Kennslustundin nýtist strax - Alþjóðahúsið hefur boðið upp á starfstengda íslenskukennslu síðan árið 2005
 

Nám Alþjóðahússins aðstoðar einstaklinga við aðlögun einstaklinga inn í samfélagið.
 

Alþjóðahúsið hefur boðið upp á starfstengda íslenskukennslu síðan árið 2005, og segir Ingibjörg Hafstað, kennslustjóri íslenskukennslu, að slíkt nám sé gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag.

Hugmyndafræði starfstengda íslenskunámsins er að nemendur geti notað það sem lært er í hverjum tíma strax á þeim vettvangi sem það starfar. „Við kennum á vinnustöðunum og reynum að vinna með þann orðaforða og tungutak sem fólkið þarf nauðsynlega á að halda. Hefðbundin tungumálakennsla er yfirleitt frekar almenn, en við reynum að finna það sem fólk þarf og getur notað í starfi sínu. Þetta hefur verið sérstaklega áhugaverð nálgun fyrir vinnustaði eins og leikskóla og umönnunarheimili þar sem mannleg samskipti skipta höfuðmáli.

Svo eru minni félagsleg tengsl milli starfsfólks til dæmis í  byggingariðnaði og fiskvinnslu. Þar höfum við verið að einbeita okkur að réttindum og skyldum á íslenskum vinnumarkaði og kynningu á íslensku samfélagi.  Við reynum að nýta íslenskukennsluna til að gefa nauðsynlegar upplýsingar um nýja samfélagið. Í því starfi höfum við til dæmis rekist á fólk sem hefur talið sig vera skráð inn í kerfið en verið í raun utan þess, á utangarðsskrá af því það býr ekki í húsnæði sem er viðurkennt sem lögheimili, til dæmis gistiheimili,“ segir Ingibjörg. Það er ekki einfalt mál að fá nauðsynlegar upplýsingar þegar maður veit ekki hvers þarf að spyrja.

Við reynum einnig að kynna menningarviðburði og annað sem í boði er. Öllum nemendum okkar er meðal annars boðið upp á kynningarferð í Borgarbókasafnið.

Til viðbótar við starfstengda námið hefur Alþjóðahúsið aðstoðað þá hópa sem ekki hafa fengið þjónustu annars staðar. „Við höfum verið með kennslu fyrir ólæst fullorðið fólk, sjálfsstyrkingu fyrir konur sem hafa félagslega veika stöðu,  hópa fyrir unglinga sem ekki passa inn í íslenskt skólakerfi og svo höfum við verið með sérstaka hópa í framburði fyrir asíubúa. Þeim reynist mörgum verulega erfitt að ná utan um íslenska hljóðkerfið,“ segir Ingibjörg. Hún segir nám af þessum toga vera afar þýðingarmikið fyrir aðlögun einstaklinga inn í samfélagið, til dæmis hafi margir innflytjendur af asískum uppruna hreinlega gefist upp á íslenskunámi vegna erfiðleika með framburð. „Fólk var kannski búið að stunda nám af mikilli iðjusemi og dugnaði en gat samt ekki gert sig skiljanlegt við heimamenn og veldur það auðvitað ákveðinni einangrun,“ segir Ingibjörg.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga