Greinasafni: Menntun
Menntakerfið auki verðmætasköpun - Samtök iðnaðarins vilja öflugri iðn- og tæknimenntun,
Fjölgun iðn- og tæknimenntaðs fólks aldrei mikilvægari en nú.

Samtök iðnaðarins vilja öflugri iðn- og tæknimenntun, en Ingi Bogi Bogason hjá Samtökum iðnaðarins segir að eftirspurn sé eftir fólki með þessa menntun. „Iðn- og raungreinamenntun er best til þess fallin að standa undir aukinni verðmætasköpun sem þjóðin þarf svo á að halda,“ segir Ingi.

Samtök iðnaðarins hafa árum saman lagt áherslu á mikilvægi verk- og tæknifræðimenntunar á háskólastigi og iðn- og starfsmenntunar á framhaldsskólastigi. Þau telja að iðnmenntun og raungreinamenntun í háskóla, sérstaklega verk- og tæknifræði, veiti tækifæri til góðra og vel launaðra starfa í framtíðinni. Nýsköpun, sem reist sé á þessari menntun, muni tryggja trausta endurreisn hér á landi.

Samtök iðnaðarins eru meðal eigenda Háskólans í Reykjavík, Tækniskólans (sem áður var Iðnskólinn og Fjöltækniskólinn) og IÐUNNAR fræðsluseturs, sem annast endurmenntunarstarfsemi iðnaðarins.

Af hverju stöndum við ekki framar?
Ingi Bogi Bogason, forstöðumaður menntunar og mannauðs hjá SI, var spurður hvaða áhrif ástandið í atvinnulífinu hefði á stefnu SI í menntamálum. Hann segir að Samtökin hafi lengi barist fyrir fjölgun iðn- og tæknimenntaðs fólks og það hafi aldrei verið mikilvægara en nú. Þessi menntun standi undir mestri verðmætasköpun í atvinnulífinu og iðnfyrirtæki sækist eftir fólki með iðn- og tæknimenntun.

„Þessi fjölgun gerist hins vegar ekki af sjálfu sér,“ segir Ingi Bogi. „Stjórnvöld þurfa að einsetja sér að ýta undir og auðvelda menntakerfinu að vera einn af lykilþáttum í endurreisn landsins, m.a. með fjölgun tæknimenntaðra.

Íslendingar stæra sig af því að verja einna mestu fjármagni til menntakerfisins en spyrja má um nýtingu fjárins. Af hverju stöndum við okkur ekki betur í alþjóðlegum sambanburði, t.d. í PISA könnunum? Af hverju eigum við ekki eins marga vel menntaða og hæfa raungreinakennara og nágrannaþjóðir okkar? ,“ segir Ingi Bogi.

Menntun sem skapar vinnu
Íslenskt menntakerfi er öflugt, telur Ingi Bogi, en unnt er að nýta það betur og markvissar án þess að kosta miklu til. Iðnmenntun er í boði við framhaldsskóla í öllum landshornum. Fjölbreytni í verkfræði og skyldum greinum hefur aukist undanfarin ár, m.a. með tilkomu öflugrar tækni- og verkfræðideildar við HR.

„Einungis 75% íslenskra ungmenna á aldrinum 18-24 ára ljúka viðurkenndu námi í framhaldsskóla. Á Norðurlöndunum er sú tala 85-95%. Þetta þýðir að íslensk fyrirtæki skortir aðgang að jafn samkeppnishæfu starfsfólki og í nágrannalöndunum.

Nýleg könnun evrópskrar rannsóknarstofnunar í menntamálum, OECD, spáir um 15% aukinni þörf fyrir tæknimenntað háskólafólk á næstu árum. Þessi veruleiki þarf að ráða áherslum í stefnumörkun stjórnvalda.

„Samtökin verja árlega miklu fjármagni í námsefnisgerð, vinnustaðakennslu og þróunarstarf í háskólum til að flýta fyrir breytingum til batnaðar.

Margt ungt fólk er til vitnis um að iðn- og tæknimenntun skilar sér í góðum störfum síðar meir. Bæði iðnmenntun og verkfræðimenntun felur í sér möguleika til margbreytilegra skapandi starfa. Aðsókn í þessa menntun er góð en þyrfti að vera meiri. Það þarf nefnilega miklu fleira fólk með menntun á þessum sviðum til að byggja upp atvinnulíf morgundagsins.“

Auka þarf framleiðni
„Þegar öllu er á botninn hvolft,“ segir Ingi Bogi, „snýst málið um að auka framleiðni í menntakerfinu, alveg eins og í atvinnulífinu. Við eyðum of mörgum vinnustundum og fjármagni í að framleiða of lítið – líka í menntakerfinu.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga