Sprotaþing Íslands 9. október

Klak – Nýsköpunarmiðstöð rekur Sprotaþing Íslands sem var stofnað árið 2005 með þátttöku helstu hagsmunaaðila sprotafyrirtækja á Íslandi. Eitt helsta verkefni Sprotaþings Íslands hefur verið Seed Forum Iceland ráðstefnan sem hefur verið haldin tvisvar á ári. Sú tíunda verður haldin 9. október næstkomandi. Hlutverk Seed Forum er að hjálpa sprotafyrirtækjum að kynna sig fyrir fjárfestum og semja við þá og hafa mörg af þekktustu sprotafyrirtækjum landsins einmitt kynnt sig fyrst á þessum ráðstefnum.

Að jafnaði kynna um 4-6 íslensk fyrirtæki sig á hverri ráðstefnu og 2-4 erlend fyrirtæki. Öll þessi fyrirtæki fara í gegnum æfingabúðir með það að leiðarljósi að koma réttu boðunum til skila til fjárfesta. Að miklu leyti snýst þetta um að skapa trúverðugleika.

Eyþór Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks og stjórnarformaður Sprotaþings Íslands, segir að lengi vel hafi Seed Forum Iceland verið eini vettvangurinn þar sem eitthvað var gert til að kynna sprotafyrirtæki. Miklu meiri áhugi hefur hins vegar vaknað á nýjum og áhugaverðum fyrirtækjum á Íslandi síðustu misserin. Flestum kemur hins vegar á óvart hversu mikið líf er í grasrót fyrirtækjamarkaðarins. Á síðasta ári tók Eyþór saman lista yfir 100 áhugaverð íslensk sprotafyrirtæki fyrir Frjálsa verslun og urðu menn undrandi hversu mörg og fjölbreytt þau voru. Nú undirbýr hann nýjan lista og þar verða hvorki fleiri né færri en 200 fyrirtæki sem sýnir svo ekki um verður um villst að það er góður sprotavöxtur á Íslandi.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga