Viðskiptasmiðjan er hraðbraut inn í nýja tíma

 Annað starfsár hjá Viðskiptasmiðjunni – hraðbraut nýrra fyrirtækja er að hefjast en það var Klak- Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins og Háskólinn í Reykjavík sem komu Viðskiptasmiðjunni á legg. Með því skyldi gefa frumkvöðlum möguleika á að stofna ný fyrirtæki eða koma fyrirtækjum sínum á rétta braut. Verkefnið er einungis eitt: Að búa til samkeppnishæft fyrirtæki.

 
Eyþór Jónsson

„Það eru allavega fimm góðar ástæður fyrir frumkvöðla og fyrirtæki á ólíkum stigum að vera í Viðskiptasmiðjunni,“ segir Eyþór Jónsson, en auk þess að vera framkvæmdastjóri Klaks kennir hann við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. „Frumkvöðlarnir í Viðskiptasmiðjunni eru sumir hverjir að taka fyrstu skrefin við koma fyrirtæki á fót en aðrir stýra fyrirtækjum sem þegar hafa náð langt en vilja komast á hraðbraut til árangurs.“ Þeir sem skemmst eru komnir fá aðstoð við að búa til viðskiptaáætlanir en hinir sem lengra eru komnir vilja skoða og endurskipuleggja stöðu fyrirtækisins og mögulega framtíð þess. Frumkvöðlar sem vilja taka að sér stjórnunarstöðu í vaxandi fyrirtæki fá einnig mikla þjálfun í stjórnun og stefnumótun. Í Viðskiptasmiðjunni fara þeir á nokkurs konar hraðbraut þar sem þeir geta endurskipulagt fyrirtækið og aukið enn vaxtarmöguleika þess.“

Ástæðurnar fimm
-Hverjar eru þessar fimm ástæður sem menn ættu að hafa í huga þegar þeir leita til Viðskiptasmiðjunnar?
„Í fyrsta lagi má nefna að í Viðskiptasmiðjunni styrkja menn stoðir fyrirtækisins sem er vissulega mikilvægt í þeim umhleypingum sem gengið hafa yfir Ísland að undanförnu,“ segir Eyþór. „Leiðbeinendur, sérfræðingar og kennarar hjálpa stjórnendum fyrirtækjanna að finna hvernig best sé að bregðast við aðstæðum. Þeir gefa einnig ráð sem skipta máli og marg borga sig í verðmætasköpuninni.

Í öðru lagi er frumkvöðlum kennt hvernig þeir skuli nálgast fjárfesta og styrktaraðila en þýðingarmikið er að skapa trúverðugleika gagnavart þeim, sem og lánastofnunum. Fjárfestar eru meðal ráðgjafa og kennara í Viðskiptasmiðjunni og kynnast frumkvöðlunum og fyrirtækjunum um leið og þeir hjálpa til við að auka fjárfestingarhæfni þeirra. Þetta getur haft úrslitaáhrif þegar leitað er eftir fjárfestum.
Í þriðja lagi skapast tengslanet nýrra og ört vaxandi fyrirtækja í Viðskiptasmiðjunni. Þar kemst á samstarf fremur en samkeppni nýrra og vaxandi fyrirtækja sem skiptir miklu í framþróun þeirra. Þarna skiptast menn á skoðunum og ráðum og vinna saman. Stjórnendur sem oft eru einangraðir fá hér möguleika á að skoða tækifæri og leita lausna á vandamálum með öðrum sem eru í svipaðri stöðu.

Fjórða ástæðan er að í Viðskiptasmiðjunni auka menn þekkingu sína á stjórnun og stefnumótun en þetta tvenn hefur verið vanmetið hér. Það er nefnilega ekki nóg að hafa fjármagn ef menn kunna ekki til stjórnunar né hafa mótað fyrirtækinu stefnu.

Fimmta ástæðan er tilgangur Viðskiptasmiðjunnar sem er að búa til ný fyrirtæki og sjá til þess að þau nái árangri en samtímis er hægt að stunda 90 eininga diplomanám við Háskólann í Reykjavik. Nemendur þurfa að taka níu námskeið, skila lokaverkefni eftir hverja önn og hljóta í lokin gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.“

Fjölbreytt námsframboð
Á hverju ári er boðið upp á 80-90 hnitmiðjuð námskeið í Viðskiptasmiðjunni sem velja má úr og spanna þau fimm svið: Stjórnun, stefnumótun, markaðsmál, fjármál og nýsköpun. Þessum námskeiðum svipar að einhverju leyti til MBA-námskeiða sem kennd eru víða í háskólum en eru þó markvissari og praktískari fyrir stjórnendur bæði nýrra og eldri sprotafyrirtækja. Einn meginkostur námsins í Viðskiptasmiðjunni er, að sögn Eyþórs, að þar eru nemendur að vinna verkefni sem eru ekki ímynduð heldur byggð á raunveruleikanum úr eigin fyrirtæki, eða fyrirtæki sem þeir eru í þann veginn að stofna. Viðskiptaáætlanir eru unnar jafnhliða því að fyrirtækin eru byggð upp og snúast um að tengja betur saman aðgerðir og áætlanir. Öll verkefni fjalla um fyrirtækið sem menn eru að búa til. Ráðgjafar og kennarar sem starfa við Viðskiptasmiðjuna gefa svo jafnóðum ráð og endurgjöf fyrir aðeins lítið brot af þeim kostnaði sem frumkvöðlar þyrftu annars að leggja út ef þeir vildu kaupa sér slíka sérfræðiþekkingu annars staðar.

Nemendahópurinn þrískiptur
„Að jafnaði hafa um 30 fyrirtæki, eða fulltrúar þeirra, notið leiðsagnar Viðskiptasmiðjunnar á hverri önn. Hópurinn skiptist í þrennt, nýliða, fólk frá fyrirtækjum sem þegar hafa tekið til starfa en þurfa aðstoð við að komast á verulegt flug og loks er þriðji hópurinn, þeir sem eru lengra komnir en vilja skoða nýjar leiðir í rekstrinum og ná enn lengra en þeir hafa þegar gert.“

Þar sem nemendur Viðskiptasmiðjunnar koma jafn víða að og raun ber vitni og eru á ýmsum aldri og með ólíka reynslu skapast mikil dýnamik innan hópsins. Þar fyrir utan hafa jafnvel komist á ný viðskiptasambönd milli þeirra ólíku fyrirtækja sem eiga þarna fulltrúa, sambönd sem ekki voru fyrir hendi áður en menn hittust í Viðskiptasmiðjunni. Við þetta má bæta að þegar komið hefur að því að menn hafa viljað sækja um styrki úr fjárfestingarsjóðum hefur reynsla þeirra sem þegar hafa hlotið styrki nýst þeim sem eru að sækja um í fyrsta sinn og hafa þeir jafnvel reynst bestu leiðbeinendurnir hvað umsóknarferlið varðar.

Næsta önn Viðskiptasmiðjunnar hefst 14. september næstkomandi en frumkvöðlar geta sótt um þátttöku í Viðskiptasmiðjunni þrisvar á ári, á haustönn, vorönn og sumarönn. Frumkvöðlar ráða hversu lengi þeir taka þátt en ferlið er í heild sinni þrjár annir eða eitt ár.

 www.klak.is

Spurning um trúverðugleika
Viðskiptasmiðjan er ákveðinn gæðastimpill og öryggisventill á íslensk sprotafyrirtæki. Styrktaraðilar og fjárfestar geta verið miklu öruggari um gæði og áræðni frumkvöðla og þeirra sprotafyrirtækja sem eru í Viðskiptasmiðjunni vegna þess að það er svo mikill fjöldi sérfræðinga sem er að hjálpa frumkvöðlum að byggja upp fyrirtæki sín. Fulltrúar styrktaraðila og fjárfesta eru einnig annað hvort dómarar í prófkynningum eða kennarar og ráðgjafar. Innlendir sjóðir hafa fjárfest í fyrirtækjum eins og Trackwell, AGR og Gogoyoko sem eru í Viðskiptasmiðjunni og átta fyrirtæki úr Viðskiptasmiðjunni hlutu styrki frá Tækniþróunarsjóði, þar á meðal Fafu, Remake Electronics og Vitver. Jafnframt eru erlendir fjárfestar að skoða fyrirtækin og nokkur fyrirtæki eru að sækja um erlenda styrki í samstarfi við Klak og Háskóla Reykjavíkur.

 

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga