Greinasafni: Menntun
Mímir símenntun
Fjölbreytt námstilboð fyrir fólk með stutta skólagöngu

Mímir-símenntun er fræðslufyrirtæki sem leggur megin áherslu á að vera með fjölbreytt námstilboð fyrir fólk með stutta skólagöngu. Hulda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, segir markmið Mímis að vera virkur þátttakandi í því að efla menntun starfandi fólks í landinu og þannig stuðla að hækkun menntunarstigs þjóðarinnar, aukinni fagmennsku í atvinnulífinu og styrkja einstaklinga í leik og starfi.

 
Hulda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis.

Hulda segir Mími bjóða upp á margar námsleiðir sem henti fólki á vinnumarkaði, bæði atvinnuleitendum sem og einstaklingum í vinnu. „Rúmlega 30 námskrár hafa verið gefnar út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og eru þær allar viðurkenndar af menntamálaráðuneytinu og gefa einingar til styttingar á framhaldsskólanámi. Nám sem gefur aukin starfsréttindi er einnig að finna hjá Mími og þannig er til dæmis hægt að fara í leikskólaliðanám og félagsliðanám. Jarðlagnatækni er námsleið sem gefur verktökum aukna möguleika á að taka að sér verk fyrir veiturnar og bætir stöðu þeirra á vinnumarkaði. Í öllu námi hjá Mími er lögð mikil áhersla á sjálfsstyrkingu og að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur. Allir geta lært en það hentar ekki að nota sömu aðferðafræði til náms fyrir alla. Mikil áhersla er því lögð á kennslufræði sem hentar fullorðnu fólki,“ segir Hulda.

Hún segir náin tengsl við atvinnulífið vera eina af sterku hliðum Mímis-símenntunar. Fjöldi námsleiða og námskeiða er haldinn í nánu samstarfi við stéttarfélög, félög atvinnurekenda, stofnanir og fyrirtæki. Náms- og starfsráðgjafar fara í samráði við atvinnulífið á vinnustaði, kynna ráðgjöfina og bjóða einstaklingum upp á einstaklingsráðgjöf þeim að kostnaðarlausu.

Skapandi námskeið fyllast fljótt

Hulda segir að allir á aldrinum 5 – 90 ára geti fundið eitthvað við sitt hæfi hjá Mími-símenntun. Innflytjendum stendur til boða íslenskunámskeið og starfstengd námskeið. Eldri borgurum býðst margskonar frístunda- og tungumálanámskeið auk tölvunámskeiða og fyrir börnin er tilboð um námskeið í tungumálum ásamt menningu og listum.

Hulda segir að vinsælustu námsleiðirnar hafi einkum verið Grunnmenntaskólinn og nám fyrir lesblinda sem kallast Aftur í nám. Grunnmenntaskólinn styrkir undirstöðuatriði í íslensku, stærðfræði og ensku og eflir fólk til frekara náms. Mímir er svo að fara af stað með fjölda annarra námsleiða á næstu vikum, til dæmis félagsliðanám, leikskólaliðanám, fagnámskeið fyrir fólk sem starfar við umönnun eða á leikskólum.

Fjölþætt frístundanámskeið og tungumálanámskeið eru á hverri önn. „Helsta breytingin á því sviði er sú að öll námskeið sem snúa að sköpun hvort heldur er myndlist, hannyrðir eða skapandi skrif fyllast hratt og oft ekki hægt að anna eftirspurn,“ segir Hulda.

Náin tengsl við atvinnulífið

Á Íslandi eru yfir 30% einstaklinga á vinnumarkaði sem hafa ekki lokið formlegu námi eftir grunnskóla. Hulda segir þetta vera mun hærra hlutfall en hjá þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við og mikilvægt að bjóða þessum mikla fjölda fólks upp á náms- og starfsráðgjöf og menntunarúrræði við hæfi. „Atvinnuástandið hefur margþætt áhrif á eftirspurn eftir endur- og símenntun. Einstaklingar sem hafa minnstu formlegu menntunina eru oft þeir sem fyrstir missa vinnuna og eru jafnframt síðastir til að fá vinnu aftur. Margir þessara einstaklinga nýta nú tækifærið og bæta við sig námi til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði,“ segir Hulda.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga