Fjölmenningarleg fræðslumiðstöð - InterCultural Ísland er fjölmenningarleg fræðslumiðstöð
 
InterCultural Ísland er fjölmenningarleg fræðslumiðstöð og túlka- og þýðingaþjónusta. Fyrirtækið hefur starfað í rúmlega sex ár, var upphaflega stofnað af fimm konum, sem allar höfðu menntun eða reynslu á sviði fjölmenningarlegrar kennslu og fordómafræðslu og þótti vanta framboð á faglegum námskeiðum á þessu sviði. ICI er algjörlega sjálfstætt og óháð enda ekki rekið í hagnaðarskyni og nýtur engra styrkja, hvorki opinberra né frá fyrirtækjum. Fastir starfsmenn eru þrír á Íslandi og einn í hlutastarfi í Þýskalandi auk fjölda verktaka.

ICI býður upp á margvísleg námskeið er snúa að fjölmenningu, fordómum og fjölmenningarlegri kennslu.

Helstu verkefni ICI eru þríþætt: Fyrst ber að nefna túlka- og þýðingaþjónustu, en ICI hefur á sínum vegum 120 túlka og þýðendur og getur veitt þjónustu á 65 tungumálum. ICI leggur mikla áherslu á góða þjálfun og endurmenntun þeirra túlka sem fyrir það starfa og því eru haldin regluleg endurmenntunarnámskeið og fræðslufundir fyrir þá sem þegar hafa lokið byrjendanámskeiðum. Allir túlkar sem starfa fyrir ICI þurfa að ljúka þremur stigum byrjendanámskeiða sem ICI býður upp á áður en þeir hefja störf. ICI er aðili að rammasamningi Ríkiskaupa um túlkaþjónustu og sinnir því fjölmörgum verkefnum fyrir ríki og sveitarfélög.

Fræðsla og námskeiðshald er annar aðal áhersluþáttur fyrirtækisins. ICI hefur frá upphafi boðið upp á margvísleg námskeið er snúa að fjölmenningu, fordómum og fjölmenningarlegri kennslu. Námskeiðin eru ætluð ólíkum hópum fólks og eru sniðin að þörfum þátttakenda og markmiðum. Endurmenntunarnámskeið fyrir kennara eru þau námskeið sem mest hefur verið sóst eftir undanfarin ár en þau eru 35 klst. námskeið sem dreifast yfir skólaárið. Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri ICE segir námskeiðin alltaf vera mjög „praktísk“ og kennarar reyni aðferðirnar sem kynntar eru með nemendum sínum á milli námskeiðsdaga. „Við heyrum oft þann misskilning að fjölmenningarleg kennsla snúist fyrst og fremst um kennslu innflytjenda en í raun er megin markmið hennar að undirbúa alla nemendur undir líf í fjölbreyttu samfélagi og að tryggja jafnan aðgang allra að lærdómsferlinu. Þannig eru aðferðirnar til þess fallnar að koma ákv. námsefni til skila til nemenda en á þann hátt að nemendur með hæfni á ólíkum sviðum geti tileinkað sér efnið og um leið örva samvinnu- og samskiptahæfni nemenda, nýta fjölbreytileika hópsins þannig að nemendur þjálfi t.d. frumkvæði, skapandi- og gagnrýna hugsun, sveigjanleika, málamiðlanir og sjálfstæð vinnubrögð. Með fjölbreyttum kennsluaðferðum og áherslum læra nemendur og kennarar að meta fjölbreytileikann í stað þess að líta á hann sem vandamál eða hindrun. Kennarar vinna því óbeint gegn fordómum og útilokun í gegnum aðferðirnar sem þeir nota en ekki með sérstakri fræðslu eða predikunum um efnið,“ segir Guðrún.

Þriðji þáttur í starfi ICI snýr að evrópsku samstarfi. ICI hefur frá upphafi tekið þátt í evrópskum samstarfsverkefnum Menntaáætlunar Evrópusambandsins. Nýlega lauk tveggja ára samstarfsverkefni með þýskum, ítölskum og spænskum stofnunum en það verkefni snerist um tengslin milli fjölmenningarlegrar hæfni og frumkvöðlahugsunar og hvernig örva megi þessa þætti hjá nemendum í fullorðinsfræðslu. „Þau evrópsku samstarfsverkefni sem ICI tekur þátt í um þessar mundir eru tvö. Annars vegar verkefni á vegum Leonardo áætlunarinnar en það snýst um að safna og vinna að aðferðum innan verknámsskóla sem vinna gegn brottfalli nemenda úr verknámi og er ICI í samvinnu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í þessu verkefni auk stofnana og skóla frá Skotlandi, Frakklandi, Tyrklandi, Belgíu og Finnlandi. Hitt verkefnið sem við tökum þátt í núna er á vegum Grundtvig áætlunarinnar og snýst um óhefðbundnar kennsluaðferðir í fullorðinsfræðslu og eru samstarfslöndin Þýskaland, Austurríki, Bretland og Ítalía,“ segir Guðrún.

Auk þessa hefur ICI boðið upp á endurmenntunarnámskeið fyrir evrópska kennara síðan 2004 en þá koma kennarar allra skólastiga til Íslands á vikunámskeið þar sem þeir læra um fordóma og fordómafræðslu og fjölmenningarlega kennslu.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga