Greinasafni: Menntun einnig undir: Orka
Orkunám á alþjóðavísu - -Viðtal við Eddu Lilju Sveinsdóttur
 

Edda Lilja segi að ekki sé nóg að eiga auðlindir, heldur verði líka að hyggja að skynsamlegri nýtingu þeirra. Ljósm. Ingó.

-Viðtal við Eddu Lilju Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Orkuskólans REYST hf.

Orkuskólinn REYST hf. er nýr af nálinni, en hann var stofnaður í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur, Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands í ársbyrjun 2008 og mun útskrifa sinn fyrsta nemendahóp í byrjun árs 2010. Edda Lilja Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri REYST, segir að Orkuskólinn REYST sé vel í stakk búinn til að byggja upp framhaldsnám á háskólastigi sem sé samkeppnisfært á alþjóðavísu, enda sé hér á landi áratuga reynsla af nýtingu jarðhita og vatnsorku og margir af færustu sérfræðingum á þeim sviðum kenni einmitt við REYST.

 
Undirbúningur að stofnun skólans stóð yfir í hátt á þriðja ár, en grunnurinn var lagður í apríl 2007 þegar Orkuveita Reykjavikur, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands undirrituðu samkomulag um stofnun alþjóðlegs skóla um sjálfbæra orku. Þessir aðilar stofnuðu hlutafélag, Orkuskólann REYST hf., 25. febrúar 2008 og fyrsti nemendahópurinn hóf nám hjá okkur í ágúst 2008.

Stóraukin þörf fyrir sjálfbæra orku

Edda Lilja segir að hvatinn að samstarfi þessara þriggja aðila um REYST hafi verið þörfin fyrir stóraukna notkun sjálfbærrar orku og þörfin fyrir sérfræðiþekkingu á því sviði. „Því er spáð að orkuþörf heimsbyggðarinnar muni aukast um 50% til ársins 2030 og að hún muni aukast allstaðar í heiminum; ekki síst í þróunarlöndunum. Aðeins hluti orkuframleiðslunnar kemur frá sjálfbærum orkugjöfum og krafan er sú að auka þann hluta. Íslenskt samfélag fær stóran hluta þeirrar orku sem það notar úr sjálfbærum orkulindum. Það byggir á langri hefð við notkun sjálfbærrar orku og býr yfir mikilli vísinda- og tækniþekkingu við að nýta jarðhita og vatnsorku. Hér á landi hefur það sannast að sjálfbær nýting orkulinda er undirstaða hagvaxtar og velferðar og verður það til framtíðar,“ segir Edda Lilja.

Við vorum komin með ákveðið forskot alþjóðlega í vísindum og tækni tengdum nýtingu jarðhita og megum ekki tapa því með því að láta þessa þekkingu glatast

Loftslagshlýnunin er vandamál sem steðjar að öllum löndum heims og segir Edda Lilja flesta vera sammála um að það sé ekki lengur spurning um hvort hægt sé að snúa þróuninni við, heldur hve langan tíma við höfum til stefnu. „Talið er að mestu máli skipti í þeirri baráttu að breyta orkukerfunum í sjálfbæra orku. Reynsla og þekking okkar Íslendinga síðustu áratugina við nýtingu jarðhita og vatnsorku er dýrmæt. Það er skylda okkar að koma þessari þekkingu áfram til næstu kynslóða og til heimsins alls. Skólinn er kjörið tæki til þess að Íslendingar láti til sín taka í því brýna verkefni. Þannig getum við miðlað reynslu okkar og komið tækniþekkingunni til annarra landa,“ segir Edda Lilja.

Undirstaða hagvaxtar og velferðar

Þá segir Edda Lilja að REYST geti opnað nýjar víddir í aðstoð við þróunarlönd „Á síðasta ári fagnaði Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna 30 ára starfsafmæli sínu hér á landi, sem hefur verið mikilvægt framlag okkar til að koma þekkingunni til þróunarlanda. Tækifæri er fyrir stjórnvöld að nýta hinn nýja skóla, REYST til frekara framlags Íslands til aðstoðar við þróunarlönd auk þess sem skólinn er opinn nemendum frá öllum löndum heims því vandamálið er allstaðar,“ segir Edda Lilja.

REYST leggur áherslu á umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu orkulinda á alþjóðavísu. „Það er almennt viðurkennd staðreynd að sjálfbær nýting orkulinda sé undirstaða hagvaxtar og velferðar til framtíðar. En það er ekki nóg að eiga auðlindir, heldur verður líka að hyggja að skynsamlegri nýtingu þeirra. Framtíðin er sjálfbær nýting endurnýjanlegrar orku og hér höfum við þekkinguna,“ segir Edda Lilja.

Dýrmæt þekking

Edda Lilja segir að sú reynsla og þekking sem Íslendingar hafa aflað sér síðustu áratugina við nýtingu jarðhita og vatnsorku sé afar dýrmæt. „Þessi reynsla hefur byggst upp hjá sérfræðingum Orkustofnunar, ÍSOR og á verkfræðistofum tengdum í útrás til fjölda ára og síðast en ekki síst er mikil þekking innan háskólanna. Það er skylda okkar að koma þessari þekkingu áfram til næstu kynslóða og til heimsins alls. Skólinn er kjörið tæki til þess að Íslendingar láti til sín taka í því brýna verkefni og þannig getum við miðlað reynslu okkar og komið tækniþekkingunni til annarra landa.

Við vorum komin með ákveðið forskot alþjóðlega í vísindum og tækni tengdum nýtingu jarðhita og megum ekki tapa því með því að láta þessa þekkingu glatast. Þá er mikilvægt að tryggja endurnýjun í greininni því meðalaldur starfsmanna orkufyrirtækja hér á landi er yfir 50 ár, meðal annars vegna þess að fólk hefur undanfarin ár sniðgengið tæknigreinar í háskólunum. Staðan var því orðin sú að okkur vantar fólk í margar tæknigreinar. Sú staða er einnig staðreynd víða um heim. Þess vegna var ákveðið að stofna Orkuskólann REYST og nýta þessa þekkingu og byggja hana upp með nýju fólki og sameina krafta háskólanna tveggja og OR.

Nú sem aldrei fyrr er þörf á því að sameina kraftana. Með því að samnýta námskeið og sérfræðinga háskólanna og Orkuveitunnar teljum við að unnt sé að byggja upp öfluga einingu á sviði orkuvísinda. Uppbyggingin fer fram hér á landi og við treystum stoðir menntunar og rannsókna á Íslandi með mikilvægri alþjóðlegri tengingu,“ segir Edda Lilja.Fjölþjóðleg flóra nemenda

Meistaranám við Orkuskólann REYST hófst í byrjun ágúst 2008. Það er 120 ECTS einingar og tekur 18 mánuði sem skiptist í þrjár annir. Fyrstu tvær annirnar eru nemendur í námskeiðum og vinna síðan eingöngu að lokaverkefnum sínum þá síðustu. Tólf námskeið hafa verið sérhönnuð fyrir REYST, en nemendur velja síðan önnur námskeið á meistarastigi úr háskólunum tveimur. Öll námskeið eru kennd á ensku.

Fyrsti árgangurinn kom í ágúst í fyrra, 13 nemendur í meistaranámi við REYST, sjö íslenskir, tveir frá Indónesíu og einn frá hverju þessara landa: Djibouti, Filippseyjum, Fílabeinsströndinni, Skotlandi og Þýskalandi. Annar hópur hóf nám hér nú í ágúst, einnig 13 talsins og þar eru sex íslenskir nemar og sjö erlendir frá Indlandi, Kólumbíu, Bandaríkjunum, Finnlandi, Eþíópíu og Taíwan. Nemendurnir hafa bakgrunnsmenntun, BS, í ýmsum greinum s.s. verkfræði, jarðfræði, jarðeðlisfræði, stærðfræði og viðskiptafræði. Nokkrir nemendanna hafa einnig MS gráður í raunvísindum. Þetta eru öflugur hópur og hefur ýmist nokkra reynslu úr atvinnulífinu eða er að koma beint úr grunnnámi við háskóla.

Nám við REYST fer fram á ensku og segir Edda Lilja að markhópur REYST sé allstaðar að úr heiminum. „Við höfum auglýst á erlendum vefsíðum um sjálfbæra orku, nýtum stórt tengslanet eigenda REYST – þ.e. samstarfsháskóla HÍ og HR erlendis og fjölmarga samstarfsaðila Orkuveitunnar erlendis. Þá höfum við kynnt REYST á fagráðstefnum hér á landi sem og erlendis,“ segir Edda Lilja.

Doktorsnám innan fimm ára

Edda Lilja segir að til viðbótar við meistaranámið muni skólinn bjóða upp á doktorsnám innan fimm ára. „Það var ákveðið að byrja á einu skrefi í einu og byggja REYST upp hægt en örugglega þar sem gæði og vönduð kennsla og rannsóknir er höfð að leiðarljósi. Á þann hátt erum við sannfærð um að framtíðarsýnin, að REYST sé leiðandi skóli á sviði sjálfbærrar orku og í fararbroddi alþjóðlega í öflugum rannsóknum og kennslu, muni rætast,“ segir Edda Lilja.

Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík bera faglega ábyrgð á náminu, en Orkuveitan er fjárhagslegur bakhjarl REYST ásamt því að vinna náið með háskólunum að hönnun námskeiða og þjálfun nemendanna í rannsóknarverkefnum.

Edda segir að mikilvægur samráðsvettvangur eigenda REYST sé svokallað fagráð. „Fagráð REYST er skipað fulltrúum allra samstarfsaðilanna. Helsta hlutverk þess er að þróa námið og setja saman námsskrá, skipuleggja fræðilegt og verklegt innihald kennsluskrár, gera tillögur um kennara og val nemenda auk þess að sjá um önnur þau málefni sem snerta faglega uppbyggingu REYST,“ segir Edda Lilja.

Fjármál og tæknimál tengd

Starfsvettvangur REYST er rannsóknir og rannsóknatengt framhaldsnám. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík bera faglega ábyrgð á náminu og munu háskólarnir útskrifa nemendur með sameiginlega prófgráðu. Skólinn er ætlaður fólki með BS gráðu í verkfræði og öðrum raunvísindum og viðskiptum sem hyggur á framhaldsnám á sviði sjálfbærrar orku.

Ein námsleiða REYST er viðskiptafræði – orkuvísindi og segir Edda Lilja að tilkoma námsleiðarinnar sé að oft skorti á að fjármálafólkið geti skilið hugtök tæknifólksins – og öfugt. „Tvö námskeiðanna sem eru kennd við skólann krefjast þess að allir nemendur úr þessu þremur greinum starfi saman að lausn verkefna. Við munum útskrifa sérfræðinga sem verða leiðandi í stjórnun, hönnun og rannsóknum um nýtingu sjálfbærrar orku. Einstæð reynsla og þekking samstarfsaðilanna er hinn trausti grunnur sem skólinn byggir á. Nemendur okkar öðlast reynslu við að vinna að raunverulegum verkefnum með fyrirtækjum í orkugeiranum, undir handleiðslu reyndra kennara við háskólana.

Nú stöndum við frammi fyrir því að einni stórri stoð – fjármálageiranum – hefur verið kippt undan efnahag landsins. Við þurfum að skjóta mörgum, minni stoðum undir í staðinn. Ein þeirra er orkugeirinn og þar er mikilvægt að sameina kraftana hér innanlands sem utan. Þó svo hægt hafi á orkuútrásinni í bili erum við þess fullviss að hún taki við sér aftur innan skamms. Þá þarf að eiga mannskap í verkin, bæði hér á landi og erlendis,“ segir Edda Lilja.

Skyldunámskeið

Inngangsnámskeið
(ásamt 5 daga vettvangsferð)

Inngangur að jarðfræði

Inngangur að orkutækni

Inngangur að orkuhagfræði

Yfirlit yfir sjálfbær orkukerfi

Þverfaglegt verkefni

Námskeið á viðskiptalínu

Alþjóðleg og evrópsk
orkulög

Arðsemismat og fjármögnun verkefna

Alþjóðleg samskipti,
samningar og stjórnun

Öll námskeiðin á viðskiptalínu eru skylda fyrir nemendur sem velja þá línu.

Námskeið á
verkfræðilínu:

Orkuberar og orkugeymsla

Mælingar og kerfisgreining í jarðhita-orkuverum

Valin viðfangsefni í
verkfræði

Námskeið á
jarðvísindalínu:

Greining borholugagna og forðafræði – stýring jarðhita- og vatnsforða

Nánari upplýsingar á
www.reyst.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga