Aldrei mikilvægara að hækka menntastigið
Kvasir, samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva.

Kvasir, sem eru samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, hafa verið starfandi síðan árið 2000 og eru nú tíu fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um land allt sem eiga aðild að samtökunum.

Inga Dóra Halldórsdóttir formaður stjórnar Kvasis

Inga Dóra Halldórsdóttir, formaður stjórnar Kvasis, segir að öflug símenntun sé hagur allra, þjóðfélagsins, einstaklinganna og fyrirtækjanna og gegni nú mikilvgæra hlutverki en nokkru sinni fyrr.

Upphaflega var Kvasir samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni, en á síðasta aðalfundi var samþykktum breytt og nú á Mímir í Reykjavík aðild að samtökunum. Flest allar miðstöðvarnar eru stofnaðar á árunum 1998-2000 og eru byggðar á grunni gömlu farskólanna. Yngsta miðstöðin var stofnuð árið 2004 og er hún í Vestmannaeyjum.

Inga Dóra segir að þeir sem stóðu að stofnun Kvasis á sínum tíma hafi lagt mikið upp úr sterku tengslaneti miðstöðvanna og að saman stæðu þær sterkari. „Það er ekki síður markmiðið að auka skilning almennings og stjórnvalda á hlutverki fræðslu- og símenntunarmiðstöðva í menntakerfi þjóðarinnar. Það hefur sýnt sig og sannað að þetta er kjarni málsins og við vinnum markvisst að því að efla okkur enn frekar, skapa umræðu um fullorðinsfræðslu og vekja athygli á okkur,“ segir Inga Dóra.

Mikil aðsókn
Hún segir símenntun hafa mjög mikla þýðingu fyrir þjóðfélagið og ekki hvað síst nú á tímum. „Sókn í námskeið hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum hefur aldrei verið meiri en nú, en svo við áttum okkur á umfanginu þá voru nemendur hjá okkur rúmlega 15 þúsund árið 2008 og við buðum upp á rúmlega 1.200 námskeið af ýmsu tagi. Auk þessa starfa náms- og starfsráðgjafar á flestum fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, en þeir tóku tæplega 2.800 viðtöl á árinu 2008. Það er best að láta tölurnar tala sínu máli.

Um 38% fólks á vinnumarkaði hefur stutta formlega skólagöngu og hefur alið með sér þann draum að halda áfram í námi en treysta sér hreinlega ekki. Þar komum við að, en við bjóðum upp á fjölbreytt námstækifæri fyrir þessa einstaklinga þar sem sjálfstyrking er rauði þráðurinn og þeir hafa einnig aðgang að náms- og starfsráðgjafa. Við þjónustum þannig hvern einstakling betur og tökum mið af hans þörfum, t.d. ef um les- og skrifblindu er að ræða. Þegar einstaklingur fær aukið sjálfstraust í námi, skilar það sér meðal annars í jákvæðara hugarfari, auknu frumkvæði einstaklingsins og ekki síst aukinni vellíðan og öryggi sem skilar sér bæði í einkalífi og í starfskraftinum,“ segir Inga Dóra.

Af nógu að taka
Hún segir viðfangsefnin vera mörg og af nógu að taka. „Við hittumst að minnsta kosti tvisvar á ári, bæði á haustin og á vorin. Innan Kvasis starfar stjórn sem eru skipuð þremur aðilum frá jafnmörgum miðstöðvum og situr hver fulltrúi tvö ár í senn. Stjórnin kemur fram fyrir hönd samtakanna út á við og vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna.

Það er mjög mikilvægt að hittast reglulega og miðla upplýsingum og ekki síður að vinna að ákveðinni stefnumörkun fyrir heildina. Það hefur meðal annars færst í aukana að ýmsir aðilar leiti eftir samstarfi við okkur í nafni Kvasis og sem dæmi má nefna að Kvasir gerði samning síðastliðið haust við Endurmenntun Háskóla Íslands sem felst meðal annars í að auðvelda fólki á landsbyggðinni aðgengi að námskeiðum EHÍ með notkun fjarfundabúnaðar,“ segir Inga Dóra.

Staða símenntunar sterk
Inga Dóra segir stöðu símenntunar vera sterka á Íslandi í dag „Við á fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum finnum fyrir miklum meðbyr, en íbúarnir kunna að meta þá þjónustu sem við bjóðum upp á og við erum orðin hluti af menntakerfinu. Verkalýðshreyfingin hefur verið mjög ötul við að leggja áherslu á þennan málaflokk, auk þess sem stjórnvöld hafa lagt málaflokknum lið.

Við sinnum breiðum hópi fólks, en auk símenntunar þjónustum við líka háskólana og fjarnema. Nemendur geta sótt fjarfundi víða um land, tekið próf og lært saman í hópum. Það er brýnt að íbúar geti sótt þjónustuna heima í héraði og ýtir ekki síður undir jafnræði,“ segir Inga Dóra.

Öflugt samstarf
Kvasir hefur verið í góðu samstarfi við Vinnumálstofnun, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og aðila á hverju svæði sem málið snertir. „Styrkur fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna felst m.a. í miklum sveigjanleika, þannig að við getum brugðist við breyttu ástandi með stuttum fyrirvara. Það verður boðið upp á námstækifæri, nú í haust, fyrir atvinnuleitendur um allt land og við munum eftir fremsta megni þjónusta atvinnuleitendur eins og við getum með námsframboði og náms- og starfsráðgjöf,“ segir Inga Dóra.

Samkeppnin hörð
Inga Dóra segir að aðstæður í efnahagslífinu hafi verið þannig undanfarin ár að það hafi vantað vinnuafl, en nú hafi orðið viðsnúningur og samkeppnin á vinnumarkaðnum sé orðin mjög hörð. „Aukið atvinnuleysi bitnar hvað mest á þeim sem hafa stutta formlega skólagöngu og það er meðal annars okkar markhópur.

Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og núna að hið formlega og óformlega skólakerfi vinni saman til að hækka menntunarstigið í landinu og auka samkeppnishæfni okkar enn frekar sem þjóðar. Þess vegna er brýnt að allir fái tækifæri til að sækja sér menntun á sínum forsendum,“ segir Inga DóraKvasir
 www.fraedslumidstodvar.is 
kvasir@fraedslumidstodvar.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga