Símey, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar
                                       
                                         
  Nær hundrað námskeið í boði

Símey, sem er Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, mun á komandi önn bjóða upp á nærri hundrað námskeið og námsleiðir í samstarfi við fjölda aðila. Hjá SÍMEY má fimma allrahanda námskeið, starfstengd námskeið, námskeið til að efla persónuhæfni, tómstundanámskeið, tungumálanámskeið, tölvunámskeið og námsleiðir sem meta má til eininga á framhaldsskólastigi.

Erla Björg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir SÍMEY vera vettvang símenntunar á öllu Eyjafjarðarsvæðinu og hafi samstarf við sveitarfélögin. „SÍMEY hefur umsjón með símenntun starfsmanna í fjölda fyrirtækja í Eyjafirði. Þar fyrirfinnst mikil reynsla af því að klæðskerasníða námskeið eftir þörfum einstakra fyrirtækja eða hópa starfsmanna auk þess sem miðstöðin býður fyrirtækjum upp á þarfagreiningar með tilliti til sí- og endurmenntunar. Starfsmenn SÍMEY geta skipulagt námskeið fyrir starfsmenn fyrirtækja í heild eða leitt saman í hóp einstaklinga frá fyrirtækjum sem þurfa svipaða þjálfun eða fræðslu. Þetta er gert á forsendum fyrirtækjanna, hvort sem er í tíma eða rúmi og innan þess fjárhagsramma sem fyrirtækin vinna eftir.

Náms- og starfsráðgjafar á vegum SÍMEY fara mikið út í fyrirtækin á svæðinu með sína ráðgjöf en þá geta starfsmenn pantað viðtal hjá náms- og starfsráðgjafanum, sem hefur verið vel nýtt og gefið afar góða raun, oft sem fyrsta skrefið í þá átt að bæta við sig þekkingu og frekara námi,“ segir Erla Björg.

Hún segir SÍMEY vera símenntunarmiðstöð fyrir fullorðið fólk, sem þjónusti jafnt einstaklinga, fyrirtæki og fræðara. „Við kappkostum að bjóða einstaklingum upp á fjölbreytt náms- og þjálfunartilboð, höfum umsjón með fræðslustarfsemi fjölda fyrirtækja og erum í frábæru samstarfi við fjölda fræðara jafnt á Eyjafjarðarsvæðinu sem utan þess. Við erum t.d. að hefja samstarf við Fjölmennt, sem er símenntunarmiðstöð fyrir fullorðið, fatlað fólk,“ segir Erla Björg.

Lágmarksþátttöku
löngu náð

Erla Björg segir stöðuna á vinnumarkaði í Eyjafirði í raun vera bjartari nú fyrir haustið en reiknað var með. „Uppsagnir sem til stóð að kæmu nú til framkvæmda hafa frestast og vonir standa til að jafnvel komi ekki til þeirra. En auðvitað hafa Eyfirðingar fundið heilmikið fyrir þeim erfiðleikum sem þjóðfélagið allt hefur staðið frammi fyrir. Fólk er mikið að velta fyrir sér hvernig það geti notað þennan tíma til að efla sig enn frekar. Þeir sem eru í starfi vilja bæta við sig með því að taka starfstengd námskeið og mjög margir aðrir hugsa sér að nota þennan tíma til að koma sér aftur af stað í nám, sem þeir hafa hugsanlega ekki klárað á sínum tíma. Þetta sjáum við hvað best á skráningum í námsleiðir sem verða í boði á önninni og meta má til eininga á framhaldsskólastigi. Lágmarksþátttöku í þær allar vorum við búin að ná áður en farið var af stað í kynningar af nokkru tagi,“ segir Erla Björg.

SÍMEY - Þórsstíg 4 - 600. Akureyri - Sími 460-5720
erla@simey.is   www.simey.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga