heiminum, meðal annar tveir bíósalir, stórt upptökustúdíó, tvö hljóðver, stórt bókasafn, stórir æfingasalir fyrir leiklistarnema og kennsluaðstaða fyrir allt að 200 nemendur í fjórum deildum skólans.

Stefnt er að því að koma upp Þjónustumiðstöð kvikmyndaiðnaðarins við hlið skólans með byggingu á þremur fullkomnum upptökumyndverum og stórri leikmyndageymslu. Mjög mikil vöntun hefur verið á stúdíóaðstöðu til að þjóna íslenskum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði.

List og viðskipti togast á

Það sem kannski einkennir allt námið í skólanum er að fólk á nokkurn veginn að geta orðið hvað sem er, út frá hvaða deild sem er. Það má segja að við séum í raun að búa til höfunda, jafnvel þó þeir fari í leiklist. Þetta er fyrst og fremst listaskóli og við höfum enga minnimáttarkennd gagnvart því. Kvikmyndagerð er á sama tíma mjög öflugur iðnaður, en þetta tvennt togast á. Það hefur alltaf verið skapandi togstreita í kvikmyndaiðnaðinum. Það kemur alltaf upp spurningin um hvort þetta sé list eða iðnaður. Hingað koma aðilar sem vilja gera næsta meistaraverkið í kvikmyndasögunni og aðrir sem vilja gera grínefni á netið og við tökum á móti báðum, því allt er þetta kvikmyndagerð,“ segir Böðvar.

 
Bylting í skólastarfinu

Mikil tímamót eru framundan í sögu kvikmyndaskólans að sögn Böðvars en skólinn hefur lagt inn umsókn til menntamálaráðuneytisins um að fá viðurkenningu til að starfa á háskólastigi. „Í beinu framhaldi af því verður alger umbylting í skólastarfinu strax eftir áramót. Hér verður til dæmis auglýst eftir nýju starfsfólki, við stefnum að því að opna þessa erlendu deild og búa hér til einn og hálfan milljarð í gjaldeyri næstu þrjú árin. Ástæðan fyrir því að við verðum að starfa á Háskólastigi er að markhópurinn sem við viljum keyra á eru stúdentar, en við viljum líka vera spennandi viðbótarnám í raun fyrir allar aðrar háskólagráður,“ segir Böðvar.

Þrjú þúsund ný störf

Á fimmtán ára starfsafmæli skólans var lagst í mikla rannsóknarvinnu þar sem iðnaðurinn var greindur og rannsakaður til hlýtar. „Ég setti fram rannsóknarspurninguna „Hvernig getum við búið til 3000 ný störf og í raun gert þetta að iðnaði sem skipti verulegu máli fyrir íslenskt samfélag.“ Niðurstaðan var sú að til þess að það sé hægt, skiptir mestu máli að rjúfa ákveðin stækkunarmörk sem iðnaðurinn hefur verið að glíma við. Ef það tekst að rjúfa þessi mörk eru möguleikarnir á heimsvísu gríðarlega miklir. Ég hef sagt að „Kvikmyndalandið Ísland“ geti vel orðið að veruleika ef menn eru tilbúnir til að stilla sig inn á þá bylgjulengd. Það þurfa að vera samhæfðar aðgerðir þeirra sem þiggja fjármagn frá ríkinu, það þarf að styðja við sjónvarpsframleiðsluna, það þarf að tryggja endurgreiðslukerfið til að fá inn erlenda framleiðslu og það hefur verið gert og í fyllingu tímans þarf að verða til stór fjárfestingasjóður. Í dag þegar fjárfestingartækifærum hefur í raun og veru fækkað eru fjárfestingatækifæri í kvikmyndaiðnaðinum allt í einu orðin spennandi vegna aðkomu ríkissins að honum,“ segir Böðvar.

Hann segir ríkið styðji tiltölulega vel við kvikmyndaiðnaðinn. „Stjórnvöld koma mjög víða að og setja meðal annars fjármagn í kvikmyndamiðstöð, kvikmyndafræðideild, Kvikmyndasafnið, kvikmyndahátíð, setja mikið fjármagn til RÚV, sem starfar á myndmiðlamarkaði og kaupa þjónustu af Kvikmyndaskóla Íslands. Þetta er auðvitað harðskeytt umhverfi, en kvikmyndagerðamenn eru auðvitað töffarar og hefur þeim tekist nokkuð vel að takast á við þetta umhverfi. Því er það bara nöldur að skjóta á stjórnvöld varðandi peningamál, það má miklu frekar gera athugasemdir um að þessir peningar séu nýttir betur,“ segir Böðvar.

 
Kreppuiðnaður

Böðvar telur kvikmyndaiðnaðinn henta Íslendingum sérstaklega vel og liggi þar margar ástæður að baki. „Ef horft er á heildarmyndina sjáum við að það er mjög sterk kvikmyndamenning á Íslandi, við sækjum kvikmyndahús meira en Evrópubúar og til jafns við Bandaríkjamenn. Íslenskur kvikmyndaiðnaður er afarstór miðað við höfðatölu og við framleiðum mjög mikið af kvikmyndum og getur þessi iðnaður stækkað enn ef við höldum rétt á spilunum. Ástæðan fyrir að ég tel að þessi iðnaður henti Íslendingum vel er að þetta er blanda af viðskiptum og list. Þetta er sköpunariðnaður og þar erum við sterk, með okkar öfluga bókmenntabakgrunn. Við erum mjög tæknilega sinnuð þjóð og eru miklar framfarir í myndmiðlum hvað það varðar, sérstaklega í tengslum við internetið og við getum komið þar gríðarsterk inn,“ segir Böðvar.

Hann segir að bágt efnahagsástand sé ekki til þess fallið að aftra þessari þróun. „Kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðurinn er kreppuiðnaður, þetta er skemmtun sem fólk leyfir sér þegar það er kreppa og er mjög algengt að þessi iðnaður þrífist vel í kreppu, því þetta er frekar ódýr skemmtun. Það sem við gerum er beinlínis að dæla út menntuðu fólki og reynum að búa til þenslu með því. Kreppan hefur í raun gert það að verkum að þetta nám er orðið jafn praktískt og hvað annað,“ segir Böðvar.

Það sem kannski einkennir allt námið í skólanum er að fólk á nokkurn veginn að geta orðið hvað sem er, út frá hvaða deild sem er. Það má segja að við séum í raun að búa til höfunda, jafnvel þó þeir fari í leiklist. Þetta er fyrst og fremst listaskóli og við höfum enga minnimáttarkennd gagnvart því.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga