Atvinnutengd starfsþjálfun hjá Ekron

EKRON á Grensásvegi 16.a er sértæk einstaklingsmiðuð atvinnutengd starfsþjálfun og endurhæfing fyrir einstaklinga með skerta vinnufærni sökum afleiðinga af áfengis- og vímuefnasýki. Starfsþjálfunin og endurhæfingin er þátttakendum að kostnaðarlausu. Í upphafi þátttöku er lögð áhersla á að aðstoða þátttakendur við að vinna úr lögreglu- og dómsmálum, koma reglu á og fá yfirsýn yfir skuldastöðu og efla tengsl við fjölskyldu. Unnið er með sjálfsstyrkingu, fortíð, bakfallsvarnir og önnur persónuleg vandamál í reglulegum einkaviðtölum hjá ráðgjafa. Á námskeiðum er unnið með gerð ferilskrár, vinnumöppu, sjálfsstyrkingu, fjármál, samskiptafærni, heimilisfræði, tréútskurð o.fl.

Herdís Hjörleifsdóttir félagsráðgjafi segir flesta þeirra skjólstæðinga vera ungt fólk, en þó megi finna fólk allt frá 18 ára til 55 ára. Margir þeirra skjólstæðinga hafa aldrei verið á vinnumarkaðnum og því sé aðstoð Ekron við þá eftir áfengis- eða fíknaefnameðferð þeim gríðarlega mikils virði. Hlutfall vímuefnafíkla hefur verið að aukast, en um 70 manns geta verið í starfsþjálfun hjá Ekron á hverjum tíma. Flestir þeirra sem sækja starfsþjálfun hjá Ekron hafa aðeins lokið grunnskólanámi og mjög margir eru þjáðir af þunglyndi eða ofvirkni. Bæjarfélögin Kópavogur og Hafnarfjörður styrkja Ekron um sem svarar 8 plássum og í gangi eru samningaumleitandir við ríkisvaldið um styrk til starfseminnar.

Frá því að Ekron hóf starfsemi í júlí 2007 hafa um 20 einstaklingar útskrifast í vinnu, sex í nám, níu þátttakendum verið vísað í önnur úrræði, 22 féllu, sex hættu án ástæðu og einn fór í afplánun. 31% héldu áfram í endurhæfingu, 24% féllu, 21% útskrifuðust í vinnu, 10% var vísað í önnur úrræði, 6% útskrifuðust í nám og 6% hættu án ástæðu en aðrar ástæður vógu minna.

Starfsfólk Ekron leggur mikla áherslu á að vera í góðu samstarfi við meðferðarstofnanir, sjúkrahús, heilsugæslu, lögreglu, Fangelsismálastofnun, félagsþjónustu og Tryggingastofnun ríkisins. Einnig við fjölskyldur þátttakenda eftir þörfum hvers og eins.

Með endurhæfingu eins og Ekron má fækka afbrotum, ofbeldisglæpum, innlögnum á sjúkrahús, lækniskostnaði, fangelsisvistun, barnaverndarmálum o.fl. Út í þjóðfélagið koma einstaklingar sem lifa heilbrigðu lífi, hugsa um börnin sín og greiða sína skatta og skyldur. Árangur Ekron hefur verið mjög góður miðað við rannsóknir sem gerðar hafa verið á bata vímuefnaneytenda en það er markmið Ekron að sporna við þeirri þróun sem á sér stað hjá einstaklingum sem ekki hafa náð bata eftir vímuefnameðferðir.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga