Virk upplýsingaveita fyrir menntaveginn

Virk upplýsingaveita þeirra sem vilja ganga menntaveginn

 Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi fagnar sínu tíu ára starfsafmæli á þessu ári og segir Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdarstjóri SV, að á þeim tíma hafi oft verið þörf á starfsemi SV, en nú sé það nauðsyn að hennar mati.

Úr starfi Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi

SV er þessa dagana að leggja lokahönd á námsvísi haustannar, en það er stefnt á að hann komi inn um bréfalúgurnar föstudaginn 4. september. Inga Dóra segir þar vera að finna yfirlit yfir flest námskeiðin, en undantekningalaust þurfi einnig að bregðast við eftirspurn og sníða námskeið eftir þörfum hverju sinni og oftar en ekki með stuttum fyrirvara.

Fyrstu námskeiðin hefjast síðan um miðjan september, en ýmiss konar námskeið verða í boði jafnt og þétt alla önnina. Námskeiðin eru birt jafnóðum á vef Símenntunar þannig að það er um að gera að fylgjast með á www.simenntun.is

Fjölbreytt nám

Inga Dóra segir markmið SV einkum vera að bjóða upp á fjölbreytt nám, bæði styttri og lengri námsleiðir, við hæfi sem flestra á svæðinu og færa fólki námstækifærin heim í hérað. „Það er stór hópur fólks á vinnumarkaði og atvinnuleitendur þar með taldir sem hafa stutta formlega skólagöngu að baki en langar í nám og þessir einstaklingar eru m.a. hluti af okkar markhópi.

Við erum með samning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem felur m.a. í sér að sinna þessum hópi sérstaklega og þá með námsframboði við þeirra hæfi og náms- og starfsráðgjöf.

Við leggjum líka mikið upp úr að byggja upp gott tengslanet á svæðinu og vera í góðri samvinnu við menntastofnanir, stéttarfélög, sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki.

Eitt af markmiðum okkar felst einnig í því að vera virk upplýsingaveita um námsmöguleika fullorðinna og greiða leið þeirra sem hyggjast ganga menntaveginn,“ segir Inga Dóra.

Ótrygg staða ófaglærðra

„Það sem kemur nýtt inn hjá okkur í haust er svokallað raunfærnimat sem við bjóðum upp á í samstarfi við Fjölbrautaskóla Vesturlands, Iðuna-fræðslusetur og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Við munum bjóða upp á raunfærnimat í húsasmíði og vélvirkjun, en raunfærnimat er leið til að meta þá færni sem einstaklingar hafa aflað sér í námi og starfi.  Markhópurinn er einstaklingar, sem ekki luku iðnnámi en eru starfandi í starfsgreinum tengdu náminu sem þeir hófu.  Staða þessara einstaklinga á vinnumarkaði er ótrygg, og því mikilvægt að finna úrræði sem gerir þeim kleift að ljúka námi og öðlast réttindi í faginu. 

Við bjóðum einnig upp á námsleiðir eins og Skrifstofuskóla, Grunnmenntaskóla og Fagnámskeið fyrir heilbrigðis- og félagsþjónustu en þetta er fjármagnað með samningi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Einnig bjóðum við upp á tungumálanámskeið, matreiðslu, handverk, lífsstílsnámskeið og tölvunámskeið í staðnámi og í fjarnámi í samstarfi við Háskólann á Bifröst. Við munum líka bjóða upp á námskeið í Njálu í samstarfi við Snorrastofu og Landnámssetur, en þá hittist fólk einu sinni í mánuði með sérfræðingum í viðkomandi Íslendingasögu og undantekningalaust skapast miklar umræður um viðfangsefnið hverju sinni. Auk allra námskeiðanna bjóðum við upp á ókeypis náms- og starfsráðgjöf fyrir alla, áhugasviðspróf á vægu verði og greiningar á lestrarerfiðleikum svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Inga Dóra.

Eitt af hlutverkum er að þjónusta háskólana og fjarnema, en fjarnemar geta tekið próf hjá SV. „Nemendum hefur fjölgað undanfarið sem nýta sér þessa þjónustu, en þetta er enn einn liðurinn að þjónusta íbúana á svæðinu,“ segir Inga Dóra.  

Það er stór hópur fólks á vinnumarkaði og atvinnuleitendur þar með taldir sem hafa stutta formlega skólagöngu að baki.Símenntunarmiðstöðin
Box 32 - Bjarnarbraut 8
310 Borgarnesi
Sími 437 2390 - Fax 437 1494
simenntun@simenntun.is
www.simenntun.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga