Greinasafni: Menntun
Stærðfræðinámið auðveldað. Rasmus.is
  -Kennsluvefurinn Rasmus.is býður nemendum og kennurum upp á nýja leið í stærðfræðinámi.  

Kennsluvefurinn Rasmus.is hefur stöðugt verið að sækja í sig veðrið allt frá sköpun hans árið 1999 og telur nú viðskiptavinahópur vefsins yfir 1300 skóla, bæði hérlendis og erlendis. Vefurinn býður grunn- og framhaldsskólanemendum upp á skýra og aðgengilega leið til að auðvelda sér stærðfræðinámið. Hugo Rasmus, kennari við Menntaskólann í Kópavogi og annar stofnenda vefsins, segir að notagildi vefsins sé margvíslegt, kennarar geti notað hann sem kennslugagn, nemendur geti notað hann við upprifjun eða til þekkingaröflunar og þá nýtist hann sem tungumálavefur, enda sé hann aðgengilegur á átta tungumálum.

Að vefnum stendur Hugo, ásamt bróður sínum Tómasi Rasmus, kennara við Salaskóla í Kópavogi. Þeir semja einnig allt efni vefsins ásamt Jóhanni Ísak Péturssyni, námsefnishöfundi og kennara við Menntaskólann í Kópavogi. Höfundar efnisins eru því allir með áratugalanga reynslu af kennslu.
Hugo segir að höfuðáhersla hafi verið lögð á að hafa efni vefsins auðskiljanlegt. „Texti í kennslubókum í stærðfræði reynist mörgum nemendum erfiður lestrar, við reynum því að skrifa auðveldari texta með myndrænum skýringum. Markmið vefsins er að hjálpa nemendum að læra stærðfræði og býður hann upp á nýja leið til þess,“ segir Hugo.

Frá margföldun til afleiðureikninga
Vefnum er skipt eftir námsstigi og svo eftir einstökum viðfangsefnum stærðfræðinnar á hverju námsstigi, allt frá byrjun grunnskóla og upp í menntaskóla. Efnisþáttum er svo fylgt eftir með gagnvirku prófi þar sem notendur geta sannreynt skilning sinn á því efni sem síðast var lesið. Hugo segir að í byrjun hafi efni vefsins miðast við grunnskólastigið, en með innkomu Jóhanns í verkefnið hafi framhaldsskólaefni verið bætt við og nær nú kennsluefnið á Rasmus.is yfir stærstan hluta þeirrar stærðfræði sem kennd er í framhaldsskólum. Þá er vefurinn tengdur við nokkrar af þeim kennslubókum sem almennt eru notaðar í stærðfræðikennslu í dag, en þannig getur notandi út frá blaðsíðunúmeri kennslubókar sinnar fundið ítarefni á Rasmus.is.

Hugo segir að vefurinn hafi þannig mikið notagildi fyrir nemendur sem geta ef til vill ekki fylgt þeim hraða sem kennslan fer fram á og geti því farið aftur yfir það efni sem nemendur hafa misst af. Þá geti nemendur sem þyki kennsluhraði of hægur haldið áfram þekkingarleit sinni upp á eigin spýtur. „Margir háskólanemar nýta sér Rasmus til að rifja upp menntaskólaefnið sem þeir þurfa á að halda í sínu námi,“ segir Hugo. Þá segir Hugo að hann hafi fundið mikið þakklæti frá foreldrum sem hafa nýtt sér vefinn til upprifjunar þegar þeir veita börnum sínum aðstoð í heimalærdómi sínum.

Óbreytt verð frá upphafi
Efni vefsins er öllum aðgengilegt, en með því að kaupa aðgang er skólum leyfilegt að nýta sér efnið á hvern þann hátt sem hver skóli kýs, þannig hafi einhverjir skólar til dæmis gert efni vefsins að skyldulesningu í námskeiðum sínum. „Við ákváðum að hafa allt efnið opið og þannig höfum við getað haldið áskriftarverðinu í lágmarki, en verðið hefur verið óbreytt frá því vefurinn var opnaður árið 1999, þrátt fyrir að við höfum bætt við umtalsverðu efni. Þetta hefur gefið góða raun og á meðan skólarnir greiða þetta árgjald fyrir sig og sína verður verðið áfram lágt,“ segir Hugo.

Hugo segir að þar sem aðeins takmarkaður fjöldi mögulegra viðskiptavina sé á Íslandi hafi fljótlega verið farið út í að þýða efni vefsins á erlend tungumál. Nú er svo komið að vefurinn er aðgengilegur á átta tungumálum: dönsku, norsku, sænsku, ensku, pólsku, rússnesku og spænsku.Flestir erlendir kúnnar Rasmus koma frá nágrannaþjóðum okkar, enda kennsluskrár þjóðanna nokkuð svipaðar. Hugo segist hafa fengið mjög góð viðbrögð erlendis frá og hafi vefurinn fengið góða umfjöllun í erlendum fjölmiðlum og námsstofnunum.

Hugo segir þýðendur hjá Rasmus.is flesta vera Íslendinga með annað móðurmál en íslensku.
„Margir þeirra sem koma til Íslands hafa mikla menntun að baki og geyma mikinn mannauð. Þess vegna höfum við leitað hér heima að öflugu fólki til að vinna með okkur. Þeir þýðendur sem hafa unnið með okkur að öðrum málum svo sem norðurlandamálunum eru allir starfandi kennarar hver á sínu málsvæði og hafa þýtt efnið frá okkur úr ensku og síðan staðfært það að kröfum síns heimalands,“ segir Hugo.

Hann segir þó að gagnsemi þýðinganna sé ekki einskorðað við sölu á erlendri grundu. Hlutur námsmanna af erlendum uppruna fer sífellt stækkandi í íslenskum skólum og segist Hugo því hafa fengið virkilega góð viðbrögð við þýðingu efnisins frá fólki af erlendum uppruna búsettu á Íslandi. „Nemendur geta haft opna glugga með efninu á bæði móðurmáli sínu og íslensku samtímis og lært tungumálið um leið, þannig er vefurinn orðinn tungumálavefur líka,“ segir Hugo.

Metnaðarfullt starf framundan
Aðstandendur Rasmus.is sitja fjarri því auðum höndum því að á næsta skólaári stendur til að opna tvo nýja vefi, annars vegar stjörnufræðivef og hins vegar jarðfræðivef. Efni vefjanna tveggja verður miðað við framhaldsskólastigið, en þó munu bæði skólastigin geta nýtt sér efnið. Jóhann sér um að smíða efni vefjanna tveggja og játar hann því fúslega að um metnaðarfullt verkefni sé að ræða, enda verði þar heilum vísindagreinum gerð skil. Þá verður einnig opnaður veður- og haffræðivefur þar sem veðurfarsbreytingar, gróðurhúsaáhrif og hafstraumar verða til umfjöllunar.

Rasmus ehf
Blöndubakka 12
109 Reykjavik
Ísland
Tel: 00354 8993698
Tel: 00354 8975379
algebrais@rasmus.is
www.rasmus.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga