Greinasafni: Menntun
Námskeið sem næra huga og sál
(á krepputímum)
 
Góð aðsókn hefur verið að námskeiðum Visku í Vestmannaeyjum.

VISKA er Fræðslu- og símenntunarmiðstöð í Vestmannaeyjum og er meðal markmiða hennar að efla menntun í Vestmannaeyjum með því að standa fyrir fræðslustarfsemi sem ekki heyrir undir námsskrárbundið nám á grunn- og framhaldsskólastigi. Valgerður Guðjónsdóttir, forstöðumaður, Visku segir að framboðið á námi verði nú með ögn breyttu sniði en hingað til hafi verið, en þessa dagana er verið að leggja drög að vetrardagskránni og huga að útgáfu Námsvísis sem og útgáfu kynningarbæklings fyrir annars vegar háskólanám og hins vegar um náms- og starfsráðgjöf.

Valgerður segir að VISKA reyni að koma til móts við þarfir allra Vestmannaeyinga eins og hægt sé. ”Fyrir þá sem litla eða enga menntun hafa leitumst við við að bjóða upp á námskeið sem nýtast þeim til frekara náms sem og áhugasviðsnámskeið. Fyrir þá sem þegar hafa menntað sig bjóðum við upp á alls konar viðbótarnám sem og tómstundanámskeið. Eldri borgarar hafa fengið sérstök tölvunámskeið sem og starfslokanámskeið sem við höfum reyndar kallað ”nám fyrir fólk á tímamótum.” Námskeiðsflokkarnir eru hefðbundnir en þar má nefna: andmennt, heilbrigðismál, matargerð, samskipti og sjálfstyrkingu, sjórnun og rekstur, menningu og útivist, tungumál og að lokum réttindanám og vottaðar námsleiðir.

Nærandi námskeið í vetur
Vestmannaeyingar hafa ekki farið varhluta af kreppunni, en Valgerður segir það þó fjarri lagi að eyjaskeggjar leggist í eymd og volæði. “Efnahagsþrengingar hafa miklu frekar haft það í för með sér að frekar er sóst eftir námskeiðum sem ganga út á að næra sál og huga og kenna fólki að fara sparlega með það sem það á. Ég tel að Vestmannaeyingar hafi tekist á við alls konar áföll í lífinu eins og eldgos og aflabrest svo eitthvað sé nefnt og þeir kunna á vissan hátt að bregðast við áföllum og því leitast þeir við að spjara sig með því að vera glaðir og bjartsýnir og leggjast ekki í barlóm og athafnaleysi. Því var nokkuð góð aðsókn að fyrrgreindum námskeiðum fyrr á þessu ári og við munum reyna að bregðast við þessu með því að bjóða upp á góð og nærandi námskeið í vetur.

Hvað varðar tómstundanámskeiðin þá munum við reyna að bjóða upp á alls konar handverk og vonumst til að þau verði vel sótt. Einnig er ætlunin að bjóða upp á námskeið fyrir ferðaþjónustufólk þar sem hér mun mikið breytast á næstu árum með tilkomu bættra samgangna þegar Landeyjahöfn er komin í gagnið. Við stefnum og á að bjóða upp á nám fyrir skrifstofufólk og fyrir fólk sem hefur hug á að koma sér af stað í nám aftur eftir nokkurt hlé. Hér hefst og nám í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri í haust og fögnum við því. Einnig er ætlunin að fara í frekara samstarf við HA og þá við sjávarannsóknabrautina þeirra,” segir Valgerður.

Eina símenntunarstöðin í Vestmannaeyjum
„Viska er í raun eina símenntunarmiðstöðin í Vestmannaeyjum, að sögn Valgerðar, „eða öllu heldur eina stofnunin sem hefur það eitt að markmiði að bjóða upp á fræðslu fyrir fullorðna bæði á háskólastigi (um fjarfundabúnað og annars konar fjarnám) en ekki síður sem sí- og endurmenntunarúrræði fyrir íbúa eyjarinnar. Viska starfar í góðu samstarfi við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum sem og Nýsköpunarmiðstöð að þessu verkefni og með fyrirtækjum og stofnunum hér á staðnum. Hér er boðið upp á tómstundanámskeið, nám samhliða vinnu og starfstengd námskeið ásamt vottuðum námsleiðum í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Einnig er unnið hér að raunfærnimati í vélstjórnargreinum með Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum.

Við hjá Visku teljum að aðstaða okkar sé ögn öðruvísi en hinna stöðvanna þar sem við erum jú nokkuð mikið einangruð hér suður undan landinu. Þó eru líkur á að það muni breytast nokkuð með tilkomu Landeyjarhafnar á næsta ári. En hver og ein símenntunarmiðstöð ber merki síns svæðis og þeirrar menningar sem er í héraði og við höfum reynt að bjóða upp á menningartengd námskeið sem byggja á sögu og menningu eyjanna,“ segir Valgerður.

Námstækifæri færð heim
Valgerður segir að Viska hafi gríðarlaga þýðingu fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum þar sem markmið Visku sé að færa námstækifærin til Vestmannaeyja í stað þess að íbúar þurfi að fara af eynni til að sækja sér frekari menntun. “Viska hefur fest sig í sessi í samfélaginu og vonumst við til þess að bæjarbúar haldi áfram að vera iðnir við að sækja námskeið hjá okkur. Við höfum óskað eftir því að fólk komi líka til okkar með hugmyndir og óskir og reynum að verða við því eins og mögulegt er.“ segir Valgerður að lokum.

Hvað varðar tómstunda-námskeiðin þá munum við reyna að bjóða upp á alls konar handverk og vonumst til að þau verði vel sótt.

Valgerður Guðjónsdóttir  Forstöðumaður
Sími: 481-1950 Netfang:  viska@eyjar.is
Sólrún Bergþórsdóttir Ráðgjafi
Simi: 481-1950 Netfang: solrun@viskave.is
Viðverutími: mán,fimmtud 12:30 -18 föstud. 08-17
Margrét Hjálmarsdóttir Þjónustufulltrúi
Sími: 481-1111 Netfang: maggah@eyjar.is
Ester Garðarsdóttir Þjónustufulltrúi Netfang: ester@setur.is
www.viskave.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga